Fátæki námsmaðurinn

Matarunnandinn Ásta Maack eldar ódýrt lasagne úr góðum hráefnum.

Matgæðingurinn og líffræðineminn Ásta Maack heldur úti bloggsíðu undir nafninu Fátæki námsmaðurinn. Hún eldaði ljúffengt lasagne með pestó fyrir Blæ á dögunum og við ræddum daginn og veginn yfir kertaljósi og dinner tónlist.

Lasagne

Efni

4 gulrætur.
2 tómatar.
1 paprika.
Heill pakki af sveppum.
Hakk: Ég notaði ungnautahakk.
Lasagne plötur.
Kotasæla: Stór dós.
1 laukur.
Ferskt spínat, um 2/3 af pakkanum.
2 hvítlauksgeirar.
Tómatpúrra: Ath. niðursoðið heitir þetta „tomato paste” en ekki „purée“.

Rifinn ostur.
Krydd: Svartur pipar, oregano, timian, paprika, chili-krydd, smá soya (í staðinn fyrir salt). Hér er alls ekki nauðsynlegt að nota allt.

Aðferð

1. Sker gulrætur, papriku og tómata niður í litla bita og steiki á pönnu. Krydda með oregano og timian. Tek af eftir 10 mínútur og set til hliðar.

2. Sker niður sveppi og saxa hvítlauk. Steiki á pönnunni og tek af eftir um 10 mínútur. Set til hliðar.

3. Saxa lauk og steiki á pönnu, bæti hakki við eftir að laukurinn er orðinn glær. Leyfi að stikna í nokkrar mínútur, krydda svo með pipar, papriku, chili kryddi og slettu af soya sósu. Bæti svo tómat púrrunni við og held áfram að steikja í um 5 mínútur. Set til hliðar.

4. Raða lasagne plötum neðst í ofnfast form. Set allt hakkið ofan á og dreifi.

5. Set aðra röð af lasagne plötum yfir, svo hakkið er þakið. Dreifi gulrótar- og paprikumixinu yfir sem og hálfri dós af kotasælu.

6. Önnur röð af lasagne plötum. Dreifi svo sveppunum jafnt yfir og set spínat ofan á þá. Magn af spínati; þar til sveppirnir eða plöturnar fyrir neðan sjást ekki.

7. Bæti við annarri röð af plötum, þek með restinni af kotasælu og fullt af rifnum osti.

8. Leyfi annað hvort að standa í forminu yfir nótt (því þá bragðast það betur) eða set allt inn í ofn í 30 mín á 190°C.

Grænt pestó

Efni

2 bollar fersk basil; fæst á 300 kall.

1/3 bolli fersk steinselja; Ég keypti plöntu fyrir 2 vikum og hún lítur enn vel út.

2-3 hvítlauksgeirar.

1/4 bolli furuhnetur.

1/4 bolli olívuolía.

1/2 bolli parmesan; mæli sterklega með heilum parmesan sem þið rífið niður, en ekki forrifnum í pakka.

Aðferð

1. Saxa hvítlauk eins smátt og ég get/nenni. Þegar hann er orðinn mjög fínn set ég basil ofaná og saxa; aftur mjög smátt. Bæti svo steinselju ofan á og saxa saman við.

2. Bæti við furuhnetunum ofan á og saxa.

3. Set allt í skál og bæti parmesanosti og olíu útá og hræri. Tilbúið.

Ásta býr með kærastanum sínum, Aroni, í vel skipulagðri og hlýrri stúdentaíbúð nálægt Háskóla Íslands. Þau stunda bæði nám við skólann og hentar það því vel. Ásta segist hljóta að hafa fengið mataráhugann frá mömmu sinni sem notar mikið af kryddum og leggur mikla vinnu í matinn. „Það var alltaf kvöldmatur á borðum heima. Þetta er tíminn sem maður hefur til að eyða með fjölskyldunni, allir eru svo uppteknir en á kvöldin er gott að setjast niður, borða góðan mat og spjalla um daginn. Ég vil ekki horfa á sjónvarpið á sama tíma eða að einhver sé í símanum. Þetta er bara korter þar sem allir tala saman og maður tjúnast aðeins niður.“

