Graff í Reykjavík

Við vildum fræðast meira um þennan leynda en samt svo sýnilega veruleika.

Til að skyggnast inn fyrir luktar graffiti-dyrnar fengum við tvo einstaklinga sem þekkja vel til í spjall. Annar hefur graffað frá unglingsaldri, hinn sekkur sér í þennan heim síðar á ævinni.

A: Ef við ætlum að gefa hreinskilna sýn á graffheiminum þá verðum við að fá að viðhalda nafnleysi. Graffiti er ólöglegt og flokkast lagalega undir eignaspjöll. Þetta er viðkvæmt samfélagslegt málefni og and-stofnanalegt í eðli sínu. Graffið stríðir gegn því sem yfirvöldin segja okkur að sé „leyfilegt“.

A: Þetta snýr að siðferði hvers og eins í leiknum og hefur mikið með þroska og reynslu að gera. Tólf til fjórtán ára er algengur aldur til að byrja að hafa áhuga á fyrirbærinu, þar sem þú hættir að vera alltaf að leika þér í leikjum úti …

B: En ert samt alltaf úti með krökkunum.

A: Einmitt. Þannig að hér er ákveðinn leikvangur til að hafa gaman úti áfram. Svo mótast nálgunin eftir því sem að þú eldist og þroskast.

Hreinskilnin

B: Það sem mér finnst spennandi við að graffa er að það er svo berskjaldað. Þú hefur stuttan tímaramma fyrir verkið, síðan er það bara þarna. Og þó þú sért óánægður með útkomuna, þá málarðu ekki yfir verkið.

A: Einmitt. Þegar verkið er komið upp, þá áttu það ekki lengur.

B: Þú ert búinn að „gefa“ fólkinu, umhverfinu, þessa gjöf, hvernig sem útkoman er. Það er undir einhverjum öðrum komið að taka verknaðinn í burtu.

„Þú síar ekkert út þegar kemur að graffiti.“

A: Á bak við hvert verk er saga. Einhver fór út, líklegast í skjóli nætur, með allt sem til þarf og skildi eitthvað eftir sig. Þetta getur verið heilmikið mál. Stundum er eins og það vanti þennan vegg í myndlist. Að þetta var framkvæmt!

B: Myndlistarmaðurinn er kannski að skapa helling á vinnustofunni en við fáum bara að sjá brotabrot af því. En þú síar ekkert út þegar kemur að graffiti.

A: Þetta er ekki stýrt og á ekki að vera eilíft. Þannig stríðir þetta gegn listasögunni sem skrásetur meistaraverk og listamarkaðinum sem verðleggur listaverkin. Hér ertu með eitthvað hverfult og óseljanlegt. Í því liggur einhver kraftur og fegurð.

A: Fyrir mér er taggið ekki bara undirskriftin, heldur líka gestabókin og mynstrið. Og öll þessi mannlega orka á bakvið. Það tekur tíma að læra að stilla sig og ná góðu flæði á fimm sekúndum. En þú sérð það bara þróast.

B: Þróunin á sér líka stað í hvert skipti. Fólk er ekkert rosalega opið fyrir tagginu og bombunum; þessir stóru feitletruðu stafir sem maður sér úti um allt, og flokkar það sem „ljóta graffitíið“. En málið er að það er kjarninn að þessu öllu. Taggið, undirskriftin, skiptir rosalega miklu máli, og á bak við eitt gott tagg eru svona tuttugu þúsund undanfarar.

A: Það er hægt að graffa frístælis, það er, að bregðast við umhverfinu stöðugt. Láta myndefnið fæðast algerlega í augnablikinu. Það er líka hægt að plana og skipuleggja, og þá er maður kannski með stærra og „vandaðra“ verk. 

„Ef þið komið ekki til okkar, þá komum við bara með þetta til ykkar í staðinn“.

Það sem ég kann að meta við innihaldsríkt verk, hvernig svo sem það fæðist, er að þetta er vettvangur til að færa myndlistina til almenningsins og sýna fram á að hún er allskonar. „Ef þið komið ekki til okkar, þá komum við bara með þetta til ykkar í staðinn“.

