Ída Pálsdóttir

Segir frá erfiðri átröskun og þunglyndi sem hún glímdi við er hún var í menntaskóla.

Ída Pálsdóttir er 21 árs viðskiptafræðinemi við HÍ. Hún býr í Garðabænum ásamt fjölskyldu sinni og hundinum Jöru. Þess á milli sem hún lærir vinnur hún í fatabúðinni Spúútnik. Við settumst niður með Ídu sem segir okkur frá erfiðri átröskun og þunglyndi sem hún glímdi við er hún var í menntaskóla. Hún telur nauðsynlegt að ræða opinskátt um geðsjúkdóma enda eigi þeir ekki að vera neitt feimnismál. Ída segist ekki vera að ræða þetta sem einhverja frelsun fyrir sig sjálfa heldur til að tala um vandamál sem margir glíma við en samfélagið lítur hornauga á.

Ída tekur á móti mér á heimili sínu og býður upp á kaffi. Hún flutti með fjölskyldu sinni í Garðabæinn þegar hún var 13 ára gömul. Hún hafði áður búið í Vesturbænum og æft fimleika með Gróttu úti á Nesi. „Mamma er uppalin í Garðabænum en pabbi er úr Vesturbænum, við bjuggum í Vesturbænum og svo var ákveðið að skipta fyrir mömmu. Við pabbi erum samt alltaf að reyna að sannfæra hana um að flytja aftur í Vesturbæinn, mig langar ótrúlega að búa nálægt skólanum, kaffihúsunum og djamminu.“ Ásamt foreldrum sínum býr Ída með tveimur yngri systkinum og hundinum Jöru, sem er talinn sem sjötti fjölskyldumeðlimurinn. „Ég var að flytja í bílskúrinn hérna heima, það er ótrúlega gott að geta fengið smá næði en samt verið nálægt fjölskyldunni. Ég hef engan veginn efni á því að flytja út sjálf. Ég fór í tveggja mánaða ferðalag með vinum mínum veturinn eftir að ég útskrifaðist úr Versló og ferðaðist um Asíu og Norður Ameríku, það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert en það kostaði sitt,“ segir hún.

„Ég hef alltaf verið mjög félagslynd frá því ég var barn og mikið í íþróttum. Ég byrjaði að æfa fótbolta með Stjörnunni þegar við fluttum í Garðabæinn og ég spilaði aðallega sem miðvörður. Áður hafði ég æft fimleika, handbolta og fótbolta í Vesturbænum. Sumarið áður en ég byrjaði í menntaskóla slasaðist ég á ökklanum og þurfti að fara í aðgerð. Það tók mig langan tíma að jafna mig og að lokum neyddist ég til þess að hætta að æfa. Þar sem ég var nýbyrjuð í menntaskóla var margt spennandi í gangi,“ segir hún.

„Ég get ekki sagt nákvæmlega hvað það var en allt í einu byrjaði ég að vera mjög ólík sjálfri mér. Ég upplifði mikla depurð og leið alls ekki vel. Á sama tíma fór ég að spá mikið í líkamanum á mér. Ég varð rosalega upptekin af því að grennast sem er mjög skrítið því ég hef alltaf verið grannvaxin. Þetta byrjaði bara á því að ég vildi grennast um nokkur kíló en smám saman varð markmiðið alltaf stærra.“ Eitt leiddi af öðru og áður en hún vissi var hún farin að borða lítið sem ekkert yfir daginn og ef hún borðaði eitthvað kastaði hún því öllu upp. „Þetta gerðist allt mjög hratt og varð mjög slæmt á innan við tveimur mánuðum. Samt datt mér ekki í hug að ég væri með anorexíu eða búlemíu. Mér fannst maður ekki vera með sjúkdóm nema maður væri bókstaflega alveg að detta í sundur við grafarbakkann. En auðvitað var ég með bullandi anorexíu og búlemíu og þunglyndið hélst í hendur við það.“ Aðspurð hvers vegna hún þráði svona að grennast segist Ída ekki geta bent á neina sérstaka ástæðu. „Ég held að þetta hafi bara verið blanda af svo mörgu en þegar ég lít til baka á ég mjög erfitt með að átta mig á upptökunum. Það er kannski líka málið, það er ekki endilega alltaf einhver ein ástæða. Þetta er sjúkdómur og maður getur ekki alltaf komið með útskýringu á því af hverju maður fær hann.“

