Hrafnhildur Gissurardóttir

Blær hitti Hrafnhildi í Bernau og spjallaði við hana um lífið í Berlín, myndlist og heim listarinnar.

Hrafnhildur Gissurardóttir lærði myndlist í listaháskólanum Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam en hefur á seinustu árum einbeitt sér að sýningarstjórnun. Hún er búsett í Berlín og stundar nú meistaranám við Udk, Universited der Kunste. Hrafnhildur hefur skipulagt sýningar víða, nú síðast í bænum Bernau sem er í um klukkustundar fjarlægð frá Berlín. 

Geturðu sagt okkur aðeins frá verkefninu í Bernau?

Verkefnið Kultur Labour Bernau er samstarfsverkefni deildar minnar, Kunst im Kontext, og menningarmiðstöðvar bæjarins Bernau. Markmiðið var að fá unga myndlistarmenn búsetta í Berlín til þess að skapa verkefni í samstarfi við bæinn. Íbúar bæjarins tóku þátt í verkefninu sem var í opinberu eða almennu rými. Við tókum þá ákvörðun að hafa opnunina í suðurhluta bæjarins, en sá hluti er nýrri og þar eru flestir íbúar innflytjendur. Okkur fannst þessi bæjarhluti vera menningarlega sveltur en auk þess er hann aðskilinn gamla hluta bæjarins. Við vildum tengja þessi tvö hverfi saman og vorum með verkefni á báðum stöðum sem voru í göngufæri hvort við annað. Íbúar tóku mismikinn þátt en okkur fannst áhugavert hversu margar konur í suðurhluta bæjarins voru tilbúnar að vera með, en einn anginn snerist um að opna heimili þeirra fyrir áhorfendum. 

Hvert var þitt hlutverk?

Mitt hlutverk var einkum að aðstoða prófessorinn í skipulagsmálum en auk þess tók ég m.a. þátt í uppsetningu á verkum. Ég sá einnig um að auglýsa viðburðinn í Berlín og var í beinu sambandi við listamennina. Þetta er í fyrsta sinn sem Kultur Labour Bernau er haldið en vonandi verður framhald á því. Undirbúningurinn tók marga mánuði og mikil vinna liggur að baki. Ég er ekki viss hvort ég komi til með að koma að þessu verkefni aftur þar sem ég hef einnig áhuga á að gera aðra hluti. En ég myndi gjarnan vilja miðla upplýsingum og reynslu til þess sem tæki við af mér.

Verkefnið tengist beint náminu sem ég er í, Kunst im Kontext, sem myndi útleggjast á íslensku: List í samhengi. Eins og nafnið gefur til kynna er markmið námsins að tengja myndlist samfélaginu. Það er oft gert með því að skapa verkefni í samstarfi við ólíka hópa, oft þá sem búa við samfélagsleg vandamál. Eða þá að vinna með mismunandi menningarstofnunum eða miðlum innan menningarheimsins. Fólk úr ólíkum áttum sækir í námið; margir eru með leiklistarbakgrunn, en í því eru einnig tónlistarmenn, rithöfundar og mikið af myndlistarfólki. Þá aðallega myndlistarfólk sem sækist eftir dýpri þekkingu á fræðilegri hlið myndlistar, þar sem námið er mjög fræðilegt. Oft er þetta fólk sem fann sig ekki alveg innan myndlistarheimsins sem myndlistarmenn og er að leita að nýjum leiðum. Ég var sjálf mjög þyrst í fræðilega hlutann. Við höfðum fengið nasaþefinn af honum í myndlistardeildinni í Rietveld en mig langaði að dýpka skilninginn. Þetta var mjög erfitt til að byrja með, daglegt offlæði af þungum textum á þýsku.

Náminu fylgir mikil umræða um hlutverk listamannsins. Í byrjun fór sérstaklega í taugarnar á mér að talað var um listamannin eins og félagsfræðing. Að hlutverk hans væri að vinna fyrir samfélagið. En það er erfitt að svara spurningum eins og hvar listamaðurinn stendur gagnvart samfélaginu og hvert hlutverk hans sé. Fólk er ekki sammála um hvernig eigi að vinna með samfélagið út frá myndlist og hvar ábyrgðin liggi.

