Silfur svanurinn

Sigga er 77 ára gömul, safnar barnavögnum, elskar bleikan og æfir ballett tvisvar í viku.

Sigga: Ég sá þig ekki koma úr strætó og hugsaði jæja hún hefur villst.

Birna: Já, ég fór út á vitlausri stöð, er ekki nógu vel að mér hérna í Hafnarfirðinum.

Sigga: Strætóstoppustöðin er bara beint fyrir framan húsið, svo þægilegt. Komdu inn.

Birna: Takk fyrir. Vá hvað þetta er fallegt heimili!

Yngvi: Enda erum við alltaf heima.

Sigga: Hér eru allir veggir fullir af listmunum, við erum umkringd listafólki. 

Sigga, eða öllu heldur Sigrid Josefsdóttir, er 77 ára gömul og býr á Jófríðarstaðavegi í Hafnarfirði með eiginmanni sínum Yngva Erni Guðmundssyni. Saman eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn.
Faðir hennar var austurrískur en mamma íslensk og flutti fjölskyldan frá Vínarborg til Íslands eftir stríð þar sem faðir hennar gerðist fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Sigga og Yngvi hafa verið gift í meira en 60 ár. Hún hætti að vinna fyrir sex árum, en síðustu árin vann hún í Hafnarborg, listasafninu í Hafnarfirði. Hún elskar að hafa fallegt í kringum sig, enda Vog í sólar stjörnumerkinu. Hún býður mér upp á kaffi í rósóttu stelli og smákökur. 

Sigga: Jófríðarstaðavegur, þetta er lengsta götuheiti í Hafnarfirði. Við fluttum hingað árið 1986, en hér ólst Guðrún Helgadóttir rithöfundur upp og gerðust margar af sögunum hennar hér í þessu húsi.

Heimilið er bleikt. Með fram öllum veggjum eru listaverk eftir manninn hennar, tengdaföður og barnabörn. Sófana prýða krossasaumaðir púðar og bútasaumsteppi eftir hana sjálfa. Svo er það nokkuð sem fer ekki fram hjá neinum sem kemur í heimsókn á Jófríðarstaðaveg; barnavagnar. Í hverjum krók og kima má sjá barnavagna, litlar styttur úr postulíni, silfri og annað eins. Sigga sýnir mér inn í svefnherbergið hennar og Yngva.

Sigga: Ekki taka mynd af draslinu, ég fel það hér bak við hurðina. Einhvers staðar verða vondir að vera.

Birna: Hvaðan kemur áhuginn á barnavögnum?

Sigga: Tja, ég veit það nú ekki. Það gæti verið að þegar ég var lítil og við fluttum frá Vínarborg var ekki pláss fyrir barnavagninn minn og hann skilinn eftir. Í hvert skipti sem einhver úr fjölskyldunni fer til útlanda leita þau að barnavagni til að gefa mér. 

Sigga: Ég hef alltaf haft gaman að handavinnu, ég saumaði til dæmis rúmteppið okkar, mér fannst þetta svo skemmtilegt mynstur.

Birna: Þið Yngvi eruð búin að vera saman í 60 ár, hver er lykillinn að svona löngu hjónabandi?

Sigga: Ég veit það nú ekki, okkur finnst voða gott að vera saman og höfum mörg sömu áhugamál. Við förum í sund á hverjum degi og göngum í kringum Hvaleyrarvatn næstum daglega, sama hvernig viðrar. Ég var 17 ára þegar að ég gifti mig. Við þurftum að fá samþykki forseta til að fá að gifta okkur. Hann Yngvi var 21 árs. Við erum búin að vera gift í 60 ár.

Birna: Hvernig kynntust þið?

Sigga: Við sáum hvort annað fyrst á Bankastrætinu. Ég var 14 ára að labba niður götuna nýkomin úr berjamó og Yngvi var að keyra upp. Nokkrum árum síðar vorum við í partýi í sumarbústað hjá sameiginlegum vini okkar og síðan þá höfum við verið saman. Birna: Ertu enn ástfanginn af honum?

Sigga: Jú, mér finnst hann nú enn mjög huggulegur maður.


