Hugleiðsla okkar tíma

Tristan segir frá mikilvægi hugleiðslu í okkar nútímasamfélagi.

English

„Það sem þú leitar að, leitar að þér“. Þessi spakmæli fer Tristan Gribbin með eftir austræna skáldið Rumi til að útskýra hvernig hugleiðsla getur haft leiðandi áhrif á líf okkar. Um leið og þú reynir að finna það sem þú leitar eftir, þá mun það birtast. 

Tristan hefur stundað alls kyns hugleiðslu víðsvegar um heiminn ásamt manni sínum Stefáni Árna. Þau kenna Hugleiðslu okkar tíma í Dansverkstæðinu á miðvikudagskvöldum en sú tegund af hugleiðslu einkennist af miklum krafti og útrás sem Tristan telur þörf á í nútímasamfélagiHún segir hugleiðslu hjálpa til að opna fyrir allt sem býr innra með okkur og brjóti hegðunarmunstur og hugsun sem hamli okkar líðan. Fólk sé alltaf að leita eftir meiri ást, sannleika og innri styrk. Það sé undir okkur komið að velja hvað við gerum við lífið og hvernig við vinnum úr því.

Hvenær byrjaðir þú fyrst að hugleiða?

Ég byrjaði fyrst að hugleiða árið 2000 þegar ég fór á hugleiðslunámskeið í Skálholti. Ég upplifði sterka andlega tengingu sem hafði mikil áhrif á mig. Afleiðingin varð hungur til andlegs þroska og löngun til þess að halda áfram hugleiðslu. Þeir lífshættir sem ég hafði tileinkað mér lokuðu á tengingu við hjartað mitt, ástríðu og líkamann. Maðurinn minn Stefán Árni byrjaði að hugleiða á svipuðum tíma og hann varð fyrir álíka upplifun. Við erum búin að þroskast saman og styðjum hvort annað í hugleiðslunni.

Af hverju finnst þér mikilvægt að fólk stundi hugleiðslu?

Margir loka á erfiðar tilfinningar þótt óhjákvæmilegt sé fyrir alla að ganga í gegnum erfiðleika á einhverjum tímapunkti í lífinu. Algengt er að fólk loki á sársaukann en við losnum ekki við erfiðleika með því að ýta þeim frá okkur – við verðum að mæta þeim eins og þeir eru. Hugleiðsla hjálpar okkur að vera með opið hjarta. Við þurfum að finna fyrir tilfinningunum til að losa okkur við hindranir sem þær mynda. Með þessu verðum við næmari og kynnumst okkur sjálfum betur. Um leið öðlumst við meira sjálfstraust, meiri kærleika og tengingu við okkur sjálf. Það gefur okkur meira frelsi til að lifa eins og við viljum lifa.

Hvernig virkar Modern-Day Meditation eða Hugleiðsla okkar tíma?

Hugleiðslan skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn heitir opnun (e. opening) og þar einbeitum við okkur að því að fara dýpra inn á við, finna löngun hjartans og gefa sjálfum okkur rými til að láta löngunina tjá sig. Hugleiðslan er alltaf mjög einstaklingsbundin og því miklivægt að treysta á sjálfan sig og tilfinningunum sem geta komið upp. Við notum tónlist og frjálsa hreyfingu. Þegar maður er orðinn opnari er auðveldara að fara í rólegt ástand og finna frið á dýpri stað. Í öðrum hluta erum við í (e. calming).  kemur í beinu framhaldi af opnuninni í fyrsta hlutanum – fyrst þarf að losa um tilfinningar, hindranirnar eða áhyggur til að ná ró. Þriðja stigið felst í hugleiðslu-hugsun (e. meditative thinking) þar sem við erum þá búin að núllstilla hugann og líkamann og því hægt að hugsa á allt annan hátt. 