Þegar Ída byrjaði svo á öðru ári í menntaskóla var hún djúpt sokkin. „Ég mætti mjög illa í skólann bæði út af þunglyndinu en líka vegna þess að ég hafði bara enga orku því ég borðaði ekki neitt. Mér leið eins og það væri bókstaflega ómögulegt fyrir mig að fara fram úr og byrja daginn. Ég vildi bara liggja heima í herberginu mínu. Þetta hljómar örugglega eins og klisja en það var samt þannig. Ég fann fyrir því að skólafélagarnir voru farnir að tala um það hvað ég mætti lítið í skólann og eflaust héldu margir að ég væri bara löt og nennti ekki í tíma; afhverju ég gæti ekki bara drullast í skólann? Það var svo lítið mál fannst þeim. En auðvitað vissi enginn hvað var í gangi.“ Eftir á að hyggja segir Ída að skólakerfið hafi ekki brugðist nógu vel við. „Vandamálið er hvað það er ótrúlega mikið tabú að tala um geðsjúkdóma. 

„Vandamálið er hvað það er ótrúlega mikið tabú að tala um geðsjúkdóma.“

Ef ég hefði haft tækifæri til þess að opna mig fyrir bekkjarfélaga mína og segja þeim hvað væri gangi hefði ég örugglega gert það en í staðinn sáu þau mig sem algjöran haug sem nennti aldrei að mæta í skólann en mætti samt í partýin. Þegar á leið fann ég mig knúna til þess að láta kennarana mína vita hvað væri í gangi og ég fann mikinn stuðning frá þeim. En þrátt fyrir allar mínar útskýringar þurfti ég samt að mæta á endalausa fundi út af mætingunni minni og var næstum því rekin úr skólanum vegna þess hve hún var slæm. Sem ef eitthvað er hafði bara verri áhrif.

Ég hafði aldrei djammað mikið en á þessum tíma fór ég að leita í það til þess að hverfa frá vandamálunum mínum. Þá var ég yfirleitt að drekka á alveg tóman maga sem fór auðvitað beint upp í haus og endaði yfirleitt ekki vel.“ Með tímanum versnaði þetta. „Ég fór að loka mig alveg af, missti samband við marga góða vini mína og var eiginlega alltaf sofandi. Ég lét ekkert í mér heyra. Ég vildi ekki borða neitt og var alltaf að horfa á mig í speglinum: Óánægð. Ég vissi alveg að ég væri ekki feit en ég var samt ekki nógu mjó. Mig langaði bara til þess að losna við allt. Ég hélt dagbók þar sem ég skrifaði niður það sem ég borðaði og gaf mér broskall ef ég var undir ákveðnu magni af kalóríum. En þetta var orðið svo sjúkt. Ég vildi helst ekki fara á vigtina því ég þorði að ekki að sjá hvað ég væri þung. Ég var að lesa þessa dagbók um daginn og fékk sting í hjartað. Það var mjög átakanlegt og ég sá þá svo greinilega hvað þetta var allt saman brenglað.“

Það var ekki fyrr en ári seinna sem Ída segist hafa brotnað alveg saman og beðið fjölskylduna sína um hjálp. „Bæði fjölskyldan mín og vinir höfðu haft miklar áhyggjur af mér. Ég var samt orðin svo góð í öllum feluleikjum að þau gátu ekki vitað allt sem var í gangi. Ég eyddi oft heilu tímunum í það að plana hvernig ég ætlaði að komast hjá því að borða þegar ég var að fara að hitta vinkonurnar eða mæta í barnaafmæli. Þegar að ég brotna svo niður fann ég tilfinningu sem ég hafði ekki fundið fyrir áður. Mig langaði sjálfri að breyta til í lífinu mínu og byrja að líða betur. En það er einmitt málið, þú getur ekki hjálpað einhverjum að ná bata ef hann vill það ekki sjálfur, og þá byrjar bataferlið fyrir alvöru. Alltaf þegar foreldrar mínir höfðu lýst áhyggjum sínum yfir því að ég væri ekki að borða nóg eða að ég væri mikið heima sofandi hristi ég það af mér. Mér fannst ég hafa fullkomna stjórn á líkamanum mínum. Ég gat stjórnað því hvernig líkaminn minn leit út. En auðvitað hafði ég enga stjórn. Ég fann svo að ég vildi byrja að lifa lífinu mínu aftur. Ég vildi vera einhvers staðar annars staðar en ælandi inni í herberginu mínu. 

