„Við megum ekki fría okkur ábyrgð“
Rannveig sker upp herör gegn mýtum um kynlíf, klám og nauðganir.
Rannveig Ágústa útskrifaðist í vor með B.A. próf í uppeldis- og menntunarfræðum en í lokaritgerð sinni fjallar hún um viðbrögð femínínískra grasrótarhópa við klámvæðingu, skort á kynfræðslu og nauðganir í samböndum unglinga. Hún segir að kynfræðsla sé af afar skornum skammti og því hafi klám og klámvæðing mikil áhrif á hugmyndir unglinga um kynlíf. Síðustu ár hafa grasrótarhópar svo sem Fáðu Já, Barningur og Samþykki er sexý verið starfrækti til þess að mæta þörf unglinga á fræðslu um kynlífi en að sögn Rannveigar eigum við enn þá langt í land þegar kemur að viðhorfum samfélagsins til kynferðisafbrotamála. *Trigger Warning*
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að rannsaka þetta efni?
Mig langaði til að stuðla að aukinni vitundarvakningu um nauðganir í samböndum unglinga en það sló mig mikið að viðfangsefnið fellur illa að réttarkerfinu, lítið er um rannsóknir og umræðan er mjög takmörkuð. Í kjölfarið fór ég að skoða kynfræðsluna sem er í boði fyrir þennan aldurshóp ásamt þeim hugmyndum sem við fáum um kynlíf úr klámi.
Af hverju heldurðu að það sé lítil umræða um nauðganir í samböndum unglinga?
Unglingar virðast oft gleymast í umræðunni um nauðganir því þeir hafa oft ekki vit á því sjálfir að vekja athygli á sínum málefnum. Þegar þú ferð sem unglingur inn í samband ertu oftast ekki með neina reynslu af samböndum og kynlífi. Margir eru ekki búnir að finna sín mörk og geta því haldist lengi í óheilbrigðu sambandi, án þess að átta sig á að verið sé að beita þá ofbeldi. Unglingar geta orðið fyrir ofbeldi í samböndum hvort sem það er líkamlegt, andlegt eða kynferðisofbeldi.
Hvernig finnst þér umræðan um kynlíf hjá unglingum almennt?
Mér finnst hún voða takmörkuð og mikið um meginstraumsmiðuðum skilaboðum um kynlíf, þar sem fólk er alltaf til í að stunda kynlíf um leið, útlitskröfurnar eru óraunhæfar og valdamunur kynjanna er mikill.
„Hún sýnir í raun mjög brenglaða mynd af kynlífi og því er ekki skrítið að unglingar hafi mjög skekkta mynd þegar þeir byrja að stunda kynlíf. Það getur verið flókið að gagnrýna sína eigin menningu og mynda sér skoðanir á henni.“
Auðvitað eru undantekningar, en ef maður alhæfir og aðgreinir þekkingu unglinga í tvo hópa þá kemur grunnþekking annars hópsins frá klámi eða einhverjum tónlistarmyndböndum þar sem klám er „normalíserað“. En hugmyndir hins hópsins koma úr rómantískum gamanmyndum eða einhverjum fallegum glanstímaritum þar sem allt gengur upp og allir eru „prince charming“. Svo hittast þessir hópar og ætla að fara að stunda kynlíf! Það gengur ekki upp. Þessir hópar eru með ofboðslega ólíkar hugmyndir um hvað er að fara að gerast.
Hvernig væri hægt að koma í veg fyrir þessa þróun?
Það skiptir grundvallarmáli að kynfræðslan byrji áður en krakkar fara að horfa á klám til þess að hún verði þeirra grunnþekking um kynlíf. Eins og Thomas Brorsen Smidt sem hefur verið að rannsaka áhrif kláms bendir á að ef unglingar eru ekki með neina þekkingu um kynlíf, á klámið miklu greiðari leið inn í þeirra skoðanir og það getur verið hættulegt. Ekki þar með sagt að það sé hættulegt fyrir unglinga að horfa alltaf á klám, því ef þú ert með einhverja þekkingu fyrir þá geturðu vegið og metið hugmyndirnar og kastað í burtu því sem þú vilt ekki að hafi áhrif á þig. Hann tekur bókina Mein Kampf eftir Hitler sem dæmi. Ef við myndum lesa hana í dag yrðum við ekki nasistar, því við höfum alls konar hugmyndir um Hitler, um mannréttindi og alls konar hluti sem vegur upp á móti hugmyndum Hitlers. En ef við værum þýsk og arísk á tímum Hitlers og myndum í þeim aðstæðum lesa bókina, þá væri bara mjög líklegt að við yrðum nasistar. Þannig að samþykki og „normalísering“ þess samfélags sem við tilheyrum skiptir líka miklu máli um hvaða þætti úr klámi við samþykkjum eða höfnum.
Þú talar í ritgerðinni um nauðgunarmýtu sem er ríkjandi í okkar samfélagi. Hvað viltu segja okkur um þau viðhorf?
Samfélag okkar er uppfullt af alls konar mýtum um það að nauðganir gerist ekki í samböndum, heldur niðri í bæ á djamminu og í húsasundum. Langflestar nauðganir gerast hins vegar á heimilum þar sem ofbeldismaðurinn er vel þekktur. Hins vegar er lítið tala um þessi tilvik, þau komast aldrei í fréttir, af því það er óþægilegt. Það var til dæmis ekki fyrr en árið 1997 sem því var breytt í lögum að hægt væri að dæma einhvern fyrir að nauðga í hjónabandi. Fyrir það var þetta bara óskráður réttur í hjónabandi, óskráður réttur eiginmanna. Þær nauðganir sem eru dæmdar – eru þó aldrei þessar nauðganir.