Núna ertu búin að búa í Berlín í nokkur ár, hver er þín upplifun af borginni og myndlistarheiminum?

Ég er enn rosalega spennt fyrir borginni, mér líður enn eins og ég sé að klóra í yfirborðið á senunni. Eða réttara sagt: Senunum þar sem myndlistarsenan er ekki ein heldur eru þær fjölmargar. Ég er komin með ágæta tilfinningu fyrir hverju ég er að leita að sem auðveldar mér að skipuleggja á hvaða sýningar og opnanir skal fara. En svo er ég sífellt að frétta af nýjum og spennandi hlutum sem eru að gerast í rýmum sem ég hef aldrei heyrt um. Þessi stöðuga gróska fær mig til að vilja búa hérna lengi ef ég hef tækifæri til. Það væri æðislegt að geta búið hér en fara í verkefni heima inni á milli. Æðsti draumurinn væri að mynda þríhyrning á milli Berlínar, Reykjavíkur og Amsterdam. Það var alltaf planið með Amstel 41.

Segðu okkur frá verkefnarýminu Amstel 41, starfseminni og tilurð.

Við byrjuðum með rýmið ári eftir að ég útskrifaðist úr Rietveld. Það kom upp ákveðin þrjóska í mér að halda áfram að búa í Amsterdan, en á þessum tíma voru flestir sem lærðu með mér farnir. Annað hvort aftur til síns heima eða í stærri borgir. Vandamálið við borgina, að minnsta kosti á þessum tíma, var að senan þar var lokuð, lítið var af listamannareknum rýmum og lítið af tækifærum og plássum fyrir fjöldann sem útskrifaðist úr myndlist. Einnig var allt mjög dýrt og leigan há, sem veldur því að listamenn flýja. Ég tók fyrsta árið eftir útskrift líka í að hugsa minn gang og kúpla mig aðeins út úr listaheiminum og ákveða hvort ég vildi vera partur af þessum heimi og þá hvernig. Sem listamaður eða einhvern veginn öðruvísi. Á þessum tíma leigði ég vinnustofu með vinum og við héldum sýningar hér og þar, en það var alltaf í tímabundnu húsnæði. Þá kom upp sú hugmynd að opna eigið rými á varanlegri stað.

Nú er ég búin að reka Amstel 41 í fimm ár og að rýminu hafa komið fjölmargir sýningarstjórar sem ég vinn í nánu samstarfi með. Seinustu árin hef ég verið að vinna með listamanninum Artun Arasli. 

„Áhersla hefur verið lögð á að vinna með ungum myndlistarmönnum og gefa þeim sem eru nýskriðnir úr skóla stökkpall. Ég hef séð hvað það hefur gefið ungu fólki mikið, en ungt myndlistarfólk hefur verið mjög einangrað. Okkur langaði til að mynda samfélag í kringum rýmið, flytja vinnustofuna í rýmið sem fólk hefði greiðan aðgang að og halda gott partí.“

Við vildum fá fólk til að koma og tala, hvort sem samtalið ætti sér stað á opnuninni eða seinna. Við undirbúning sýninga vinn ég náið með myndlistarmönnum og ég lít á hverja sýningu sem lærdómsferli. Ég vil frekar að hún gefi innsýn í vinnuferlið frekar en einhverja lokaniðurstöðu. Í Amstel 41 hef ég einnig unnið með reyndari myndlistarmönnum, sem eru til að mynda fastir í viðjum listmarkaðarins. Fastir undir ákveðinni pressu um að gera söluvöru, hversu abstrakt sem sú söluvara getur verið. Þeir eru oft með spennandi hugmyndir að öðrum verkefnum sem þeir hafa kannski ekki haft tækifæri til að hrinda í framkvæmd.

Í framtíðinni væri gaman að tengja rýmið inn í aðrar borgir, halda nafninu sem er búið að skapa sér sess í menningarlandslaginu í Amsterdam en fá hreyfingu á það. Ég er þegar búin að halda eina sýningu í Berlín, sem einblíndi á unga myndlistarmenn eins og við gerum í Amstel41 þó að það hafi verið ótengt því rými.

