Líf þitt gæti leynst á Google

Birgitta Jónsdóttir talar um raunheiminn, beint lýðræði og hið stafræna sjálf.

Birgitta Jónsdóttir er einn helsti fulltrúi hins netvædda einstaklings á Íslandi. Hún er Pírati á Alþingi og bjó til IMMI (International Modern Media Initiative), þingsályktun til að gera að veruleika sterkustu upplýsinga- og tjáningarfrelsislög í heiminum. Auk þess hefur hún unnið með Wikileaks og öllum stærstu nöfnum á þessu sviði. Hún er mjög eftirsótt erlendis til að fjalla um friðhelgi einkalífsins, upplýsingafrelsi, tjáningarfrelsis og okkar stafræna sjálf. Hún skipulagði nýverið ásamt Hallgrími Helgasyni rithöfundi upplestur á textum Edwards Snowden sem hann gaf frá sér er hann lak út gögnum frá bandarísku leyniþjónustunni í þýðingu Hallgríms og Sindra Freyssonar. Gögnin sýndu að allt okkar hversdagslega líf er tekið ófrjálsri hendi, skráð og geymt.

Ungt fólk veit kannski ekki hvernig gögnin snerta okkar daglega líf svo sem friðhelgi einkalífsins, upplýsingafrelsi og tjáningarfrelsi á netinu?

Já, nákvæmlega, þetta varðar nátttúrulega þeirra framtíð, ykkar framtíð. Ég er í krossferð til að reyna að kynna þessi mál, ekki bara hérlendis, heldur einnig og raunar mest erlendis. Ég hef þar af leiðandi fengið að nudda öxlum við flesta þessa risa sem vinna á þessum vettvangi. Ég var einmitt á rosalega flottri ráðstefnu í Finnlandi um helgina. Þar var forsætisráðherra sem opnaði ráðstefnuna og talaði um að opna stjórnsýsluna, opna allar upplýsingar, þannig að samtök og einstaklingar geti notað þær til að búa til eitthvað gagnlegt eða sniðugt. Og að hlusta á þeirra forsætisráðherra miðað við flesta aðra...

Áttu við okkar forsætisráðherra?

Já, ég varð bara svo öfundsjúk út af því að þessi finnski hafði svo góðan skilning á því hvernig hægt er að nota netið til þess að gera þetta raunheima samfélag betra. Við erum að mörgu leyti enn þá mjög aftarlega á merinni á Íslandi með það. 

Er hægt að lagfæra það?

Af minni reynslu, eftir að hafa séð kerfið innan frá, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki hægt að laga það eins og það er. Það er alveg sama hvern þú setur inn í stjórnsýsluna, út kemur alltaf sama kerfisvillan, út af því að kerfið er gallað. Þú myndir ekki reyna að setja hugbúnað sem er fyrir nútíma tölvu í gamla tölvu og ætlast til þess að það myndi virka.

Þetta eru mjög mikilvæg skilaboð til fólksins sem les Blæ. Ég vil að þau byrji að hugsa um hvernig samfélagi þau vilja búa í eftir tuttugu ár. Ég veit að það er erfitt að hugsa fram í tímann en það er ekki bara erfitt fyrir ungt fólk, það er erfitt fyrir alla. Eina fólkið sem þorir að breyta hlutunum, sem er ekki alveg að kafna úr hræðslu og ótta við breytingar, er ungt fólk.

Og það er eiginlega svolítið ykkar að búa til nýja kerfið. Minn upprunalegi drifkraftur til að fara inn á þing var að búa til lýðræðisleg verkfæri sem væri hægt að nota þannig að þið, til dæmis, hefðuð rétt á að krefjast þess að losa ykkur við fólk sem þið hefðuð kosið í góðri trú en komist svo að því að væri bara að ljúga. Og þá kannski missið þið áhugann á því að kjósa af því að þið sjáið að það er algjörlega tilgangslaust. En þar með er undirstaðan í kerfinu okkar ónýt. Þess vegna hef ég verið að ýta því að fólki að hugsa um beint lýðræði: Hvernig getum við fengið meira beint lýðræði?

