Óður til samvinnu og vináttu

Ritstjórnarpistill Blævar

Nú eru liðin fimm ár síðan Blær leit dagsins ljós árið 2014. Þetta byrjaði á hugmynd snemma á vormánuðum sem fékk að vaxa með vorinu, blómstra með sumrinu og leggjast svo í dvala þegar líða fór að jólum. 

Flestar þekktumst við ekki mikið áður en ævintýrið skall á. Heilsuðumst kannski í partýum eða vissum hver af annarri á samfélagsmiðlum. Það kitlaði okkur allar að starfa við fjölmiðlun en það yrði að vera á okkar forsendum með nýjum áherslum. Svo úr varð Blær. Magnaður skóli, ekki bara í fjölmiðlun heldur líka í samvinnu, vináttu og því að taka sénsinn. Blær veitti okkur sjálfstraust út í lífið, við lærðum mikilvægi samvinnu og að hlusta á innsæið.

Á þessum fimm árum höfum við byrjað í námi, hætt í námi og útskrifast. Flutt til Aarhus, Berlínar, London, Tokyo, Cape Town og svo aftur heim. Orðið ástfangnar, kvartað undan veðrinu, búið í 33 mismunandi íbúðum, eignast 2 börn, stofnað fyrirtæki, upplifað okkar mannlegu hæðir og lægðir. Á sama tíma hefur hugsunarháttur gagnvart umhverfinu, jafnrétti og andlegri heilsu breyst snarlega. Fólk er almennt miklu opnara og óhræddara við að koma fram eins og það er klætt. 

Af tilefni þessara tímamóta langaði okkur að gefa út sérstaka afmælisútgáfu Blævar. Í henni heiðrum við sambönd og breytingar sem þeim fylgja, hvort sem það er samband okkar við jörðina, ný eða gömul vinasambönd, samband við ástina eða okkur sjálf.

Við viljum þakka öllum sem komu að útgáfunni, viðmælendum og ykkur lesendum fyrir samfylgdina. 

Njótið lestursins, með rjúkandi heitum bolla og á friðsælum stað.

Með ást,

Birna, Björk, Hugi, Júlía, Ragnhildur og Svanhildur.