Aðspurð segist Ásta ekki alltaf hafa spáð eins mikið í matargerð og hún gerir í dag. „Ég fattaði það ekki fyrr en ég flutti út hvað eldamennska er mikilvæg. Það var regla heima hjá mér að einn í fjölskyldunni átti að elda einn dag í viku. En ég var mjög léleg í því, systkinin voru betri í því. Maður var alltaf að reyna að komast upp með að elda eitthvað einfalt, eins og pylsur sem tekur fimm mínútur. En það var alltaf mjög mikið að gera hjá mömmu og pabba og þegar bróðir minn flutti út fór ég að spá meira í þetta, hvað maður þarf virkilega að hugsa út í þetta.“ Ásta á tvö eldri systkini, einn bróður og eina systur. „Bróðir minn er sjúkur matarunnandi. Við höfum þetta held ég bæði frá mömmu. Hann kom í heimsókn um daginn og var að flambera humar, eins og gerist, nema hvað að allt í einu dettur eitthvað stórt stykki úr viftunni. Þá hafði hann brætt úr henni! En við fórum í Ikea og náðum að laga þetta.“

Ásta setti upp bloggsíðuna síðastliðið sumar eftir þónokkra umhugsun um matarvenjur stúdenta. „Það fara ótrúlega margir á skyndibitastaði, alltaf. Hvernig hefur fólk efni á þessu? Mér finnst bara miklu betra að elda ódýrara, hollara og frá grunni. Ég veit hvað er í matnum sem ég bý til sjálf.“

Aron: „Hún skammar mig alltaf þegar ég vil fara út að borða.“ Ásta þvertekur fyrir það hlæjandi.

Ásta: „Ég elda langoftast en þegar við förum út að borða þá borgar Aron sem er frábært.“

Aron: „Við eigum nokkra uppáhalds staði. Sushi train er í algeru uppáhaldi þegar við viljum gera vel við okkur.“

Ásta segir bloggið ekki taka mikinn tíma frá sér, hún skellir inn uppskriftum þegar færi gefst sem er um það bil tvisvar í viku.

Aron: „Eina breytingin við það að Ásta byrjaði að blogga er sú að hún þarf alltaf að taka nokkrar myndir áður en ég má byrja.“

En er einhver hámarkskostnaður á máltíðunum?

„Það er budget, af því að ég er sjálf fátækur námsmaður, en ég pæli ekkert voða mikið í því. Ég borða mikið af afgöngum. Og ég hendi aldrei mat.“

Hún kaupir mikið af ferskum kryddum, eins og basilikku og kóríander, setur þau í pott og vökvar reglulega svo þau endist lengur.

Aron: „Ég fékk einu sinni krydd í skóinn frá henni.“

Ásta: „Já, mér fannst það geggjuð gjöf!“

Markhópurinn er, eins og nafnið gefur til kynna, fátækir námsmenn en samt furðar Ásta sig á því að þeim sem líkar við síðuna eru margir á aldursbilinu fjörutíu til sjötíu ára. „Hvar eru námsmennirnir?“

Aron: „Niðri í stúdentakjallara. Eða með mér á Serrano. Mamma reyndi að fá mig til að elda einu sinni í viku en eftir fjórða skiptið af soðnum pylsum gafst hún upp.“

Ásta: „Það er svo oft svona með yngri systkinin. Maður kemst upp með miklu meira.“

Ásta: „Þessi máltíð kostar í kringum 2.000 krónur og hún myndi duga fyrir fimm manns. Mér finnst eitthvað svo eðlilegur hlutur að hugsa út í sparnað. Ég vona samt að ég sé ekki nísk.“

Aron: „Nei, þú ert ekki nísk. Þú ert ekki þessi týpa sem ferð reglulega dýrt út að borða, eins og ég kannski. En þú leyfir þér að splæsa í fallegar flíkur og svoleiðis. Ég er soldill nautnaseggur, spái ekki mikið í sparnaði. Þess vegna er ég svo heppinn að eiga Ástu sem hefur gaman af því að elda hollan og góðan mat.“

Ásta: „Já, er það ekki? Miklu betra en til dæmis Subway.“