Er ekki öðruvísi fyrir þig sem komst að netinu seinna, eftir að það var fundið upp, heldur en fyrir yngra fólkið sem hefur alist upp á netinu?

Jú, ég held að það sé margt sem gleymist þegar maður venst einhverju. Ég held að fólk skilji ekki alveg hversu miklu þetta breytti og hvað þetta gerði líf okkar auðveldara. Áður fyrr fór maður um mánaðamót í bankann og beið í biðröð, kannski í einn og hálfan tíma, til að fá launin sín.

Tæknin hefur því auðveldað lífið mikið. En um leið og þú ert byrjaður að nota til dæmis bókasafnið á netinu og kaupa bækur á Amazon, eða á Kindle er fylgst með því. Í gamla daga var það að afhenda yfirvöldum upplýsingar um hvað þú værir að lesa mesta no-no-ið. Allar upplýsingar, um allt sem þú gerir, og allar þínar skoðanir sem birtast í hverju þú like-ar, hvað þú horfir á, sem er ekki endilega þín skoðun, er hægt að skoða. Þetta er allt geymt hjá Google. Og þeir vilja ekki friðhelgi einkalífs, þá geta þeir ekki selt auglýsingar. Þannig að, hvað getum við gert?

Hefur orðið einhver viðhorfsbreyting?

Nei, ekki nægilega mikil. Fólk vaknaði aðeins upp með Snowden en ég hef ekki séð neinar almennilegar lagabreytingar. Reglur þurfa að vera skýrari. Við viljum ekki endilega gera einkalíf okkar opinbert, við viljum ekki endilega þurfa að hugsa áður en við förum á klósettið: Best að skilja símann eftir frammi, það gæti einhver verið að taka upp! Til dæmis, allir sem hringja í mig, allir sem eru í samskiptum við mig, út af því ég er svo mikill „cyberterroristi“ eru komnir inn í þennan annan hring. Jafnvel áður en þetta Wikileaks ævintýri byrjaði var byrjað að fylgjast með Facebookinu mínu og Twitter, þá var ég svona umhverfis-aðgerðarsinni. 

Hvað er hægt að gera?

Það þurfa að koma yfirlýsingar frá yfirvöldum um að samkvæmt stjórnaskrá njótum við friðhelgis sem einstaklingar og það á alveg jafn mikið um okkar stafræna sjálf þar sem eru miklu mun meiri upplýsingar um okkur. Sérstaklega þegar við erum með kennitölukerfi. Sem er bara súrrealískt. Aðrar þjóðir eru bara: Eru þið geðveik? Að gefa afmælisdaginn sinn þegar maður kaupir miða á miði.is til dæmis, er fáránlegt. Það verður að vera vitundarvakning hérna heima. Kannski ætti að kenna þetta í lífsleikni eða í samfélagsfræðum. Þetta þarf ekki að vera tengt tölvum, þetta er samfélagsmál.

„Skiptir einhverju máli að stóri-bróðir eða fyrirtæki viti allt um þig? Er það ekki bara rosa þægilegt?“

Fólk heldur að Facebook sé ókeypis en þú ert í raun og veru að gefa þeim allt um þig. Sumir fá aldrei vinnu af því þeir birtu einhverja mynd og föttuðu ekki að breyta „privacy“ stillingum. Maður gæti líka óvart samþykkt einhvern á Facebook sem hefði eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu og þá ert þú orðin „target.“ Maður veit aldrei hvað kemur fyrir en samt er fólk ekki að vernda sig.

