Helga Braga vs. Ari Eldjárn

Uppistandskempurnar spjalla um flugfreyjuna og vandræðin í grínheiminum

Ari: Það versta sem ég lendi í er þegar ég er búinn að skemmta á svo mörgum stöðum sama kvöldið að ég man ekki hvað ég er búinn að segja þegar ég er kominn á seinasta staðinn og hugsa: „Er ég búinn að segja þetta hérna? Var ég að segja þetta rétt áðan?“

Helga Braga: Guð, þá fær maður hnútinn í magann: „Var ég að segja þetta fyrir 5 mínútum eða var ég að segja þetta á öðrum stað?“

Ari: Það hlýtur að vera mjög erfitt að horfa á einhvern mann segja nákvæmlega sama brandarann og hann sagði nokkrum mínútum áður. Eins og hann sé með déjà vu. Þá sést líka hvað þetta er mikið leikrit; sömu hreyfingar, sömu smáorð og sömu pásur.

Helga Braga: Nákvæmlega, þá hugsar fólk: „Já hann er ekkert að segja þetta bara svona upp úr sér.“

Ari: En hvað ertu að bralla núna?

Helga Braga: Núna er ég að fljúga hjá WOW air og að skemmta þess á milli.

Ari: Ég hef tekið þennan pakka, vann tvö sumur sem flugþjónn. Ég held einmitt að Benedikt Valsson í Hraðfréttum sé orðinn flugþjónn núna. Það er bara grínið og flugið. Störfin eru líka mjög svipuð, þú þarft að halda fólki í góðu stuði.

Helga Braga: Já, ég er stundum með smá uppistand í fluginu. Ég tilkynni auðvitað þessa hefðbundnu hluti og fer með ávarpið. En ef það er stemning í vélinni grínast ég smá en þó ekki ef klukkan er sex að morgni og bara Þjóðverjar í vélinni. Ég er stundum með uppistand á frönsku. Það er ekkert sérstaklega fyndið en Frakkarnir hlæja sig máttlausa. Þeir eru svo þakklátir. Maður þarf ekki annað en að tala á frönsku þá byrja þeir að klappa.

Ari: Ég ætla nú ekki að alhæfa um þjóðerni en skemmtilegustu farþegar sem ég man eftir eru Skotar. Þeir voru svo hrikalega afslappaðir og sögðu kannski: 

„I was just wondering, if there is no bother like, maybe you’ve got two or three extra pillows, for my back, there is no rush though, if you’ve got the time, just have a peak in the over, if not that is cool as well, it is just great to be on the flight anyway.“

Helga Braga: Bretarnir kunnar reyndar líka að meta grínávörp, sérstaklega ef það er einhver kaldhæðni í þeim, þeir fatta það.

Ari: Þeir elska kaldhæðni.

Helga Braga: Til að byrja með var ég svolítið óvarin í uppistandinu. Ég átti það til að grenja á eftir. Til dæmis er ég var að skemmta ónefndum hópi, á ónefndum stað úti á landi, hjá ónefndu fyrirtæki. Og meiri hlutinn voru karlmenn.

Ari: Jájá, ég sé hvert þú ert að fara.

Helga Braga: Þeir voru blindfullir og sögðu: „Kanntu ekki einhverja almennilega brandara? Kanntu ekki einhverja klámbrandara kelling?“ Ég var hins vegar ekki með neitt klám og fór að flýta mér og kláraði einhvern veginn giggið. Svo bara grenjaði ég alla leiðina heim og hugsaði: „Ég ætla aldrei, aldrei að gera þetta aftur.“

Ari: Þetta er ömurlegt. Þetta er einhver krafa sem kemur allt í einu á kvenkyns uppistandarana: „Já, það er eins gott að hún sé með bein í nefinu ef hún ætlar að „impressa“ okkur. Hún verður að sýna að hún er ekkert síður gróf en við karlarnir.“ Mér finnst þetta óþolandi.

Helga Braga: Já, þetta er ekki vandræðalegt. Þetta er bara óþolandi.

Ari: Ég þarf aldrei að vera grófur. Það er kannski einstaka sinnum sem ég kem á svona karlakvöld og fæ: „Ertu ekki með eitthvað svona neðanbeltis?“ En ég er tepra og ég er viðkvæmur. Ég er ekki með einhverja viðbjóðslega brandara opinberlega. Ég get vel sagt eitthvað ógeðslegt en mér finnst bara vandræðalegt að gera það.

Helga Braga: Þarna var ég ekki nógu sterk til að segja: „Er þetta ógeðið í fyrirtækinu? Hvar er konan þín? Já, nei það er engin kona…“ Eða eitthvað álíka og hjóla í gæjann í staðinn fyrir að reyna að hafa alla næs. 

Ari: Ég er oft að spá hvernig það er að vera kvenkyns uppistandari á svona karlakvöldum, þar sem eru engar konur á svæðinu. Er það alltaf erfitt eða leikurðu þér stundum að því?

Helga Braga: Fyrir mörgum árum bað ónefnt íþróttafélag mig um að koma og vera með uppistand. Þegar ég kom sá ég inn um gluggann atriði með allsberum kellingum. Og þá hugsaði ég: „Guð minn góður hvernig á ég að skemmta karlmönnum þegar þeir eru búnir að sjá píku?“ Það var búið að líma fimm hundruð kalla á konurnar og greinilega mjög sveitt partý. Mjög tragískt og ég þurfti á öllu mínu að halda. Svo byrjaði ég á því að segja: „Ég er ekki að fara að sýna á mér píkuna“ og allir hlógu í salnum. Ég tók allt það grófasta sem ég átti.

Ari: Ég fer bara að svitna við það að heyra þetta.

Helga Braga: Já, en ég hef oft verið að skemmta körlum og ég hef meira að segja verið beðin um að koma sem Gyða Sól á bifvélaverkstæði. Þá var einn kall sem skrækti úr hlátri alveg bara: „Tíhíhíhí“ og þá var Gyða Sól alveg sjúk í hann: „Helvíti líst mér vel á þig, þetta væri nú eitthvað fyrir mig!“

Ari: Hvaðan kemur Gyða Sól karakterinn? Ég man að það var karakter sem allir voru að leika þegar ég var í MR. Þá voru allir að kíkja á bíla og segja: „Já, gæti verið pannan, en gæti líka verið pakkningin.“

Helga Braga: Já, hún er sko blanda af móðurbróður mínum, blessuð sé minning hans, hann er núna uppi á himnum. Hún er sko algjörlega hann og svo ein ónefnd manneskja úr æsku minni á Akranesi. Oft er þetta blanda af tveimur eða fleiri. Mér var alltaf heilsað eftir þetta: „Bleeeeesuð“

Ari: Er það ekki Gyða Sól sem segir: „Jæja strákar, þið segið þetta, þið eruð svona sniðugir?“

Helga Braga: Ja, þetta er reyndar beint upp úr munni eldri frúar sem ég leigði hjá. Hún var um nírætt, alltaf með sígó og sagði: „Jæja, þú ert svona sniðug“ og horfði einbeitt á mig eins og ég ætti að lesa út úr allt sem var þarna á bakvið. Þetta byggist náttúrlega á þessu; þú tekur eitthvað úr þínu lífi sem er svolítið skrítið og pælir í því.