„Ég fann svo að ég vildi byrja að lifa lífinu mínu aftur. Ég vildi vera einhvers staðar annars staðar en ælandi inni í herberginu mínu.“

Ég var búin að vera ólík sjálfri mér í rúmlega ár. Á þessum tíma fann ég hvað ég var ótrúlega heppin að eiga fjölskylduna mína að. Veikindin tók auðvitað á þau öll, líka ömmur mínar og afa. Ég og mamma fórum saman í tíma til geðlæknis og það var mikilvægt að hún skyldi vera með upp á það að hún vissi allt sem væri í gangi. Það var erfitt að opna sig alveg við geðlækni sem ég þekkti ekkert og mömmu mína um mál sem ég hafði aldrei sagt neinum frá. Ég mætti reglulega í tímana og hann greindi mig með þunglyndi. Fyrstu tvær vikurnar var ég stöðugt grátandi. Það var ótrúlega erfitt fyrir mig að borða kvöldmat og æla ekki eftir á. Þetta var það erfiðasta sem ég hef þurft að gera, og þetta gerðist ekki á einni töfranóttu. Ég þurfti að vera mjög meðvituð um að breyta sambandinu mínu við mat en ég byrjaði ekki strax á því að borða heilar máltíðir eða sleppa alveg að kasta upp. Smám saman fór þetta á heilbrigðari veg. En ég er hrædd um að ég muni kannski aldrei eiga 100% heilbrigt samband við mat. Þegar mér líður illa eða eitthvað kemur upp á þá á ég það til að finna fyrir einhverri brenglun en aldrei það mikilli að hún fari úr böndunum. Það tók mun lengri tíma fyrir mig að sigrast á þunglyndinu. Þunglyndi er ekki tegund af skapi; það er með öðrum orðum ekki eitthvað sem verður til út af því að fólki leiðist eða er svo latt. Þetta er sjúkdómur og ótrúlega algengur sjúkdómur. Talað er um að fimmta hver kona gangi í gegnum þunglyndi á lífstíðinni.“ Ída segist hafa tekið þunglyndislyf í næstum tvö ár. „Það eru svo miklir fordómar í kringum þunglyndislyf. En þau hjálpuðu mér mjög mikið og ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þeirra. Ef þér er illt í maganum tekurðu magalyf og ef þú ert þunglyndur tekurðu þunglyndislyf, “ segir hún.

„Ég er tiltölulega ný hætt á lyfjunum og líður ótrúlega vel í dag. Bataferlið var erfitt á köflum og ég hélt að ég myndi gefast upp. Það kom oft bakslag. Ég sökk oft mjög djúpt og leið rosalega illa en sem betur fer varði það aldrei lengi og ég náði mér aftur. Þrátt fyrir að þetta tímabil hafi verið langt þá var það þess virði að ganga í gegnum það, því það er svo gaman að lifa lífinu almennilega. Síðan mér batnaði hef ég notið þess svo innilega að lifa. Það er erfitt að láta þetta ekki hljóma klisjulega en ég er bara á svo ógeðslega góðum stað í dag og lifi svo geðveikt skemmtilegu lífi.“

Aðspurð hvað sé framundan segist Ída stefna á skiptinám á næsta ári. „Mig langar að fara í starfsnám næsta sumar og er búin að vera að skoða New York, hún er draumaborgin mín. Og svo væri gaman að fara í skiptinám til London eða jafnvel Ástralíu, veit samt ekki hvort ég gæti verið svona langt í burtu frá öllum vinum mínum og fjölskyldu. En svo stefni ég á að vinna eitthvað tengt tísku. Mig langar til þess að blanda viðskiptafræðinni við tískuáhugann. Stóri draumurinn væri að vinna við markaðsmál hjá einhverjum af þessum stóru blöðum úti eins og til dæmis iD eða Nylon. Ég held mikið upp á þau.“