„Þá höfum við öðlast skýrari hugsun og erum í stakk búin til að vega og meta hlutina í nýju ljósi.“

Fjórði hlutinn felst í að framkvæma (e. taking action) sem er mjög spennandi því þá getur maður notað hugleiðsluna til þess að vinna úr ókláruðum málum eða finna lausnir. Það getur verið hvað sem er í lífi okkar, hvort sem það tengist vinnu, fjármálum, samböndum eða svefni – við getum skoðað allt. Til dæmis gæti maður fundið í hugleiðslunni: „Ég þarf að hringja í þessa manneskju og eiga þetta samtal“. Þá ertu að taka skref sem er beintengt upplifuninni úr hugleiðslunni. Þetta er svona ferli, nokkurs konar andleg umbreyting.

Hvernig finnst þér Hugleiðsla okkar tíma ólík annari hugleiðslu?

Hugleiðsla okkar tíma býður upp á sterkara meðal fyrir nútíma fólk. Við höfum svo margt til að hugsa um og heilinn verður fyrir miklu áreiti daglega. Það vantar sterkt tæki til þess að fara dýpra. Ég er ekki að segja að allir verði að tileinka sér þessa tegund af hugleiðslu en hún hentar mér mjög vel. Ég vissi til dæmis ekki þegar ég byrjaði að hugleiða að ég hafði mikla þörf fyrir að öskra. Það brutust út tilfinningar eins og eldgos í tárum sem ég vissi ekki að væri til staðar inn í mér.

Hvernig finnst þér viðhorf Íslendinga vera til hugleiðslu?

Mér finnst eins og að margir séu opnari fyrir hugleiðslu. Þegar ég byrjaði að hugleiða árið 2000 voru miklu færri að hugsa um þetta. Þá voru fleiri byrjaðir að stunda jóga sem er í raun hugleiðsla – jóga var búið til út frá hugleiðslu. Á þeim tíma var jóga kannski fyrir fólk sem var svolítið öðruvísi. Það tók smá tíma fyrir jóga að verða ríkjandi (e. mainstream). Núna er jóga orðið mjög vinsælt og hægt að stunda það út um allan bæ. Þetta held ég að eigi eftir að gerast með hugleiðslu eftir nokkur ár, að hún verði ríkjandi.

En maður þarf ekki að breyta öllum sínum lífstíl til að geta hugleitt. Það er hægt að vera ósköp venjuleg manneskja og lifa eðlilegu lífi. Þú þarft ekki að fara inn í helli, alls ekki. Með því að hugleiða ertu í raun í betri tengingu við veruleikann. Fólk hefur stundað margvíslega hugleiðslu í þúsundir ára. Nútíma hugleiðsla er ekki bundin við neina sérstaka trú heldur hentar hún öllum.

„Til dæmis eru stærstu fyrirtækin í Bandaríkjunum eins Apple og Google farin að innleiða hugleiðslu inn í sitt starfsumhverfi. Því hugleiðsla eykur bæði einbeitingu og vellíðan sem skilar sér margfallt í starfi.“

Einnig hafa frægir einstaklingar eins og Oprah verið að leggja áherslu á mikilvægi hugleiðslu, þannig ég trúi því að hún eigi eftir að aukast verulega á næstu árum.

Hvernig er fólk að bregðast við hugleiðslunni ykkar?

Fólk kemur til okkar á öllum aldri. Það er yndislegt að sjá það opna sig og breytast. Það verður er miklu opnara og meira lifandi í andlitinu eftir hugleiðsluna; verður bjartara í augunum, meira til staðar í líkamanum og með meiri meðvitund. Það er erfitt er að útskýra breytinguna með berum orðum, því þau gefa takmarkaða mynd af breytingunni sem á sér stað í fólki. En það er rosalega fallegt að sjá hvað gerist, því það er svo einstakt.

Mér finnst að Íslendingar ´seu farnir að opna sig miklu meira andlega og vera meira vakandi. Fólk þráir eitthvað nýtt og einhverja breytingu. Eitthvað sem skiptir máli. Þjóðin er að vakna upp fyrir alls konar breytingum hvað varðar matarræði og lífstíl. Það er undir okkur sjálfum komið – við kjósum með hverri máltíð hvort við veljum hollt eða óhollt. Er það ekki? Og þegar við byrjum að vinna í okkur sjálfum, þá hefur það líka áhrif á aðra.