Ef þú værir að fara að stunda kynlíf í einhverju landi þar sem er mikið af AIDS eða lekanda myndirðu nota smokk. Aftur á móti förum við á netið, sem er einn bullandi lekandi og sífilis, allt morandi í vírusum og ógeði, og verndum okkur ekki neitt. Fólk passar ekki að setja almennileg lykilorð, að dulkóða harða diskinn sinn, það er eitt af því einfaldasta, sérstaklega á Apple. Það vantar betri kennslu.

Þú hefur talað um hvað það getur verið flókið að fá óhlutbundnar upplýsingar á netinu sem og í hefðbundnari miðlum.

Já, sko ég er ekki með tengt sjónvarp heima hjá mér en ég verð að fylgjast með íslenskum fréttum. Þegar ég vakna tek ég rúnt um íslensku miðlana, en þar eru alltaf sömu fréttirnar; þetta er algjör endurvinnsla. Mér finnst Kjarninn gott blað og ég er dálítið skotin í ykkar blaði líka en vandamálið er að ég er svo vön að skjótast hingað og þangað og ná í það sem er helst að gerast, og þá detta lengri textar svolítið úr lúppunni.

Á Facebook er því alveg stjórnað hvað þú sérð. Ekki gleyma, þú ert að vinna fyrir því að vera á Facebook með því að gefa þínar upplýsingar. 

„Ef einhver skrifar skilaboð: Afi minn var að deyja, birtast allt í einu legsteina auglýsingar.“

Þeir skanna ekki bara hegðunina heldur það sem þú ert að skrifa prívat.

En mér finnst Twitter skemmtilegt. Þú getur stjórnað betur því sem þú sérð; ekki bara fólk sem er með sömu skoðanir og þú. Þú getur fylgst með þeim sem þér finnst áhugaverðir og eru með góðar upplýsingar. Þú getur ekki tekið upplýstar ákvarðanir ef þú hefur ekki aðgengi að réttum upplýsingum.

Ég hvet fólk til að kynna sér textann sem Snowden gaf frá sér. Hann nær að taka þessi tæknimál inn í daglegt líf; það er hans stærsta gjöf til okkar. Og hans gjald og hans saga er alveg mögnuð. Ég er að vonast til að geta heimsótt hann. Þegar Snowden birtist fyrst sagðist hann helst vilja fara til Íslands út af IMMI, sem var frábært. En Ísland þorði ekki að taka á móti honum.

Það er mikilvægt að gleyma honum ekki, heldur ekki Manning, sem er maðurinn, eða konan, sem byrjaði að leka öllum þessum gögnum til Wikileaks. Það breytti heiminum. Ég sé það svo skýrt; umræðan um upplýsingar, tjáningarfrelsi, og friðhelgina, um þessi málefni, hefur ekki stoppað síðan þá.

Hefur þú séð einhverja grósku í þessu á Íslandi?

Mjög litla, við erum allt of lítið vakandi. Ég er nánast aldrei beðin um að tala um þessi mál á Íslandi. Mér hefur fundist það dálítið sérkennilegt. Ég er með betri upplýstu manneskjum um þessi mál hérlendis út af því að ég er alltaf að hitta fólkið sem er með puttann á púlsinum. Ég vildi tala miklu meira um þetta heima af því ég er komin með ógeð á því að vakna klukkan fjögur á nóttunni, fara í flug, á ráðstefnu, vera á einhverju hóteli í sjö tíma og fljúga heim. Þetta er ekki mjög „glamorous“ líf, en mér finnst mikilvægt að sinna þessu ákalli. 

„Það eru mjög fáar konur í þessu, allt of fáar konur, þetta er ekki strákadót.“

Stelpurnar sem lesa þetta viðtal: Þetta er ekki strákadót! Þetta er eitthvað sem varðar alla og mun hafa áhrif á framtíð ykkar.

Ég hvet fólk sem hefur áhuga á þessu, að blanda sér í þetta. Ísland gæti verið í sérstöðu varðandi þetta mál. Við höfum fengið alveg rosalega jákvæða umfjöllun um Ísland út af þessu, sem við þurftum svo mikið á að halda eftir hrun.