Sigga: Gígja, barnabarnið mitt, gaf mér þennan varalit, hún veit hvað mér finnst gaman að mála mig.

Birna: Hvernig er lífið eftir að þú hættir að vinna?

Sigga: Bara mjög skemmtilegt. Sumum finnst það ægilega leiðinlegt en það hljóta að vera þau sem hafa bara haft vinnuna sem áhugamál, skilurðu. Sko, mín vinna var alveg dásamleg, hún var skemmtileg. Ég saknaði hennar en leiðist ekkert núna. Yngvi var hættur að vinna fjórum árum á undan mér og beið bara eftir því að ég hætti. Við erum búin að vera í gönguhópi í 30 ár og fara um allt Ísland og víða í útlöndum. Svo erum við í sundi. Ég fór ekki að synda daglega fyrr en ég hætti að vinna. Þar eigum við góðan vinahóp líka. Við erum búin að gera heilmargt saman og ég get ekki hugsað mer að vera án þessara vina.

Birna: Og mætið þið þá í sund á hverjum degi? 

Sigga: Já já, við mætum á hverjum degi og um helgar líka.

Birna: Alltaf á sama tíma?

Sigga: Já yfirleitt alltaf milli átta og hálf níu.

Birna: Í Suðurbæjarlaug?

Sigga: Já og í allar laugar. Ef við erum úti á landi förum við í laugarnar þar. Bara þar sem við erum hverju sinni.

Birna: Er þá verið að ræða heimsmálin í pottinum? 

Sigga: Já já við reyndar fíflumst mikið sem okkur þykir voðalega skemmtilegt.

Birna: Hvernig þá? 

Sigga: Þeir eru nú þrír þarna sem titla sig Bakkabræður og svo er ein í hópnum mamma þeirra, í kringum þetta spinnst algjör þvæla. 

Sigga: Svo elska ég að lesa, ég les gjarnan hvenær sem er. Ég er hætt að vinna og get lesið þegar mig langar til þess. 

Birna: Hver er uppáhalds rithöfundurinn þinn?

Sigga: Ég veit það nú ekki, ég er búin að lesa allt eftir Guðrúnu frá Lundi, mér finnst mjög gaman að lesa hana, hún rennur svo vel. Hún byrjaði gömul að skrifa, skrifaði ansi margar bækur, ég held 40 til 50 bækur, ekki á svo löngum tíma. Þær urðu allar vinsælar. Ég held ég sé búin að lesa þær allar. En nú er klukkan að verða sex, ég þarf að klæða mig í ballett búninginn, eigum við ekki að vera mættar 20 mínútur í sjö?

Birna: Jú, mig minnir það.

Sigga klæðir sig í svartan bol og sokkabuxur og bindur utan um sig ballett pils. Hún setur hárið í hnút og skellir á sig rauðum varalit. Hún er að fara á ballett æfingu með ballett hópnum sem nefnist Silfur svanirnir en þær eru allar yfir sextíu og fimm ára.

Sigga: Ég var í ballett í Þjóðleikhúsinu þegar ég var yngri, svo sá ég þetta auglýst í vetur og ákvað að skella mér. Við erum í tímum tvisvar í viku. Ég er aldrei hressari en eftir ballett tíma, það er skemmtilegt og endurnærandi. Og svo er tónlistin í tímunum svo dásamleg. Verst hvað maður er orðinn feitur.

Við skellum okkur í bílinn og keyrum á ballett æfinguna í Skipholtinu. Við tekur stór hópur af svartklæddum ballerínum og æfingin hefst, þær eru að halda sýningu um helgina og þurfa að æfa vel innkomu og útgöngu af sviði. Sjálf hætti ég í ballett þegar ég var 16 ára og hef staðið í þeirri trú að minn ferill í ballett væri grafinn og gleymdur. Þegar ég fylgist með æfingunni finn ég fyrir tilhlökkun og óþreyju í líkamanum. Ég hlakka til að verða sjötug, þá ætla ég að mæta á ballett æfingar, setja á mig rauðan varalit, hitta vinina á hverjum degi í sundi og lesa allar bækurnar sem liggja á náttborðinu mínu.