Jarðtenging

Um von, fegurð og mikilvægi þess að hægja á sér.

Von er að faðma hið óþekkta og óþekkjanlega, skrifar rithöfundurinn Rebecca Solnit. Vonin er ólík fullvissu þeirra bjart- og svartsýnu, sem eru ýmist viss um að allt fari á besta veg eða til fjandans, en afsaka sig um leið frá því að gera eitthvað. Solnit skilgreinir vonina með því að segja hvað hún er ekki: Sú trú að allt sé í lagi – í stað þess að vera ákall um að hrinda því í framkvæmd sem við vonumst eftir.

Árið sem senn er á enda, er líklega það ár sem við upp til hópa gátum ekki lengur lokað augunum fyrir loftslagsbreytingunum sem mannkynið ber ábyrgð á. Það á að minnsta kosti við mig sjálfa. Fram að þessu hef ég líklega alltaf fallið í hóp ýmist bjart- eða svartsýnisfólks, það fór bara svolítið eftir því hvernig ég var stemmd hverju sinni, og með því gerði ég einmitt það sem Rebecca Solnit talar um; það er að segja, taldi mig ekki þurfa að gera neitt sérstakt. Svo hætti ég að líta undan og greip þess í stað í vonina; meiri skilning og verkfæri til að hrinda voninni í framkvæmd. Í kjölfarið heyrði ég í breska rithöfundinum Dougald Hine, sem hefur lifað og hrærst í loftslagsmálum síðastliðin ár samhliða því að sinna margvíslegu menningarstarfi í Bretlandi og Svíþjóð.

Dougald hefur fyrst orð á því hvernig við sem samfélag skiljum ekki lengur á milli vandamáls og vanda. Vandamál er eitthvað sem til er lausn á, það er röð framkvæmda sem leysa vandamálið og koma hlutunum aftur í samt horf. Við vanda er hins vegar ekki til lausn, hugsanlega getum við mildað hann en fyrst og fremst krefst hann þess að við lærum að lifa með honum. Dauðinn er dæmi um vanda. En það er einmitt það að ekki sé til lausn við honum sem gefur okkur rými til að nýta það sem við höfum, sjálft lífið, þangað til að dauðinn sækir okkur heim. Það sama á við um loftslagsbreytingar. Þær eru ekki vandamál sem við leysum með því að hætta að borða kjöt og hjóla í vinnuna í nokkra áratugi, þar til við náum kolefnishlutleysi í nokkur ár og getum þá aftur vikið til sama lífsstíls og við lifum núna. Heldur eru þær vandi sem krefjast þess að við endurhugsum flest, ef ekki öll okkar kerfi, hegðun og hugsanir til frambúðar,“ segir hann.

Við vanda er hins vegar ekki til lausn, hugsanlega getum við mildað hann en fyrst og fremst krefst hann þess að við lærum að lifa með honum.

„Þessari vitneskju, um að ekki sé til lausn við loftslagsbreytingum, fylgir ákveðið myrkur,“ segir Dougald og heldur áfram. „Myrkur sem getur orsakað afneitun, doða eða loftslagskvíða.“ Það er hér sem hann færir rök fyrir því að fegurð sé órjúfanlegur hlekkur í því að læra að lifa með loftslagsbreytingum. „Sama hvenær eða hvar við lítum á mannkynssöguna, þá hefur fegurð alltaf verið órjúfanlegur þáttur af menningu okkar. Flestir forfeður okkar lifðu í mun meiri hörku en við höfum þurft að lifa við en fundu samt tíma fyrir fegurðina. Hún hjálpar okkur að höndla harðneskju lífsins, finna merkingu í erfiðum aðstæðum.“

Vitnum áfram í hann: „Fegurðin felst til að mynda í því að hægja á okkur í rýmum þar sem við komum saman í hóp og eigum samtal.“ Hann vísar í breska leikskáldið Chris Goode sem segir að „staðan sé sjaldnast sú að við vitum eða vitum ekki nægilega mikið, heldur að við höfum ekki skapað rými til að vita virkilega það sem við vitum. Til að meðtaka allar staðreyndirnar án þess að fallast í örvæntingu, eða afneitun.“

