4 tíma vinnudagur

Gæti styttri vinnudagur reynst eitt af skrefunum til sjálfbærari framtíðar?

Í Róttæka sumarháskólanum sem haldinn var í Reykjavík í ágúst síðastliðnum flutti Thomas Brorsen Smidt fyrirlestur sem kallaðist „The four hour workday“. Þar fjallaði hann um hugmynd sem lengi hefur verið uppi; að vinnudagurinn sé styttur úr átta tímum í fjóra en starfsmenn haldi sömu kjörum. Thomas heyrði fyrst af fjögurra tíma vinnudeginum í gegnum stéttarfélagið Heimssamband verkafólks (IWW) og voru fyrstu viðbrögð hans eins og flestra annarra; að þetta væri ómögulegt. Eftir að hafa sett sig inn í málið áttaði hann sig á því að í raun ætti hugmyndin við ágætis rök að styðjast. Thomas segir þetta ekki bara mögulegt heldur eina sjálfbæra skrefið til frambúðar.

Þú fluttir fyrirlesturinn „The Four Hour Workday“ í Róttæka sumarháskólanum, er þetta róttæk hugmynd?

Nei, róttæk hugmynd væri að hætta alveg að vinna. Að helminga vinnudaginn er í rauninni mjög náttúrulegt skref í nútíma samfélagi. Einu sinni unnum við sextán tíma á dag og sá vinnutími var helmingaður niður í átta svo við höfum í rauninni gert þetta áður. Persónulega þykir mér þessi hugmynd mjög líkleg til vinsælda og það kemur mér á óvart að enginn stjórnmálamaður hafi þegar tekið hana upp.

Hverjir hafa verið helstu talsmenn fjögurra tíma vinnudagsins síðustu ár?

Bæði John Maynard Keynes, einn af mikilvægustu hagfræðingum 20. aldarinnar, og Benjamin Franklin töluðu fyrir því að í framtíðinni yrði ekki þörf á að vinna meira en fjóra tíma á dag. Sú framtíð er runnin upp. Bertrand Russell heimspekingur benti líka á að í Seinni heimsstyrjöldinni lifði samfélagið einungis á hálfu vinnuafli. Þegar stríðinu lauk hefði því verið eðlilegt að allir fengju vinnu en vinnutíminn styttur. Þess í stað var þó haldið áfram að vinna 8 tíma á dag og þeir sem ekki komust að urðu atvinnulausir.

Íslendingar eru sú þjóð á Norðurlöndunum sem vinnur hvað mest. Ef fjögurra tíma vinnudeginum yrði komið á, heldurðu að fólk myndi ekki fá sér tvær vinnur og þéna tvöfalt?

Ég held að svo þurfi ekki endilega að vera. Vissulega gætu stúdentar og aðrir sem eru að safna pening tekið að sér tvær fjögurra tíma vinnur en ég efast um að stór meirihluti landsmanna muni gera það. Fólk mun kunna að meta að verja tíma með vinum og fjölskyldu og rækta áhugamál sín. Einn af stóru ávinningum fjögurra tíma kerfisins er líka sá að það mun geta dregið verulega úr atvinnuleysi. Þegar verið væri að koma kerfinu á væri því til dæmis hægt að koma á einhverjum reglugerðum svo að þeir sem enga atvinnu hefðu fyrir, fengju forgang í ýmis störf.

Tímalaun myndu tvöfaldast ef fjögurra tíma kerfinu yrði komið á, myndi það ekki leiða til mikillar verðbólgu?

Samkvæmt rannsókn sem Federal Reserve Bank of Cleveland birti árið 2000 eru fáar sannanir fyrir því að laun séu nytsamleg til að spá fyrir um verðbólgu. Í raun eru meiri vísbendingar um að verðbólga spái fyrir um laun almennings. Það er fátt sem segir til um að fyrirtæki muni afkasta minna ef almenningur fær hærri laun. Hærri laun þýðir hærri neyslugeta og ef við höfum meiri tíma utan vinnu til að eyða peningunum neytum við væntanlega meira. Þetta er það sem kallast aukin heildareftirspurn (meiri tími + meiri peningar = eyða meira), og þegar hún eykst þarf að sinna því með auknu framboði, sem skapar meiri afköst hjá fyrirtækjum, sem að lokum getur leitt til lægra vöruverðs. 

Hvernig á framboðið að aukast í samræmi við aukna neyslugetu ef fólk vinnur bara fjóra tíma á dag?

Í fyrsta lagi er lítil fylgni milli þess hvað við vinnum mikið og hversu mikið við framleiðum. Í grein sem birtist í The Economist í fyrra kemur fram að Grikkir sé sú þjóð innan OECD ríkjanna sem vinnur mest, eða um 11 klukkustundir á dag að meðaltali, en framleiðir sömuleiðis lang minnst. Þjóðverjar framleiða 70% meira en Grikkir en þess má geta að þar er meðalvinnutíminn ekki nema 5,5 tímar á dag.

