Af kjarnakonum í UN women

Salka Margrét og Kristín María ræða starf UN Women, jafnréttismál og framtíðina.

Salka Margrét Sigurðardóttir er tuttugu og tveggja ára nemi með meiru. Í vor kláraði hún BA í stjórnmálafræði og í haust stefnir hún á mastersnám í heimspeki og opinberri stefnumótun í London. Salka hefur verið formaður Ungmennaráðs UN Women síðan það var sett á fót á Íslandi fyrir tveim árum en segir nú skilið við embættið og í stað hennar kemur Kristín María Erlendsdóttir sem hefur setið í stjórn félagsins síðastliðið ár. Ég mæli mér mót við Kristínu og Sölku á heimili Kristínar í Skerjafirðinum þar sem við ræðum starf UN Women, jafnréttismál, nám og framtíðina. Heimiliskettirnir Símon og Jói taka glaðhlakkalegir á móti mér og kaffiilmurinn fyllir vit mín. Kræsingarnar blasa við inni í eldhúsi en þar er gestgjafinn búinn að leggja á borð. Þetta lofar góðu.

Ég spyr þær um starf Un Women og Salka er fljót að svara: „Un Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur eingöngu í þágu kvenna. Hún vinnur að pólitískri og efnahagslegri valdaeflingu kvenna á sama tíma og það er barist gegn ofbeldi gegn konum.“ Á Íslandi felst starfið í því að afla fjár og auka vitundavakningu. „Jafnframt er vitundavakning um femínisma og jafnrétti kvenna á alþjóðavísu eitt mikilvægasta verkefnið. Það er eitt af því sem ungmennaráðið hefur verið að gera.“ Ungmennaráðið heyrir undir íslensku landsnefnd UN Women en hún er ein sú öflugasta á alheimsvísu, ásamt Ástralíu. Allir geta tekið þátt í starfinu, óháð kyni. Nú sitja níu manns í stjórn, þar af þrír karlmenn. Einstaklingar eru helstu styrktaraðilarnir en á Íslandi eru þúsundir „systra“ sem styrkja samtökin og rennur fjármagnið annars vegar í styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum, og hins vegar í Jafnréttissjóðinn, sem stuðlar að pólitískri og efnahagslegri valdaeflingu kvenna.

Salka er alin upp á Akranesi á mjög pólitísku og femínísku heimili. Hún kláraði menntaskólann á þrem árum og hóf nám í félagsfræði í eina önn en vissi innst inni að hún ætti heima í stjórnmálafræði og skipti því yfir. Á meðan á náminu stóð kviknaði áhuginn á framhaldsnáminu; heimspeki og opinberri stefnumótun. „Þetta er kannski svona hugmynd að útfæra heimspekina á praktískan og pólitískan hátt. Mér hafa alltaf verið hugleiknar spurningar um frelsið, réttlætið og hugmyndafræði – á hverju skal byggja samfélagsgerð okkar.“ Skólinn heitir London School of Economics and Political Science og er einn af fremstu félagsvísindaskólum heims.

„Þetta er kannski svona hugmynd að útfæra heimspekina á praktískan og pólitískan hátt. Mér hafa alltaf verið hugleiknar spurningar um frelsið, réttlætið og hugmyndafræði – á hverju skal byggja samfélagsgerð okkar.“

Salka hefur alltaf haft nóg fyrir stafni og þannig segist henni líða best. „Fólk spyr mig af hverju ég slaki ekki á. Af því að mig langar ekki til þess,“ svarar hún jafnharðan og hlær. Hún var í Röskvu öll sín ár í háskólanum og sat í Stúdentaráði, jafnframt því sem hún var formaður Ungmennaráðs UN Women, í stjórn Landssambands æskulýðsfélaga og auk þess í stjórn nemendafélags stjórnmálafræðinema svo nokkuð sé nefnt. Beðin um að lýsa dæmigerðum degi segir hún: „Ég fór kannski úr húsi klukkan átta á morgnana og kom heim klukkan tólf á kvöldin. Ég hlóð á mig verkefnum en náði samt að sinna því skilvirkt. Fór í skólann, mætti á þrjá til fjóra fundi og svo fór maður kannski á barinn á kvöldin. Það er einhvern veginn alltaf tími fyrir skemmtun. Sú klisja að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi er bara svo sönn.“

Kristín María kynntist UN Women fyrir ári en þá mætti hún á fyrsta fundinn og vissi ekkert um hvað starfið snerist. Vinkona hennar hafði sannfært hana um að þetta væri kjörið fyrir hana svo hún sló til og bauð sig fram í stjórn. „Ég mætti á fyrsta fundinn og kynnti mig: Ég heiti Kristín og ég veit ekkert hvað UN Women er en mig langar samt að taka þátt,“ segir hún og hlær. „Þetta hljómaði eins og eitthvað sem væri mér hugleikið.“ Kristín hefur alltaf verið mjög meðvituð um jafnréttismál en hún segir foreldra sína mikla femínista. „Ég og bróðir minn höfum alltaf verið alin upp á jafnréttisgrundvelli. Þaðan held ég að áhrifin komi.“ Salka bætir við: „Varðandi áhrifin held ég að það sé líka mjög mikilvægt hvernig skilaboð samfélagið sendir; hvernig barnaefni þú horfir á, hvað þú lest í tímaritum. Ef þú ert meðvitaður um femínisma og sérð að femínismi er töff þá auðvitað pikkarðu það upp. Mitt endanlega markmið er að gera femínisma geðveikt kúl því jafnrétti kynjanna verður auðvitað að verða meginstraumurinn ef það á að verða að veruleika.“

Í júní fór Kristín, ásamt kærasta sínum og foreldrum, á jafnréttisráðstefnuna Nordiskt Forum í Svíþjóð. „Þar var alltaf verið að hamra á því að femínismi væri kúl og að hann kæmi í alls kyns formum.“

„Þú getur verið myndarleg, klæðst fallegum fötum og þú mátt vera þú sjálf eins mikið og þú vilt. Lesið slúðurblöð eða fréttablöð eða hvað sem er. Femínismi kemur í svo mörgum formgerðum.“

Aðspurð um námið segir hún: „Ég er búin að taka einn áfanga í stjórnmálafræði, einn áfanga í kynjafræði og er í pásu þetta árið en ætla svo að byrja aftur á næsta ári. Ég ætla að taka alþjóðasamskipti í master og er rosa mikið að velta því fyrir mér hvað ég eigi að taka í grunninn. Ég mun samt að öllum líkindum byrja aftur í stjórnmálafræðinni og taka eitthvað aukafag með,“ segir Kristín og bætir við: „Það liggur ekkert á, ég þarf ekkert að vera komin með master 25 ára, ég ætla að einbeita mér að UN verkefninu núna og bara njóta.“

En hvað er á döfinni hjá ungmennaráðinu?

„Háskóli Íslands hafði samband við okkur og bað okkur að taka þátt í jafnréttisdögum. Svo nú erum við, í þessum töluðu orðum, að skipuleggja eitthvað fyrir það. Við ætlum að byrja þetta af krafti með skemmtilegum viðburði í Stúdentakjallaranum, að öllum líkindum, í október. Við ætlum að vera virk og flott og reyna að gera betur en í fyrra,“ segir Kristín. Salka hlær og bætir við: „Það er svo mikilvægt að svona ungmennaráð festist ekki í einhverri íhaldssemi, það verður alltaf að gera eitthvað nýtt og ferskt.“