Fimm staðir í Berlín
Blær mælir með þessum áhugaverðu stöðum í höfuðborg Þýskalands
1. Roamers
Roamers sem þýðir flakkari er hlýlegt og fallegt kaffihús. Það er stútfullt af alls kyns plöntum og jurtum. Þar er hægt að næla sér í gómsætar samlokur, ferskan safa og ljúffenga kökusneið.
2. Eismanufaktur
Á heitum sumardögum finnst Íslendingum fátt betra en að fá sér ís. Jæja, reyndar hefur veðrið sjaldan stoppað okkur og því er alltaf kjörið tilefni. Blær mælir með þessari ísbúð sem er í hjarta Mitte. Þar er hægt að velja framandi bragðtegundir eins og ís með mangóbragði og hvítu súkkulaði-, engifer- og appelsínubragði.
3. Tempelhofer Freiheit
Tempelhofer Freiheit er gamall flugvöllur sem nú er opið almenningssvæði. Berlínarbúar höfnuðu nýverið tillögum um uppbyggingu á svæðinu og vilja að það verði óbreytt. Þar er hægt að sjá fólk fljúga flugdrekum, renna sér á línuskautum og halda grillveislur í grasinu.
4. District Mot
Í Víetnam er almennt talað um að því stærri sem plaststólarnir á matsölustöðunum eru því betri er maturinn. Blær mælir með þessum víetnamska Distric Mot og miðað við okkar upplifun eru stólarnir í stærri kantinum.
5. The Barn
The Barn er hágæðakaffihús sem er á besta stað í Mitte. Kaffihúsið kaupir aðeins vörur af smásölubændum sem eru með sjálfbæra framleiðslu. Þar er hægt að finna mikið úrval espressó drykkja og kaffidrykkja með hæga uppáhellingu.