Önnur sýning sem þú skipulagðir og stýrðir fyrir nokkrum árum var í kastala í Tékklandi, mjög áhugaverð staðsetning. Hvernig kom það til?

Það er mikið af köstulum í Tékklandi en aðkoma mín að sýningunni var í raun tilviljun. Eigandi kastalans, bandarískur fjárfestir, kom á fyrstu opnunina í Amstel 41. Hann sá hvað okkur hafði tekist að gera án þess að leggja krónu í rýmið. Ég var kynnt fyrir honum, vissi ekkert hver hann var en hélt kannski að hann og konan hans væru eldri myndlistarmenn. Þegar þau sögðust hafa stoppað í Amsterdam á skútunni sinni hugsaði ég að ég vissi nú ekki um marga myndlistarmenn sem sigla á skútum. Nokkrum dögum eftir opnunina var ég síðan boðuð á fund með þeim. Þar var ég beðin um að stjórna sýningu í kastala þeirra. Kastalinn var risastór og fengnir voru þrír myndlistarmenn til að vinna verkin á staðnum en að öðru leyti voru þetta fyrirfram ákveðin verk sem voru flutt inn og aðlöguð að rými kastalans. Það var í rauninni ekkert þema á sýningunni, áherslan var lögð á innsetningar og vídeó og samspil ljóss og skugga. Þetta átti að virka sem heild. Alls um þrjátíu myndlistarmenn komu að sýningunni, alls staðar að úr heiminum og dvöldu í nokkrar vikur í kastalanum. Þetta var ógleymanleg reynsla. Sýningin kom út á núlli, en eigendurnir voru á bremsunni með fjármagn. Við fengum smá ferðakostnað greyddan, ókeypis gistingu og ódýran mat. Það gat verið erfitt þar sem fyrir þau voru þetta smámunir. En þetta kenndi mér meðal annars að vera tilbúin með fjárhagsáætlun fyrir verkefni eins og þetta og semja fyrirfram. Eitt af þessum hlutum sem ég er búin að læra með því að reka mig á, hlutir sem eru ekki kenndir í listaháskóla. Það er mjög lítið kennt hvernig á að lifa af eftir skóla. Mikil hula virðist liggja yfir því. Sem ég er alfarið á móti. Það er vel hægt að lifa af myndlist. Leiðirnar til þess eru margar og mismunandi. Þetta snýst mikið um vinnusemi og heppni. En það er lítið fjárhagslegt öryggi í þessum bransa. Sjálf er ég mjög spennt að vita hvernig ég muni sjá mér farborða í framtíðinni. 

Núna ert þú búin að búa erlendis í tíu ár, fylgistu með umræðunni á Íslandi? Til að mynda hugmyndum um að skerða framlag til Myndlistarsjóðs?

Ég hef reynt að halda mig frá umræðunni, en finnst það ekki vera hægt lengur. Hef alltaf verið í tengslum við íslenska myndlistarmenn og finnst þessi þróun sem á sér stað ótrúlega óhugguleg. Ég á ekki orð yfir skammsýninni. Skammsýni og sveitalegum hugsunarhætti. Menningin er góða orðsporið sem við höfum eftir að hafa verið með allt niðri um okkur. Nú tala ég sem myndlistarmaður og sýningarstjóri en ef ég set mig í spor fjármálamanna þá liggur peningur í þessu upp á framtíðina. Ég hef búið erlendis í tíu ár og hef fylgst með því úr fjarlægð hve fólk er meðvitað um Ísland. Fyrst virtist fólk einungis vita af gróskunni í tónlistinni en nú er mikill áhugi á myndlistinni. Fólk spyr mikið út í alls konar hátíðir og aðsetur tengt myndlist. Ísland er einn af þessum spennandi stöðum sem auðvelt er að fara til. Það er gaman að búa í borg eins og Berlín með gríðarstórum myndlistarheimi sem virðist vera meðvitaður um tilurð Íslands. Við ættum að nýta okkur það meðan við erum inni í umræðunni. Fólk er alltaf til í samstarf.