Hvað kom þér hvað mest á óvart í rannsókninni þinni?
Ég fékk að heyra frá Stígamótum að núna væru 15 til 16 ára stelpur sem búnar að upplifa nauðgun í sambandi og eru að reyna fá fyrrverandi kærasta dæmda. Réttarkerfið tekur mið af því hver samskiptin voru fyrir ofbeldisverknað, þannig að ef samskiptin voru „...við vorum ástfanginn, við byrjuðu saman, við erum búin að stunda kynlíf...“ er það erfitt að eiga við fyrir dómi. Slík mál fá því lítinn hljómgrunn jafnvel þótt þær sýni læknisvottorð með líkamlegum eða sálrænum áverkum. Þá eru dæmi um mál sem er vísað frá því áverkarnir gætu verið eftir langvarandi harkalegt kynlíf. En þá spyr maður sig, hvað er samfélagið okkar að segja ef við samþykkjum að það sé eðlilegt að manneskja sem er 15 eða 16 ára gömul sé með áverka eftir langvarandi harkalegt kynlíf? Erum við þá ekki með svolítið brenglaða hugmyndir um kynlíf?
Þú talar mikið um skrímslavæðingu sem á sér stað í samfélaginu í nauðgunarmálum. Geturðu útskýrt það frekar?
Þeir fáu dómar sem komast í gegn búa oft til þá hugmynd að ofbeldismenn séu skrímsli sem eigi ekkert gott skilið og að þá eigi að útskúfa úr samfélaginu. Til dæmis málið með Karl Vigni, sem er ofboðslega sorgleg mál. En það er líka sorglegt að sjá viðbrögð samfélagsins; hvernig það rís upp á afturfæturnar og er tilbúið að fara á eftir manneskjunni nánast með kyndil og heygaffal.
Við sem samfélag getum ekki fríað okkur ábyrgð og skýlt okkur á bak við það að nóg sé að henda einhverjum í steininn, þá sé málið afgreitt. Það er nefnilega einhver ástæða fyrir því að ofbeldismenn hafa svona ofboðslega skekkta mynd af kynlífi og samskiptum. Við þurftum því að velta því fyrir okkur hvernig við getum komið í veg fyrir að fólk hafi þessar brengluðu hugmyndir.
„Ég held að allir í íslensku samfélagi geti fundið einhvern í sínu nánasta umhverfi sem hefur orðið fyrir ofbeldi. Það þekkja allir brotaþola og það eru allir tilbúnir til að þekkja brotaþola. En það er enginn tilbúinn til þess að þekkja ofbeldismann.“
Það er enginn tilbúinn til að hafa nauðgara í fjölskyldunni sinni eða nauðgara sem vin. Hvert áttu að leita ef það vill enginn þekkja og hjálpa nauðgaranum? Þessir einstaklingar þurfa líka aðstoð til þess að vinna úr sínum málum en fyrst og fremst þurfum við að hafa sterkar forvarnir til þess að uppræta svona hugmyndir.
Af hverju heldur þú að brotaþolar upplifi oft á tíðum mikla skömm í samböndum þar sem þeir hafa verið beittir kynferðisofbeldi?
Skömm er svo brjálæðislega margþætt hugtak. Það er skömmin fyrir að hafa ekki vitað betur, skömmin fyrir að hafa ekki verið samkvæmur sjálfum sér, skömmin fyrir að vera tepra. Hún fylgir ofboðslega oft brotaþolum sambandsnauðgana með því að segja: „Það gera þetta allir, þessi leyfir þessum að gera þetta…“. Í svona samböndum fylgir oft andlegt ofbeldi þar sem mörk brotaþolans eru brotin niður, hafi þau verið til staðar fyrir. Þá verður enn þá erfiðara að koma auga á og segja frá kynferðisofbeldi því það er kannski búið að skera á vinatengsl og öryggisnet eða brjóta niður kjarkinn til að fara. Við beinum gjarnan athyglinni að brotaþolum í ofbeldissamböndum og spyrjum: „Afhverju fórstu ekki?“ Í staðin fyrir að segja við ofbeldismenn: „Afhverju beitirðu kærustuna þína ofbeldi?“. Samfélagsskömmin er sett á alltof vitlausan stað. Kannski það sé ástæðan fyrir því að þú tekur skömmina að þér, vegna þess að allir aðrir eru búnir að gera það hvort sem er. Af hverju ættir þú ekki að taka þessa skömm þegar allir aðrir eru búnir að ákveða að þetta sé þín ábyrgð.
Hvað finnst þér mikilvægt að fólk sé meðvitað um sem er í þessum aðstæðum?
Mér finnst ótrúlega mikilvægt að fólk finni að það sé til útgönguleið. Þótt samfélagið sé ekki komið á þann stað að vera með kynfræðsluna og undirbúninginn sem væri ákjósanlegast, þá er mikilvægt að brotaþolar, ofbeldismenn eða aðstandendur, geti rætt við fjölskyldu, vini eða Stígamót.
Það er aldrei of seint eða of snemmt að sprengja búbbluna. Það er til jákvæð útgönguleið, og það er hægt að vinna úr því. Það eru til fullt af fínum stöðum og einstaklingum sem vilja hlusta ef fólk nennir að tala.