Andri Snær vs. Kristín Soffía

Rithöfundurinn og borgarfulltrúinn ræða um framtíð Reykjavíkur, deilihagkerfið og einkabílinn

Kristín: Ég er með bölvuð leiðindi sem mig langar til þess að ræða, það er í sambandi við aga.
Andri: Aga? Hvernig þá, barnaagi eða?
Kristín: Nei, aginn í þjóðfélaginu.
Andri: Ertu þá að tala um gamla karla sem mæta með skurðgröfu án þess að spyrja nokkurn álits?
Kristín: Já, meðal annars. Við hendum rusli á göturnar og leggjum ólöglega því við viljum helst ekki þurfa að ganga neitt. Við högum okkur eins og við séum enn þá 5.000 manns hérna, við þurfum að læra að vera lítil stórborg.
Andri: Talandi um aga, hvernig gengur annars hjá ykkur að færa Héraðsdóm Reykjavíkur?
Kristín: Það gengur alls ekki vel. Héraðsdómi finnst þeir í alvörunni gefa torginu mikið líf. Þar eiginlega strandar umræðan.
Andri: Þeir mættu þá allavega sýna torginu þá virðingu að skipta um gardínur. Ég tók einu sinni þátt í samkeppni um miðbæ Reykjavíkur og lagði meðal annars til að skipt yrði um gardínur á jarðhæðinni.

„Ég vann keppnina en samt eru sömu gardínur í Héraðsdómi núna 10 árum síðar. Ég hefði betur hringt í húsvörðinn og beðið hann um að gera þetta í stað þess að taka þátt í hugmyndasamkeppni.“

Kristín: Eða við brjótumst bara inn …
Andri: Já, eða það – en það væri agalaust.
Kristín: Þetta er samt alveg út í hött. Það er eitt að vilja ekki færa sig af eigingirni en annað að segja að héraðsdómur gefi torginu líf!
Andri: Þá getið þið vakið upp líf í kringum héraðsdóm eins og gert var í borgum hér áður fyrr, hafa opinberar refsingar.
Kristín: Já, hengingar og svoleiðis? Ég var einmitt að tala um agavandamál samfélagsins. Þarna er lausnin komin.
Andri: Það er allavega alltaf líf í kringum héraðsdóminn í Game of Thrones.

Andri: Ég flæktist reyndar í annað hugmyndaverkefni með nokkrum arkítektum og tölvufræðingi sem nefnist Hæg breytileg átt. Þetta er eins konar rannsóknarverkefni á því hvernig hægt er að bæta íbúðakost í íslensku þéttbýli og fá fram hugmyndir sem fela í sér endurskoðun viðmiða.
Kristín: Ég heyrði eitt frábært kvót um daginn: „Everything has to change to remain the same.“ Fólkið í borginni er alltaf að breytast og þróunin er á ljóshraða. Til þess að halda í sömu gæði verðum við að elta þróunina og hafa fyrir því.
Andri: Já einmitt, við vorum aðeins að skoða tækniframfarir og traust. Áður fyrr var alltaf þessi hræðsla við ókunnuga, þú húkkar ekki far því bílstjórinn er raðmorðingi sem heggur þig í búta. Með hjálp tækninnar og snjallsímans sjáum við fólk fleygja sér á sófann hvert hjá öðru eða leigja frá sér herbergi. Menn eiga eftir að húkka sér far gegnum símann og þannig ætti bílum að fækka. Sama með húsnæði, þú getur þá leigt út húsið þitt eða jafnvel eitt herbergi án fyrirhafnar. Þannig getur fólk drýgt tekjur sínar og um leið er verið að nýta rýmin betur. Þannig að við prófuðum að hanna íbúðarhús út frá þessum forsendum, að traust myndi aukast í samfélaginu, að fólk myndi nota tæknina til að deila hlutum, nýta þá betur og skapa ákveðið samfélag.
Kristín: Þetta eru mjög skemmtilegar pælingar. Ég held að viðmót gagnvart deilihagkerfi, þ.e. deilingu á hlutum og eignum sé að breytast með ungu kynslóðinni. T.d. er kominn mikill áhugi fyrir „car share“ á Íslandi. Grundvöllurinn væri sá að stór fyrirtæki myndu bjóða upp á fyrirtækjabíla og þú sem starfsmaður fengir ákveðin afnot. Síðan gætu aðrir bíllausir lúðar eins og ég leigt bíl til þess að skreppa í Ikea eða eitthvað. Við stefnum á að koma þessu í umferð á kjörtímabilinu ásamt hjólaleigukerfi en þetta er stórt verkefni þar sem verður að vanda vel til verka.

