Kvenorkan í keramikinu

Vikulega hittast vinkonurnar í kjallaranum hjá Ólöfu og leira saman.

Myndlistarkonan Ólöf Bóadóttir býr í kjallara í gamla Vesturbænum. Hún innréttaði rýmið úr samtíningi húsgagna og kom nýlega upp verkstæði þar sem hún vinnur að keramiki ásamt vinkonum sínum. Ólöf brautskráðist úr myndlistadeild Listaháskólans síðasta vor og leggur áherslu á tímatengda list í formi skúlptúra og gjörninga. Hún segir okkur frá lífinu eftir Listaháskólann og mikilvægi félagsskaparins við leirgerðina og rennibekkinn.

Hlátrasköllin óma þegar gengið er niður í rúmgóðan kjallara í Vesturbænum. „Velkomnar í félagsmiðstöðina, ég er að hella upp á, má ekki bjóða ykkur kaffi?,“ segir Ólöf Bóadóttir, myndlistarkona og íbúi kjallarans. „Við erum þrjú sem búum hérna; ég, Ugla og Snúður.” Ugla geltir og hoppar af kæti en kötturinn Snúður er hvergi sjáanlegur. Við tekur örtröð af konum, hver í sínu horni, að vinna að ólíkum verkum. Ein þeirra er að fá lánaðan bor og má heyra ítarlegar samræður um gæði hans. „Mér tókst nýlega að virkja þetta herbergi sem er orðið mjög djúsí vinnurými, þetta er vinnurými okkar allra,“ segir Ólöf. 

Vissir þú alltaf að þig langaði að vinna við list? 

Nei alls ekki, ég var í MR á fornmálabraut. Ég var mikið í dansi í menntaskóla og hafði áhuga á að taka það lengra. Þetta svo sem blundaði alltaf í mér en ég var alls ekki með sjálfstraustið til að gera það sem ég vildi á menntaskólaárunum. Ég tók bara eitt skref í einu. Ég fór í Tækniskólann en fann fljótt að hönnun var ekki fyrir mig, ég þurfti að fara í eitthvað frjálsara. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða trúður eða myndlistarmaður. 

Hvenær byrjuðu þið að leira saman? 

Ég kynntist Signýju og Írisi í fornámi Myndlistaskólans í Reykjavík. Við urðum mjög góðar vinkonur. Á fyrsta árinu í Listaháskólanum ákváðum við Signý að fara á keramikkvöldnámskeið í Myndlistaskólanum. Í kjölfarið fundum við forláta rennibekki í Listaháskólanum, sem notast er við til þess að að renna form, til að mynda skálar og bolla. Þeir voru bara inni í geymslu og við fengum að draga þá fram. Keramik er búið að springa út síðustu ár svo það var áhugi fyrir þessu hjá fleirum en okkur. Við bættust Íris, Nína, Tóta og Katla sem voru líka í Listaháskólanum. Við hittumst vikulega að renna saman.

Hvers vegna er keramik orðið svona vinsælt?

Það er örugglega tengt auknum áhuga á handverkinu. Þetta er ein leið til þess að hægja á öllu. Mér finnst ótrúlega næs að þurfa að fara í gegnum allt ferlið, að sjá leirklump verða að hörðu leirtaui. Það er svo ótrúlega langt ferli, mörg skref og mikil vinna. Svo getur maður notað þetta leirtau endalaust(, það er svo gott að sjá þetta verða til frá byrjun til enda.) *Ninties hringitónn hringir.*

Þetta er iðnaðarmannasíminn minn að hringja. Ég er alltaf að týna símum svo ég þarf bara að vera með svona síma. En já, það er eitthvað tengt því að hægja á ferlinu, að sjá eitthvað gegnsætt. Því fylgir þó togstreita innra með mér, að búa til hluti. Nóg er til af hlutum í heiminum og við þurfum ekki að bæta neinum við. En á sama tíma kemur þekkingin með reynslunni við að sjá hluti verða til frá grunni. Ég held að það fái mig til að bera meiri virðingu fyrir hlutum almennt. 

Hvað gefur þessi félagsskapur ykkur?

Það var svo skemmtilegt að finna fyrir kvenorkunni á keramiknámskeiðinu. Konurnar voru allar óhræddar við að opna sig og tjá vandamál sín. Við þekktumst ekki neitt en vorum allar tilbúnar að tjá okkur með leirinn í höndunum, treysta þessu rými og enginn var að dæma neitt. Þá uppgötvaði ég þennan kraft í félagsskapnum, leirnum og handverkinu. 

Áður en við stelpurnar byrjuðum að leira saman vorum við nú þegar orðnar góðar vinkonur. Við erum alltaf að tjá tilfinningar okkar en ég held að leirinn hjálpi til við að kalla þetta fram. Við spjöllum um allt og ástin er yfirleitt ofarlega á dagskrá. Við förum alltaf á trúnó.

Hvernig þróar maður sinn stíl í keramik? Hver er þinn stíll?

Það er svo ótrúlega gaman að sjá hvernig ólíkir persónuleikar okkar birtast í leirnum. Íris er frekar fljótfær, sem getur verið ótrúlega frelsandi því þó svo að leirinn krefjist þolinmæði þá er gott að vera eins og Íris. Hjá henni stjórnar leikurinn algjörlega ferðinni. Hún er ekki hrædd við að prófa nýjar aðferðir. Ég er almennt með mikla fullkomnunaráráttu en leirinn er útrás fyrir mig til að losa um hana. Hún getur verið svo ótrúlega heftandi og sérstaklega í myndlist og í skapandi starfi. Mitt stílbragð í leirnum er bara akkúrat eins og ég vil hafa hann, það eru ekki miklar tilviljanir. Það er mjög gott að við komum með svona ólíka orku inn í þetta.

Hvernig er lífið eftir útskrift úr skólanum? 

Ég finn hvað það er mikilvægt að vera með sterkt stuðningsnet. Við hvetjum hver aðra til að halda áfram að skapa og týnast ekki í einhverri vinnu og stressi. Við erum allar að vinna að ólíkri list utan leirsins og þetta er mikilvægur stuðningur fyrir þau verkefni líka.

Við erum í allskonar hlutastörfum og mér finnst spennandi að prófa mismunandi störf og finna mig í þeim, en stundum er ég alveg rugluð. Um daginn fannst mér ótrúlega góð hugmynd að verða blaðberi. Ég var þá að vinna á leikskóla, á listasafni Sigurjóns Ólafssonar og í keramikinu. Það losnuðu akkúrat einhverjar götur í Vesturbænum og ég ákvað að slá til. Ég hugsaði að þetta yrði mjög praktískt, ég fengi borgað fyrir að hreyfa mig og hundinn og svo kæmi ég bara heim að leira. Ég sá þetta mjög rómantískt fyrir mér. Ég uppgötvaði fljótlega að hundurinn minn var alltof ungur fyrir þetta og hversu ótrúlega óraunsæ hugmynd þetta var. Ég hafði í nógu að snúast í mörgum vinnum, þannig að ég sagði upp eftir þrjá daga og var einmitt með þriggja daga uppsagnarfrest. Við höfum þrjár farið að vinna í póstinum eða blaðburði síðastliðinn mánuð og allar hætt.