„Allir geta látið drauma sína rætast“
Þrír snjallir fjöllistamenn á framabraut ræða við Blævi um daginn og veginn.
Blær settist niður með Baldvini Alan Thorarensen, Hirti Viðari Sigurðarsyni og Sölva Viggóssyni Dýrfjörð. Þessa dagana eyða þeir öllum sínum frítíma í dansæfingar í Borgarleikhúsinu þar sem þeir takast á við hlutverk dansstráksins Billy Elliot. Samhliða dansinum eru þeir líka í leik- og söngþjálfun en að eigin sögn er þetta draumastarfið. Þeir ræddu við okkur um leikhúsið, framtíðardrauma, dansbransann og leiðina á toppinn.
Sölvi: Ég var í sönglist hérna í Borgarleikhúsinu, það er svona leiklistarskóli og við vorum bara alltaf að æfa einhverja söngleiki. Þá sá maður mjög marga leikara og maður leit rosalega mikið upp til þeirra. Stundum voru líka krakkar að leika í sýningum og mig dreymdi um að vera eins og þau en ég hugsaði; ég á aldei eftir að gera þetta. Allir hugsa svona. En síðan hugsaði ég; ég ætla að komast þangað þó það séu ekki miklir möguleikar á því. Ég fór í fullt af prufum fyrir aukahlutverk og komst aldrei að en ég hélt samt áfram og hérna stend ég.
Hjörtur: Dream come true.
Sölvi: Allir geta látið drauma sína rætast, bara ef þeir æfa sig.
Hjörtur: Ekki gefast upp þegar þú ert byrjaður bara af því að þú nennir ekki að gera eittthvað.
Baldvin: „Maður getur alltaf gert betur. Ef þú ert alveg að gefast upp þá geturðu bara hugsað; þetta eru bara nokkrar sekúndur af lífi mínu, ég get þetta alveg.“
Sölvi: Þetta er svona hundrað prósent gaman en líka hundrað prósent erfitt. Stundum er bara gaman og kannski ekkert erfitt. Svo stundum er bara erfitt og ekkert rosa gaman. En oftast er það bara svona einhvern veginn.
Hjörtur: Ég held ég geti talað fyrir okkur alla þegar ég segi að við förum örugglega bara í þennan bransa; að leika og dansa og annað. Mig langar mest að verða leikari þegar ég verð stór.
Baldvin: Já, ég ætla að verða svona artí týpa. Eitthvað svona leikari eða dansari eða eitthvað. Það er náttúrulega svo mikill leikur í dansi. Ég held ég gæti ekki valið annað hvort.
Sölvi: Já, það er rosa erfitt að velja en ef ég þyrfti að velja þá myndi ég segja leiklist af því að mér finnst skemmtilegast í því. Í rauninni er samt leiklist í dansi og í söng og í leiklist er smá söngur og smá dans þannig að þetta er allt það sama.
Baldvin: Ég hef leikið á sviði á Selfossi en þetta er í fyrsta sinn sem ég verð á sviði í stóru leikhúsi. Ég er sko frá Hveragerði.
Sölvi: Já, ég hef líka bara leikið í nokkrum skólaleikritum í litla bænum mínum, Þorlákshöfn.
Baldvin: Áður en við komum hingað í Borgarleikhúsið þá hafði ég bara æft samkvæmisdans.
Sölvi: Já, ég líka.
Hjörtur: Ég var bara búinn að æfa í eitt og hálft ár. Ég hef samt líka æft fótbolta og fimleika. En ekki neina aðra dansa.
Baldvin: Ég var alveg búinn að æfa samkvæmisdans í fimm eða fjögur ár, jú fimm. Ég var líka í fimleikum, í svona einn mánuð þegar ég var fimm ára og svo æfði ég sund, badminton og körfubolta og karate.
Sölvi: Á ég að rifja upp allt sem ég hef æft? Fimleika, fótbolta, körfubolta, frjálsar og dans!
Baldvin: Það er samt skemmtilegast að dansa, það er svo mikið frelsi.
Hjörtur: Já, það er geðveikt sko. Þú hættir að hugsa um allt annað og ferð bara að hugsa um dansinn.
Sölvi: Þú ferð inn í þitt, inn í þinn eigin heim. Núna finnst mér mjög skemmtilegt í stepp-dansi.
Baldvin: Já, stepp-dans er ekkert á Íslandi þannig að það er mjög gaman að læra það. Svo erum við líka að læra ballett og jazz og nútímadans.
Hjörtur: Í dansinum fær maður allt sitt pláss sem maður þarf. Það er samt mjög erfitt að vera dansari, svona líkamlega.
Baldvin: Og líka andlega. Mismunandi dansar vekja upp mismunandi tilfinningar; ein týpa er svona og önnur týpa er hinsegin. Það er rosa gaman að víxla. Mér finnst samt eiginlega skemmtilegast að dansa þegar við erum allir saman og erum með kennaranum einhvers staðar eða þegar ég er bara heima hjá mér og læt á einhverja tónlist og fer að dansa.
Sölvi: Já, það er eiginlega best þegar maður er búinn að loka herberginu sínu og getur bara gert allt sem maður vill og það er enginn að segja að þetta sé asnalegt eða að þú þurfir að gera betur, þú gerir bara allt sem þú vilt.
Hjörtur: Mér finnst skemmtilegast að dansa uppi á sviði. Ég er samt svolítið stressaður að syngja fyrir allt fólkið.
Baldvin: Ég er mest spenntur fyrir tilfinningunni þegar maður nær góðri sýningu, sem maður gerir alveg vonandi og örugglega bara. Þá verður maður bara; vá ég gladdi áhorfendurnar og maður verður ánægður með sig. Ég held að það verði gott.
Sölvi: Ég held að maður verði stressaðastur ef það gerist akkúrat öfugt við það; þegar maður er að sýna og það er bara enginn að hlæja.
Baldvin: Maður á náttúrulega bara sína daga þar sem ekkert er að gerast, held ég. En hver veit, kannski verður það bara ekkert þannig.
Hjörtur: Margir strákar eru hræddir við að dansa.
Sölvi: Þeim finnst það asnalegt en það er bara af því þeir eru hræddir um að þeim verði strítt.
Hjörtur: Okkur er stundum strítt. En maður lifir það alveg af.
Baldvin: Ég er eini sem æfir samkvæmisdans í Hveragerði þannig að það er svolítið svona...
Sölvi: Mér hefur eiginlega ekkert verið strítt. Við vorum alveg margir sem æfðum dans á Þorlákshöfn og við keyrðum alltaf samferða í bæinn. Ég æfði sko dans í bænum.
„Hjörtur: Ef aðrir eru að gera grín af þér af því að þú ert að dansa þá er það bara vegna þess að þeir eru afbrýðisamir af því að þú getur dansað og ekki þeir. Ekki hætta að dansa af því að öðrum finnst það asnalegt, gerðu bara það sem þér líkar.“
Baldvin: Algjörlega. Stundum verður maður bara aðeins að stoppa og hugsa um það. Sama hvaða verkefni þú ert í, ef þú ert að kljást við eitthvað, þú kemst í gegnum það á endanum. Þú verður bara að halda áfram.
Sölvi: Ef einhverjum finnst það sem þú ert að gera asnalegt þá á hann bara að halda því fyrir sig. Þó honum finnist það þá þýðir það samt ekki að það sé asnalegt. Það hafa allir mismunandi álit; mér finnst súkkulaði gott en ekki öllum. Þetta er bara þannig.