Berglind vs. Gísli Marteinn
GIF-stjarnan og hundaeigandinn spjalla um samfélagsmiðla, kaffimenninguna og borgarskipulag
Berglind: Mér finnst sorglegt hve kjörsóknin var dræm hjá unga fólkinu. Ég væri mjög súr ef ég hefði verið að berjast fyrir kosningarétti kvenna á sínum tíma og svo myndu konur ekki mæta á kjörstað eftir nokkur ár af því þær væru heima á Tinder eða eitthvað.
Gísli: Þetta er sorglegt því ég upplifi það að ungt fólk hefur áhuga á pólitík. Hefur það kannski bara ekki áhuga á kosningum eða stjórnmálaflokkum? Því það hefur áhuga á málunum sem eru til umræðu, sérstaklega í borgarstjórn. Kannski myndi þetta virka betur ef það væri app í símanum til þess að kjósa.
Berglind: Já, en sko ég held að ungt fólk geti alveg mætt á kjörstað í kortér til að kjósa. Það þarf ekki að vanmeta það þannig. Kannski væri bara hægt að færa kjörstaði inn á einhverja skemmtilegri staði, eins og Ikea eða hingað á Kex? Þá gæti það gert eitthvað annað í leiðinni. Þetta væri svona „multitask“ laugardagur.
Gísli: Aðalmarkmiðið á samt að vera að sem flestir kjósi. Og svo er bara að finna út hvaða leiðir eru bestar. Kannski bara fjölga kjörstöðum? Eða hafa sérstaka kjörstaði fyrir ungt fólk þar sem er mikið fjör og boðið upp á kaffi og svona?
Gísli: Já, allavega, ég er mjög glaður að fá gott kaffi hérna heima. Annað en í Brasilíu þar sem ég var að fylgjast með HM í fótbolta. Þar var ekki hægt að fá gott kaffi nema á fínu stöðunum en þá var bara boðið upp á Nespresso, kaffi sem ég er alfarið á móti. Hvert kaffihylki er pakkað inn í álpappír. Pældu í því hvað það er geðveikislega óumhverfisvænt. Fólk á bara að kaupa kaffi sem er beint frá býli eins og Kaffitár gerir. Það er ekki séns að Nespresso sé með betra kaffi.
Berglind: Ég er í kaffiklúbbnum og fæ kaffi sent í póstinn beint úr býli. Alltaf eitthvað nýtt í hverjum mánuði frá mismunandi stað. Annars finnst mér Kaffitár í Bankastræti vera besta kaffihúsið í bænum.
Gísli: Já, sammála. Ég er tilfinningalega bundinn því kaffihúsi en mér finnst Reykjavík Roasters líka frábært. Svo verður besta kaffið í bænum á kaffihúsinu okkar í Vesturbænum sem við erum að fara að opna. Það átti að opna fyrir löngu en það tekur lengri tíma en talið var að flytja inn í húsnæðið. Þeir sömu og eru á bakvið KEX eru aðalmennirnir í þessu. Þetta verður bara sætt samfélagsverkefni en við erum að vona að þetta verði upphafið að því að öll hverfi verði með svona hverfiskaffihús.
„Ég held að miðbærinn sé að stækka. Kexið er í austasta hlutanum af miðbænum og svo er allt að lifna við úti á Granda, þar er Valdís og The Coocoo’s nest. Þar teygir miðbærinn sig í vesturátt. Þessi dreifing er frábær því Bankastrætið þolir ekki mikið fleiri flíspeysubúðir.“
Berglind: Það vantar líka svo mikið inn í öll hverfi lítinn sætan pöbb, einhvern stað þar sem þú getur fengið þér smá bjór og spjallað við vinina. Svo þurfum við að fara að byggja meira úti í Skeifu. Ég ólst uppi í Gerðunum.
Gísli: Ég er búinn að segja það í mörg ár að það gætu léttilega búið 3.000 manns í Skeifunni. Það væri hægt að byggja ofan á verslunarhúsin þar sem fólk gæti búið. Svo þyrfti bara að laga götur og gera gangstéttir.
Berglind: Það væri geðveikt að búa fyrir ofan KFC. Þá gæti ég kannski loksins fengið afslátt.
