Petra
Gagnvirki hönnuðurinn í Berlín sem elskar að vinna úr miklu magni upplýsinga og nýta til lista.
Petra Valdimarsdóttur býr í litlu bakhúsi í Neukölln í Berlín. Hún elskar að vinna úr miklu magni upplýsinga og leikur sér að línunni milli grafískrar hönnunar og myndlistar. Petra lærði gagnvirka hönnun í Hollandi þar sem hún ólst upp. Blær heimsótti Petru í Berlín og fékk að skyggnast inn í líf hennar og verk.
Hvernig atvikast það að gagnvirkur hönnuður fer að vinna mest með prent?
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tölvum, netinu og gífurlegu magni af upplýsingum. Kennararnir í skólanum lögðu áherslu á að við myndum vinna með nýja miðla, þeir vildu beina okkur frá bókunum. En hvað ef ég vildi gera bók um gagnaupplýsingar? Ég fór að gera mikið af prenti, það var eitthvað sem ég gat gert hratt. Þar sem forritun er ekki mín sterkasta hlið gat það tekið mig lengri tíma að vinna eitthvað eingöngu í tölvu. Hins vegar gat ég verið tilbúin með prentverk á nokkrum dögum. Það er líka svo gaman að hafa eitthvað í höndunum sem maður hefur skapað sjálfur.
Fyrir nokkrum árum vann ég að bók með vinkonu minni sem er ein af fyrstu konunum til að hafa hjólabrettamennsku að atvinnu. Þegar hún starfaði við það hélt hún úti síðunni: The Party Girl Webside. Hún var alltaf með myndavél á sér og tók myndir af öllu, svo sem hjólabrettakeppnum og partýum. Hún hlóð öllum myndunum inn á síðuna sína og eftir nokkur ár var þetta orðinn rosalegur fjöldi. Við hjálpuðumst að við að fara í gegnum myndirnar og ég setti upp ljósmyndabækur fyrir hana sem voru síðan gefnar út.
Þetta er gott dæmi um verkefni sem ég hef haft ótrúlega gaman af. Ég þurfti að fara yfir gífurlegt magn af efni, skipuleggja mig og skapa mér reglur. Þetta tengist því kannski að ég ólst upp við þrjú tungumál en pabbi er íslenskur og mamma er frá Nýja-Sjálandi. Ég ólst hins vegar upp í Hollandi og tala því hollensku við systkini mín. Þetta gat verið flókið og tók mig oft langan tíma að skilja ýmsa hluti.
Ertu að vinna mikið með öðrum við gerð prentverka?
Ég hef bæði unnið með öðrum og fyrir aðra. Það getur líka verið skemmtilegt. Sérstaklega ef viðskiptavinurinn treystir þér fullkomlega fyrir verkefninu og gefur þér frjálsar hendur. Ég vinn meðal annars við það að hanna tímaritið Riot of Perfume sem fjallar um listir, tísku, tónlist og margt fleira. Flestir sem koma að tímaritinu búa í New York eða tengjast borginni á einhvern hátt. Ég bjó þar um tíma eftir að ég kláraði námið í Hollandi. Ég fór fyrst þangað í starfsnám en flutti síðan eftir skólann. Við sem vinnum að tímaritinu erum flest hönnuðir eða listamenn. Blaðið kemur út frekar óreglulega. Kannski einu sinni til tvisvar á ári.
Ég vinn líka mikið ein, til dæmis að verkefninu: „The man is not a mountain.“ Þá gaf ég út bók, sem er reyndar uppseld í dag, og var með innsetningu á netinu. Þar notaði ég myndir sem ég hafði tekið á Íslandi. Ég vildi birta þær á netinu en ekki sem ljósmyndaseríu, heldur meira sem innsetningu þar sem myndirnar flæða framhjá. Á síðunni lítur þetta svolítið út eins og foss. Áhorfandinn getur tekið eina og eina mynd úr fossinum en týnir henni síðan aftur inn í flóðið. Hann getur ekki stjórnað hvaða mynd hann skoðar eða hversu lengi. Mér fannst gaman að hafa þetta svona, leikur með ljósmyndamiðilinn. Afslappaðra og ekki eins alvarlegt.
Gefurðu út flest sem þú gerir?
Ég hef gert nokkrar bækur sem hafa verið gefnar út. Ég fer yfirleitt með prentverkin í litlar bókabúðir sem ég kann vel við, spjalla við fólkið þar og spyr hvort þau hafi áhuga á að selja verkin. Kannski kemur smá peningur út úr því. Ég er spái ekki mikið í því hvort ég græði eða ekki. Finnst aðallega gaman að koma verkunum út í heiminn. Gefa fólki færi á að skoða þau. Þetta er oft eitthvað sem ég geri fyrir mig en finnst gaman að deila með öðrum.
Hefur þú náð að lifa af verkum þínum?
Ekki beinlínis. Eftir námið fékk ég styrk sem ég gat lifað á í rúm tvö ár. Þetta var styrkur sem kennarinn minn benti mér á að sækja um, hollenskur verkefnastyrkur sem nýútskrifaðir geta sótt um. Þá var ég nýflutt til New York og var að vinna að verkefni sem heitir „Come and Go.“ Þá safnaði ég saman seinustu orðunum hjá fólki sem hafði fengið dauðadóm í Bandaríkjunum. Ég gerði bók og innsetningu sem var sýnd á sýningu. Innsetningin var heill veggur af umslögum. Framan á umslögunum stóð seinasta orðið sem hver fangi hafði sagt áður en hann var líflátinn. Inni í umslögunum voru síðan alls kyns upplýsingar um fangann, til að mynda aldur, fangamynd og hvaða glæp hann hafði framið. Aftan á umslaginu var seinasta setningin í heild sinni. Áhorfendur gátu þannig tekið upp umslögin og opnað þau. Mér þótti það mikilvægt. Ég hef sjálf alltaf haft gaman af verkum sem ég get á einhvern hátt tekið þátt í, snert eða handleikið.