Að fanga athyglina

B: Staðsetningin skiptir miklu máli. Ekki síður siðferðislega.

A: Einmitt. Maður er helst að vinna á iðnaðarhúsnæði, göng eða bara eitthvað grátt svæði. Svo þarf líka að hafa í huga hluti eins og; hvernig gengur fólk um göturnar? Er það ekki ýmist frekar hokið og niðurlútt með augun niður á við, eða með teinrétt bakið, heiminn í fangi sér og horfir upp til himins? Það skiptir máli að fanga athygli áhorfandans.

B: Sumir vilja athygli sem flestra og velja þar af leiðandi áberandi staði. Ég er persónulega meira fyrir laumustaðina, eins og góðan bakgarð, þar sem maður getur unnið í næði. Svo er maður alveg hættur að segja félögunum ef maður veit um góðan stað. Þá fer þetta að snúast upp í samkeppni um að koma verki upp þar -og vera á undan hinum. Þetta snýst bara um að taka af skarið.

A: Svo er það stóra spurningin. Hvað er opinbert rými? Hvar megum við, sem almennir borgarar, ráðast til atlögu? Ef við tölum um húsvegg til dæmis. Innra lagið er augljóslega einkaeign. En hvað með það ytra, það sem snýr að okkar götumynd? Hvað með ljósastaura og rafmagnskassa?

„Hver ræður hvað er fallegt?“

Myndræn mengun í formi auglýsinga er til dæmis víðs vegar um borgina og það sama má segja um ákveðinn arkitektúr og fleira. Við sem almennir borgarar höfum ekkert um þetta að segja.

En hver ræður eiginlega hvað er fallegt? Er smekkur manna ekki bara misjafn? Mörgum unglingum finnst til dæmis bombur geðveikt flottar, en fáum fimmtugum finnst það. Hver hefur rétt fyrir sér?

Leikvöllurinn og samkeppnin

A: Samkeppni er líka svolítið einkennandi hugarfar í graffinu. Maður hrósar kannski einhverjum fyrir ákveðið verk en verður á sama tíma ákveðinn í að gera sjálfur betra verk, eitthvað stærra og meira.

B: Þetta er líka eitthvað sem þú velur. Maður þarf til dæmis sjaldnast að graffa yfir önnur verk í Reykjavík. Ef þú gerir það þá er það tungumál, einhvers konar yfirlýsing. Eða bara einhver nýr sem kann ekki óskrifuðu reglurnar.

A: Já, ef þú ætlar að fara yfir einhvern, þá þarftu að gjöra svo vel og fara yfir allt verkið og koma með eitthvað mun betra í staðinn. Það er gullna reglan í þessu. Þetta er einhverskonar hreinskilin íþróttamennska.

A: Persónulega er ég hrifnari af þessu samtali við almenninginn. Að eiga í beinum samskiptum við hvern sem er í gegnum myndirnar.

B: Mér finnst það geðveikt.

A: Þegar fólk fer á safn, þá fer það í ákveðna „safna-stellingu“ og er ofsalega opið fyrir því að meðtaka alls konar list. Hins vegar, þegar þú ert til dæmis á leið í vinnuna ertu í allt öðru hugarfarslegu ástandi. Þá getur graffið orðið óvæntur viðauki í rútínuna þína, einhvers konar hugarfarslegt krydd.

A: Þeir sem byrja í þessu enda oft í einhvers konar listnámi. Þeir eru með þennan kreatíva eld í sér. Það er yfirleitt enginn að segja þér að gera þetta, þetta er heilmikið vesen, vinna og næturbrall.