Dougald heldur áfram. „Samtalið þarf ekki að vera stærra en sá fjöldi fólks sem getur setið saman við eldhúsborð og borðað máltíð saman. Nægilega náið til að leyfa okkur að handfjatla allar þessar staðreyndir sem við fáum í fjölmiðlum og þannig að okkur líði virkilega vel saman. Mér þykir þetta mikilvægt núna þegar við erum að rekast á raunveruleika loftslagsbreytinga, það er að segja að við sköpum rými til að hægja á okkur, til þess að geta tekið góðar ákvarðanir andspænis þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Og til þess að gera þetta allt saman bærilegt, verður fegurð að vera órjúfanlegur hluti af þessu ferli.

Og til þess að gera þetta allt saman bærilegt, verður fegurð að vera órjúfanlegur hluti af þessu ferli.

Hvernig samræmum við þörfina á því að hægja á okkur á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir því hversu aðkallandi aðgerðir eru?

Ég spyr Dougald enn frekar út í áhersluna á að hægja á sér, sem hljómar þversagnarkennd, nú þegar við virðumst sífellt vera að missa af tækifærum til að milda áhrif loftslagsbreytinganna.

„Fólk á oft erfitt með að heyra mig leggja áherslu á að við ættum að hægja á okkur og skapa rými fyrir þessi samtöl og dvelja í myrkrinu. Hvernig samræmum við þörfina á því að hægja á okkur á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir því hversu aðkallandi aðgerðir eru? Það er svo mikið sem við þurfum að gera, og við þurftum helst að hafa gert það í gær. Við höfum ekki tíma, hefur verið eitt af einkunnarorðum loftslagsbaráttunnar að undanförnu. En hvað er það sem við verðum helst að gera? Helst þurfum við að gera minna af öllu sem við erum að gera núna. Þetta snýst ekki um meiri „græna“ neyslu, heldur minni neyslu á allan hátt.“ Hér minnist hann á hvernig orðið sjálfbærni hefur hægt og rólega skekkst. „Sjálfbærni endar oft á að þýða að við ætlum að gera það sjálfbært að lifa þeim lífsstíl sem við, ofurlítill hluti mannkyns, lifum í dag. Eins og það sé bæði mögulegt og æskilegt að lifa okkar lífsstíl. Ef við höldum því fram að það sé mögulegt erum við í algjörri afneitun um hið eiginlega vistspor lífsstíls okkar. En það er ekki einu sinni víst að lífsstíll okkar sé æskilegur - með sinni ofurneyslu og hraða - enda sjáum við neikvæðar vísbendingar í vestrænu samfélagi, aukna fíkn, einmanaleika og slæma andlega heilsu um að þetta sé kannski ekki eins æskilegt og við héldum.“

Í leit minni að skilningi og verkfærum til að hrinda voninni í framkvæmd, hef ég ekki getað horft framhjá þeim jákvæðu samlegðaráhrifum sem fylgja mismunandi aðgerðum tengdum loftslagsmálum. Það að hægja á sér og aukin geta til að ræða um líðan okkar eru ekki einungis tól til að milda loftslagsbreytingar, heldur hafa þau líka jákvæð áhrif á geðheilsuna. Minni neysla verður að minna rusli og aukin áhersla á hringrásarhagkerfi gefur okkur rými til að nýta ruslið. Matarúrgangur getur orðið að lífrænum áburði, sem nýtist í ræktun og landgræðslu, sem veldur ekki einungis aukinni kolefnisbindingu í jarðvegi heldur stuðlar að endurheimt vistkerfa og aukinni líffræðilegri fjölbreytni. Með því að keyra minna, bætum við ekki einungis loftgæði, heldur sköpum við forsendur fyrir bættri andlegri og líkamlegri heilsu sökum aukinnar hreyfingar. Og svona má halda lengi áfram - en ætli það sé ekki í þessum samlegðaráhrifum sem ég finn vonina helst vaxa. Hvað ef ný kerfi, ný hugsun, hegðun og lífstíll sé okkur fyrir bestu á alla vegu.