„Framan á umslögunum stóð seinasta orðið sem hver fangi hafði sagt áður en hann var líflátinn. Inni í umslögunum voru síðan alls kyns upplýsingar um fangann, til að mynda aldur, fangamynd og hvaða glæp hann hafði framið.“
Mestur hluti styrksins fór í prent, leigu á stúdíói og annað praktískt. Restinni eyddi ég í ferðalög, meðal annars til Kína. Þar var ég að endurhanna vefsíðu fyrir kínverskt fiskútflutningsfyrirtæki. Að því loknu benti ég þeim á að það mætti taka betri myndir af vörunum. Þau buðu mér það verkefni. Ég hélt kannski að þau myndu senda mér vörurnar á skrifstofuna í Peking og að ég ætti að taka myndirnar þar. En í staðinn var ég send á ferðalag um fiskverksmiðjurnar. Flestar verksmiðjurnar voru í suðurhluta Kína og voru byggingarnar ótrúlegar, dálítið eins og geimskip. Margar voru neðanjarðar þannig að lýsingin gerði rýmin alveg mögnuð.
Ég sá eftir því að hafa ekki tekið fleiri myndir af rýmunum og heimsótti því verksmiðjurnar aftur. Úr því varð prentverk úr dagblaðapappír. Ég vildi ekki flytja ádeilu með myndunum. Markmiðið var með öðrum orðum ekki að sýna „aumingja fólkið“ sem vinnur verkamannavinnu. Auðvitað er ekki vel farið með allt verkafólk í Kína, en það er ekki algilt. Þessar verksmiðjur hefðu alveg eins getað verið á Íslandi. Mamma vann um tíma við fiskvinnslu við svipaðar aðstæður. Með myndunum vildi ég frekar beina athyglinni að ótrúlegu rýmunum og litunum sem komu fram í flúorlýsingunni.
Þú hefur farið aftur til Kína?
Einmitt, núna síðast í febrúar var ég í listamannaaðsetri í Peking. Þar vann ég að nokkrum verkefnum. Meðal annars safnaði ég saman „týndum tengslum“ sem birtust á síðunni Craigslist en sú síða er mjög vinsæl í New York. Týndu tengslin er þegar tvær manneskjur hittast, til dæmis í lest, og finna fyrir brjáluðum tengslum en skiptast kannski ekki á númerum eða sjást nokkurn tímann aftur. Þetta verða oft mjög dramatískir og fyndnir textar. Sem dæmi má nefna eina konu sem leitaði að manni sem hún hafði átt í augnsambandi við fyrir tólf árum. Hún hefur ekki verið söm síðan þá og leitar hans enn. Yfir fimmtíu innlegg voru sett inn á síðuna á Valentínusardaginn. Ég safnaði þeim saman í rafbók og vann einnig úr þeim hljóðinnsetningu. Ég kom hátölurum fyrir á víð og dreif um New York, eða á þeim stöðum sem tengslin höfðu týnst. Þar lét ég tölvurödd lesa upp textana.
„Týndu tengslin er þegar tvær manneskjur hittast, til dæmis í lest, og finna fyrir brjáluðum tengslum en skiptast kannski ekki á númerum eða sjást nokkurn tímann aftur.“
Í öðru verkefni vann ég með hópi af krökkum í 5. bekk og kennaranum þeirra. Það var gallerí sem hafði beðið mig um að halda námskeið fyrir þessa krakka. Ég mátti ráða um hvað námskeiðið fjallaði og valdi fréttamiðla. Þar sem allt er ritskoðað í Kína fannst mér áhugavert að biðja krakkana um að vinna með fréttablöð og búa til sínar eigin fréttir. Eitthvað sem þau myndu vilja sjá í blöðunum. Það áhugaverða við verkefnið var hversu pólitískar fréttirnar urðu, en krakkarnir höfðu alveg frjálsar hendur. Þau virtust vera mjög meðvituð um samfélagið sem þau bjuggu í.
Að hverju ertu að vinna að núna, eða stefnir á að vinna að?
Fyrir nokkrum mánuðum byrjaði ég í nýrri vinnu sem listrænn stjórnandi hjá fyrirtæki sem heitir Niiu publishing. Fyrirtækið rekur fréttaapp sem safnar saman efni úr 40 þýskum dagblöðum. Appið flokkar fréttirnar í pólitík, íþróttir, menningu og fleira. Notendur geta síðan valið sér flokka og hvaða blöð innan þeirra þeir vilja gerast áskrifendur að. Þannig býður appið notendum upp á að setja saman sinn eigin fréttamiðil í spjaldtölvunni eða símanum. Appið er mjög auðvelt í notkun og vel framsett. Þessi vinna tengist líka áhuga mínum á að safna upplýsingum og flokka. Þó ég sé í fullri vinnu þá hætti ég aldrei að vinna fyrir sjálfa mig. Mér finnst það mjög mikilvægt. Það hljómar kannski klisjulega en það er það sem gerir mig hamingjusama. Að vinna að hlutum sem ég hef gaman að. Ég get setið klukkutímum saman og unnið að prentverki eða vefsíðu. Ég held það sé mikilvægt að vinna að þínu eigin dóti líka. Það lætur þig vaxa.