A: Það er áhugavert að fylgjast með hvernig íslenska graffitisenan er að þróast, fólk er almennt að hugsa út í gæði, stíl og flæði. Maður sér mun á þeim sem hafa farið út í heim og prófað þann leikvang. Þar ertu tilfinningalega ótengdur svæðinu; þú þarft að vera einhverskonar stríðsmaður. Svæðið er stærra, leikmennirnir fleiri og leiksvæðin ótrúlega ólík varðandi reglur, hvaða myndefni virkar og hvernig orkan og sagan hefur þróast á hverju svæði fyrir sig. 

„Það er yfirleitt enginn að segja þér að gera þetta, þetta er heilmikið vesen, vinna og næturbrall.“

Text

B: Á unglingsárunum snerist þetta mikið um að gera það sem má ekki. Maður var alltaf í hasar, hlaupandi undan löggunni og fékk svakalega spennu út úr þessu. Í dag er þetta allt öðruvísi. Alltaf gaman, en...

A: Það vantar bara stærri leikvöll

B: Já ég fíla það sem við erum að gera hérna, en það er nauðsynlegt að upplifa hitt.

„Ein ástæðan fyrir því að maður er að þessu, er auðvitað adrenalínkikkið; að gera þetta úti á nóttunni, hættan á að vera staðinn að verki.“

A: Áhættan sem fylgir þessu atferli er mun meiri í útlöndum. Til dæmis er ekki skynsamlegt að geyma myndir af graffi þar sem þú býrð, þú mátt ekki eiga neinar „sannanir“ enda er alveg verið að ráðast inn á heimili og gera hluti upptæka. Og ein ástæðan fyrir því að maður er að þessu, er auðvitað adrenalínkikkið; að gera þetta úti á nóttunni, hættan á að vera staðinn að verki. Erlendis er ekki bara leikvangurinn stærri heldur er hættan meiri og maður getur orðið virkilega smeykur. Hvort sem um löggur, lestarverði eða vafasama einstaklinga er að ræða sem hægt er að lenda upp á móti. En þannig upplifun getur líka bara verið fáránlega skemmtileg. Af því að hún lætur manni líða eins og maður sé á lífi.

En til hvers -þegar þið vitið að graffið verður strax fjarlægt?

A: Statement og action.

B: Upplifunin. Og svo er ekkert verra að fá myndir.

A: Þetta er ástríða. Og verkin tala algerlega sínu máli. Oftar en ekki fá verkin að hanga lengur uppi en meðal myndlistasýning, ef staðurinn er vel valinn og þú ert heppinn.

Mannleg hegðun og hellamálverkið í sinni tærustu mynd.

B: En, erum við að koma með neikvæða umfjöllun um graffiti með þessu spjalli? Hvernig heldurðu að fólk lesi þetta?

A: Ég veit yfirleitt ekki hvernig fólk les í eitt eða neitt, það er afar einstaklingsbundið. Fólk þarf að upplifa þetta sjálft og vonandi skilja að það er mjög erfitt að skilgreina graffití sem eitthvað eitt straumlínulagað fyrirbæri. Ég skil alhæfingargleðina og flokkunarþörfina, en getum við ekki líka spurt spurninganna án þess að krefjast svaranna? Verið sammála um að vera ósammála. Fyrirbærið er að öllum líkindum ekki að fara að fjara út og hverfa.

A: Ég get vottað fyrir það að þetta er gríðarlega vinsælt myndefni hjá túristum. Eitthvað sem grípur augu þeirra sem eru að heimsækja borgina og setur eitthvað í flóruna. Eitthvað annað en hótel.

B: Búmm. Svo nær umræðan sjaldnast á annað stig en „er þetta krot eða list?“

A: Meðan þetta er bara rosalega mikið mannnleg hegðun. Hellamálverkið í sinni tærustu mynd. Þetta erum við að segja „Hér var ég og gerði þetta - Gjörðu svo vel - Myndir!“

„Hér var ég og gerði þetta - Myndir!“

A: Núna er boltinn í ykkar höndum. Farið út og kannið, uppgötvið. Það er hluti af þessu. Hvað sjáið þið og hvar? Hvernig var það gert? Hver gerði það, sjáið þið endurtekningu í nöfnum eða myndefnum?

Happy hunting!