Notagildi borgarinnar

„Það sem er áhugavert við borgina er fólkið, ekki hvernig hún myndast.“

Andrés Kristjánsson er bókmenntanemi í Leipzig en vill búa í Reykjavík. Hann gengur um ásamt baðamanni og þeir spjalla um staðina sem þeir búa á. Er gengið er út úr húsi inn á götur Reykjavíkur segir Andrés; „Þetta er nú ekki beint falleg borg, er það? Það eru svo margar ljótar byggingar.

Það sem er talið fallegt, það sem fólk vill sjá í auglýsingum eru eldri húsin, náttúrulega bárujárnið og Guðjón Samúelsson. En það er nú ekki sjálfbært að byggja þannig hús, það þarf að koma eitthvað nýtt.

Já, en jafnvel það sem hefur verið byggt, ekki nema fyrir tuttugu árum, er orðið úrelt og finnst fólki frekar ljótt. Það sem gæti verið byggt í dag ætti að geta verið fallegt og af hinu góða og staðið í langan tíma án þess að verða leiðinlegt að hafa við hliðina á sér. Við vitum nógu mikið um borgarskipulag og arkítektúr til að gera það; það er ekki eins og við vitum ekki hvað fólk kann vel við. Það hefur verið eins og Reykjavíkurborg hafi einhverntímann haft langtíma skipulag í huga.

En borgin þarf ekki að vera falleg, er það nokkuð? Það sem er áhugavert við borgina er fólkið, ekki hvernig hún myndast.

Það er satt, þetta er meira spurning um notagildi, og það að hafa áhuga á hvert stefnir. Miðað við hversu mikið er að breytast þá ætti fólk að vera áhugasamt um að vita hvað er um að vera.

Já, flestir fletir samfélagsins hafa orðið fyrir einhverjum breytingum nýlega, og breytingin hefur verið rosalega ör.

Breytingin hefur verið það hröð að fólk sem er tuttugu og fimm ára í dag getur sagt: Sko, í gamla daga, þá var hægt að sjá Esjuna héðan. En á sama tíma virðist fólk ekki taka eftir því endilega. Hefur ungt fólk eitthvað að segja um borgarskipulag og uppbyggingu? Það virðist sem fáir hafa nógu mikinn áhuga á skrifstofuvaldinu til að reyna að vinna að einhverjum verulegum aðgerðum.

Er enginn bylting í fólki?

Jújú, það gæti svo sem verið. En það sem virðist virka, sem orsakar breytingu, eru hægar, upplýstar, vel skipulagðar aðgerðir. En það er erfitt að gera svoleiðis, það tekur tíma, og þolinmæði. Það er erfitt að breyta hlutunum.

En er það eitthvað léttara á landi eins og okkar, heldur en, segjum í Þýskalandi?

Maður myndi halda það, bara af því að við erum svo smá. En það fer samt eftir svo mörgu. Kannski að í svona samfélagi er hætta á að tíska breiðist hraðar út. Úrtakið er minna, þá eru skekkjumörk víðari? Ég veit það ekki. Kannski er málið bara að reyna að gera allt að tísku, að gera það töff að kjósa eða að hugsa um pólitík, eins og Jón Gnarr reyndi. Nema að fólkið sem kaus Jón Gnarr í borgarstjórnarkosningunum hélt ekki áfram að kjósa. Það fólk kaus ekki í síðustu kosningum. Það kusu eiginlega fæstir.

En það er ágætt að búa hérna þrátt fyrir að enginn kjósi og það séu ljótar byggingar?

Já, við höfum það svo gott. Það eru algjör forréttindi að vera fæddur á íslandi.

Dálítið dýrt?

Já, frekar dýrt. Erfitt að borða góðan mat. Þetta er dálítið snúið. Maður vill fá sér mangó í morgunmat með gríska jógúrtinu sínu, en svo langar mann líka að vera umhverfissinnaður. Hvaðan kemur mangó til Íslands? Það er löng leið. Svo er það happ og glapp hvort langfara mangóið, eða avókadóið, eða hvað sem maður setur í matinn, sé þroskað og gott þegar maður fær það heim. Spurningin verður: Er skynsamlegt að borða mangó á Íslandi?

Miðað við hvernig leigumarkaðurinn er í dag og hvert hann stefnir, heldurðu að ungt fólk fari meira í það að kaupa?

Kannski, það er samt alltaf áhætta, í hverju sem þú gerir á Íslandi virðist vera. En miðað við leigumarkaðinn þá virðist afborgun af láni ágætis kostur. Leigumarkaðurinn er rosalegur. Maður kemur út í heiminn eftir skóla, eða hvað sem maður gerir þegar maður býr hjá foreldrum sínum, og maður vill fara að búa, eins og mamma og pabbi gerðu, en lítur í kringum sig og sér enga færa leið. Í Reykjavík borgar maður leigu sem er tvöfalt, þrefalt, miðað við í, til dæmis, Þýskalandi. Og leigan hækkar alltaf, alla vega hefur hún verið að gera það, og mun halda áfram að hækka þangað til fleiri íbúðir, mögulega ljótar, verða byggðar til að ráða við góðærið sem ríkir í túrismanum núna. Á meðan húseigendur geta fengið borgaða næstum mánaðar leigu á einni helgi frá túristum þá á leigumarkaðurinn ekki eftir að batna. Íbúðir í bænum sem áður fyrr deildust bara á íbúa eru núna að deilast á íbúa og ferðamenn, og það er meiri peningur í ferðamönnum. Við vorum bara ekki tilbúin fyrir þá. En guð sé lof samt fyrir ferðamennina, við værum í slæmum málum án þeirra.

Heldur þú að fólk hafi eitthvað lært af kreppunni?

Í fyrsta lagi erum við engir sérfræðingar, skulum hafa það á hreinu.

En við erum samt hluti af samfélaginu, við ættum að getað spekúlerað um ástand þess með einhverskonar smávægilegu innsæi?

Getum við talað fyrir hönd samfélagsins?

En við getum talað fyrir okkar hönd. Lærðir þú eitthvað af kreppunni?

Ég held að ég lærði um mikilvægi miðla aðallega, og að samfélagið er lifandi fyrirbæri.

Já, hvað langar fólk að lesa?

Það sem fólk virðist vera að lesa eru topp tíu listar og slúður. En það er ekki endilega það sem fólki finnst áhugaverðast, það er bara það sem er út um allt. En kannski er fólk aðallega að fá upplýsingar frá því sem kemur á Facebook feed-ið þeirra. Ef það kemur eitthvað sem nær til fólks þá les fólk það. Það er erfitt að fá fólk til að lesa lélegt efni. Efnið býr til lesendur sína, það kallar á þá. Svo skiptir máli hvernig upplýsingar eru settar fram. Flestir lesa ekki langa texta á netinu. Svo er stór hluti af þessu að það er mjög erfitt að setja saman góðar upplýsingar, og það kostar peninga. Til að afla upplýsinga þarf einhver lifandi manneskja að fara og spyrja aðrar lifandi manneskjur hvað sé að gerast og skrifa það niður. Því fólki fer alltaf fækkandi; sérstaklega á Íslandi þar sem mest megnið af fréttunum sem birtast í okkar miðlum eru þýddar beint frá BBC eða Reuters eða einhverju sambærilegu.