Í öðru lagi efast ég um að nokkur myndi taka eftir því ef við færum almennt að framleiða minna. Í dag keyrum við kerfið áfram á ákveðinni hagvaxtarstefnu þar sem við þurfum að framleiða meira og græða meira í ár en í fyrra. Ríki eru metin árlega af þjóðarframleiðslu sinni og hún notuð sem mælikvarði á hagsældríkisins. Það sem hins vegar hagfræðingar um allan heim eru farnir að sjá er að þetta er mjög ósjálfbær leið til að keyra efnahagskerfi heimsins á. Enda auðlindir jarðar takmarkaðar og ef við höldum áfram á sömu braut munum við éta þær upp allt of hratt. Þennan vöxt framleiðslu þarf því að snarminnka og hluti af því ferli væri að fækka vinnustundum. Ég efast líka um að nokkur myndi finna fyrir því ef heimurinn færi að framleiða minna. Fólk lifir í þeirri trú að við séum að framleiða akkúrat það sem þarf en í raun framleiðum við svo margfalt meira en við þurfum. Á Íslandi eigum við til að mynda um tvö þúsund tonn af lambakjöti frá síðustu sláturtíð. Það mun að öllum líkindum enda í ruslinu þegar nýtt og ferskt kjöt fer að fylla búðarhillurnar. Í heiminum öllum erum við svo að rækta það mikið af grænmeti og ávöxtum að við eigum efni á að henda uppskeru í ruslið einfaldlega vegna þess að hún er ekki nógu „falleg.“

Hefur þetta verið prófað einhvers staðar áður?

Það var gerð tilraun til að stytta vinnudaginn úr 8 stundum í 6 árið 2005 í Svíþjóð og það er verið að endurtaka tilraunina núna. Tilraunin mistókst árið 2005 og ég tel að það hafi gerst vegna þess að hugmyndin á bakvið skerðingu vinnutímans var ekki að framleiða minna, heldur framleiða jafn mikið á styttri tíma. Það varð eðlilega til þess að stress jókst hjá starfsfólki enda kvíðvænlegt að þurfa að framleiða það sama í dag og í gær á 25% styttri tíma. Ég spái því að tilraunin núna muni mistakast aftur og af sömu ástæðu og árið 2005. 

„Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að skerðing vinnutíma þýðir minni framleiðsla og að minni framleiðsla sé af hinu góða.“

Hvaða hindranir gætu staðið í vegi fyrir að fjögurra tíma kerfinu yrði komið á?

Fyrirtæki myndu örugglega mótmæla enda yrði sú krafa áfram til staðar að þau borguðu starfsmönnum sínum sömu upphæð og í dag en fyrir minni vinnu. Mótmæli þeirra myndu að öllum líkindum vera hávær og vega þungt. Þetta var væntanlega líka vandamál þegar vinnutíminn var styttur úr 16 tímum í 8 tíma. Hins vegar þarf fólk að átta sig á að þessi breyting krefst ákveðinnar aðlögunar og tíma. Markaðurinn þarf til dæmis tíma til að aðlagast og fyrirtæki munu eiga í erfiðleikum um stund. The New Economics Foundation telur að ef markviss aðlögunarskref yrðu tekin innan vinnumarkaðsins gæti stytting vinnutímans tekið nokkur ár. Stærsta hraðahindrunin núna er hins vegar efi fólks um hvort þetta gæti gengið. Það vantar eitthvað fyrirtæki eða ríki til að ryðja brautina og sýna fram á að þetta sé hægt og vel það.

Væri meiri ávinningur að fjögurra tíma vinnudegi en hugsanlega sjálfbær nýting auðlinda jarðar og minna atvinnuleysi?

Já, vissulega. Fyrst og fremst hefði maður meiri tíma til að verja með vinum og fjölskyldu og almennt til að leggja stund á það sem maður hefur gaman af. Þá gætu námsmenn unnið 4 tíma á dag samhliða námi á fullum launum, sem myndi gera það að verkum að námslán væru ekki lengur nauðsynleg framfærsluaðferð fyrir stúdenta. Foreldrar ættu þar að auki val um hvort senda ætti barnið sitt í leikskóla því annað foreldrið gæti unnið 4 tíma fyrir hádegi og það seinna 4 eftir hádegi. Þar af leiðandi myndu biðlistar eftir leikskólavist styttast til muna. Foreldrar myndu samt örugglega halda áfram að sjá leikskóla sem fýsilegan kost enda mikilvæg menntastofnun og ekki bara staður til að skilja börnin sín eftir á meðan maður vinnur.