Kristín: 10 sekúndur Andri: í hverju felst lausnin að farsælli framtíð Reykjavíkur?
Andri: Ég held það væri góð byrjun að skrifaðir væru ritdómar um verktaka og arkítekta rétt eins og ljóðskáld og rithöfunda. Ég spyr mig oft, eins og t.d. með rauða hótelið hjá Leifsstöð, hvernig gat þetta hús orðið til? Byggingarlist og skipulag þarf aldrei að sæta neinni gagnrýni.
Kristín: Ég er alveg ósammála. Ég meina, ástæðan fyrir því að verið er að byggja endalaust mikið af ljótum húsum er vegna þess að það er hellingur af fólki sem þráir að kaupa þessi ljótu hús á uppsprengdu verði. Það sem heppnast vel, fellur inn í umhverfi sitt. Við tökum bara eftir því sem mistekst. Fyrir mér eru gæðin fólgin í því að þú manst ekkert endilega eftir einhverju húsi því arkítektinn var ekki að byggja minnisvarða um sjálfan sig heldur hagnýtt hús sem fellur inn í umhverfi sitt.
Andri: Núna er sögulegt tækifæri. Komandi kynslóð hefur tækifæri á því að byggja upp heilu hverfin með nýjum sjónarmiðum. Hverfi eins Múlarnir, Skeifan, Elliðarvogurinn og Höfðinn sem hægt er að hanna með nýja hugsun í samgöngum og nýtingu á rými.
Kristín: Já, við getum ekki haldið áfram því hugarfari að við séum einkabílaborg sem getur ekki endurunnið.  

Við eigum að geta verið meðal fremstu borga á þessu sviði. Það hefur orðið að þjóðaríþrótt að vera með afsakanir á því hvers vegna við erum öðruvísi: Af hverju við getum ekki gefið til baka í strætó? Af hverju það sé ekki hægt að skila glerflöskum aftur í búðirnar?“

Því var líka haldið fram að það gengi ekki að vera með göngugötu í miðbænum. Við erum svo lítil, hér er svo kalt og öðruvísi en í öðrum borgum. Ég er að vona að þetta sé að breytast með ungu fólki sem er að sækja sér menntun erlendis og komi heim aftur og innleiði ný vinnubrögð. Ég held að það sé lykillinn.

Andri: Við vorum að rannsaka allskyns hugmyndir í þessu verkefni. Það er mikið rætt um leigufélög, við veltum fyrir okkur hvort tæknin gæti haft áhrif. Hvaða áhrif hefur aukning á sameiginlegu forræði, fólk sem á hús með aðeins 50% nýtingu. Væri hægt að búa til sveigjanleg rými, jafnvel rými sem fólk nýtir sem herbergi eina vikuna en leigir út þá næstu?
Kristín: Það er líka mikil samfélagsleg pressa að foreldrar hafi fullkomlega sameiginlegt forræði með tvöfalt sett af sjónvörpum, fatnaði, leikjatölvum á tvöfalt fleiri fermetrum. Annars er annað foreldrið ekki að sinna barninu. Þetta bitnar síðan kannski helst á börnunum sem eiga foreldra sem eru alltaf í vinnunni til þess að sjá fyrir þessu öllu. Ég er mjög hrifin af þessu verkefni hjá ykkur, þið þurfið að byggja svona hús.
Andri: Það eru allavega komnar teikningar, hringið bara í arkítektinn.

Andri: Hvað með þessa umræðu um flugvöllinn og Vatnsmýrina? Hverfi sem margir vilja að sé byggt strax í dag. Ég get ekki sagt að mörg hús sem risu á Íslandi síðustu 10 árin hefðu átt að rísa í Vatnsmýrinni, því miður.
Kristín: Ég hallast að því að þegar flugvöllurinn fari þá ættum við að opna þetta svæði og láta það ósnert í nokkur ár. Þetta verði okkar „Tempelhof“. Við þurfum að læra að líta í kringum okkur og greina umhverfið og finna gæðin í því. Þá er hægt að sjá hvar sólin sest, hvar fólk mun vilja koma saman og hvar væri best að byggja leikvöll. Pæla í svona hlutum áður en framkvæmdum er rutt af stað á svæði sem enginn þekkir. Eða hvað finnst þér?
Andri: Mér hefur fundist hafa farið alltof mikil orka í þessa umræðu. Það eru svo mörg svæði sem hægt væri að byrja að vinna í strax á morgun.
Kristín: Ég held að borgin hafi hingað til verið alltof upptekin af því að styggja ekki þá sem eru á móti breytingum og að styggja ekki „virkan í athugasemdum“ í stað þess að hlusta á þá framsýnustu. Við þyrftum að hlusta meira á fólk eins og þig, Andri, sem sér tækifæri á hverju horni. Stjörnvöld eru alltaf að rífast við annan hvorn hópinn, þann íhaldssama eða þann framsýna. Spurningin er bara, hvorn viltu hafa á móti þér?
Kristín: Talandi um að eyða orku í eitthvað. Mér finnst ég heyra mörgum sinnum í viku að það sé ekki hægt að fara í miðbæinn lengur útaf öllum túristabúðunum.
Andri: Já, það er sífellt verið að kvarta yfir þessum lundabúðum, eru þær ekki svona fimm? Ég hef sagt ferðamönnum að fyrir hvern lunda sem þeir kaupa muni álfur deyja.
Kristín: Ég taldi sjö um daginn og það eru 150 búðir á Laugaveginum. Í staðinn erum við með ótrúlegt úrval af veitingastöðum, kaffihúsum og fleira. Ég meina: Halló, munið þið ekki þegar við vorum lítil og það var einn veitingastaður í bænum?
Andri: Já það var Potturinn og pannan og búið. Ég heyrði af athyglisverðu vandamáli með túristana. Það er víst hrikalegt marrið þegar þeir draga ferðatöskurnar klukkan fimm á morgnana eftir götunum í miðbænum.
Kristín: Við þurfum leggja gúmmí á göturnar á kjörtímabilinu, alltaf að elta þróunina.