Gísli: Og ef það kemur hverfi í Skeifunni er það sjúklega vel staðsett, strætó fer þarna framhjá á tveggja mínútna fresti og niðrí bæ. Svo er hún nánast ofan í Laugardalnum. Eina byggðastefnan okkar ætti að vera að fólkið sem er skapandi og skemmtilegt nenni að búa áfram á Íslandi. Kannanir sýna að 70% þeirra sem eru yngri en þrítugt gætu vel hugsað sér að búa einhvers staðar í útlöndum í framtíðinni. Þá er bara spurningin hvort þetta fólk komi til baka? Hingað til hefur það alltaf gert það. Nú er maður styttra í burtu þótt maður sé í útlöndum, þú ert bara með Facebook eða Skype.
Gísli: Annars var ég að fá nýtt samfélagsapp sem heitir Yo. Það eina sem maður gerir er að búa sér til notendanafn og „yoar“ þá sem eru líka með Yo-appið. Tilgangsleysið hefur náð nýjum hæðum.
Berglind: Ókei ég verð að prófa þetta. Ég á eftir að verða vinsælust á Yo.
Gísli: Núna var Sjomli Maestro að „yo-a“ mig og það er enginn séns fyrir mig að vita hver hann er. Það er það sem ég fíla við þetta.
Berglind: Þetta er samt hræðileg þróun. Þetta er ástæðan fyrir því að fólk er ekki að kjósa því það er alltaf að gera eitthvað svona kjaftæði. Hver er þinn uppáhalds samfélagsmiðill? Á eftir Yo auðvitað?
Gísli: Instagram og Twitter. Ég hata Facebook smá en æj það er samt hallærislegt að segja það því ég nota það auðvitað helling. Það er bara orðið eins og lífið sjálft; alveg jafn skemmtilegt og leiðinlegt og lífið getur verið. Á Instagram eru hins vegar myndir sem eru almennt skemmtilegri en lífið og fólk er fyndnara á Twitter en það er í lífinu.
Berglind: Mér finnst líka smá skuldbinding felast í því að vera Facebook vinur einhvers.
Gísli: Já, og það er frekar brútal að eyða einhverjum af Facebook. Miklu minna mál að „unfollow’a“ fólk á Twitter eða Instagram.
Berglind: En sko, nú er komið app þar sem þú getur séð hverjir eru að „unfollowa“ þig á insta og Twitter og öllu þessu dæmi þannig að fólk getur alveg farið í fýlu og svona. Þú getur komið upp að næsta manni og sagt: „Hvað þú bara hættur að „follow-a" mig?”
Gísli: Á Facebook veit maður líka svo mikið um fólk. Til að mynda veit ég núna að Kári sonur þinn er í útlöndum með pabba sínum og nýju konunni hans. Og ég þekki þig ekki neitt sérstaklega vel en samt veit ég þetta.
Berglind: Og ég veit allt um þig og hundinn þinn Tinna. Við þekkjumst bara í gegnum samfélagsmiðla, nikkum hvort til annars á nafnlausa pítsastaðnum á Hverfisgötu.
Berglind: Það sem er slæmt við netið er að kaldhæðni skilst ekki í gegnum það. Íslendingar eru svo ótrúlega kaldhæðnir.
Gísli: Ég er úr Breiðholtinu og ég kynntist í alvöru talað fyrst kaldhæðni í gegnum Vesturbæingana í Verzló. Í Breiðholtinu er bara „straight talk“ og þú segir bara: „Mér finnst þú fáviti“ eða: „Þú ert í ljótum gallabuxum.“ En svo kom ég í Verzló og félagi minn sem er mjög góður vinur minn í dag sagði við mig: „Nei, töff gallabuxur“ og ég var bara „Takk…“ . En í alvöru, þá er rosa munur á kaldhæðninni í Vesturbænum og í Breiðholtinu. Mér finnst það enn þá þegar ég hitti Breiðhyltinga, að það er allt annað viðhorf. Hlutirnir eru bara sagðir eins og þeir eru.
Berglind: Ég held að ég sé búin að útiloka allt svona fólk úr mínu lífi. Það er mjög erfitt að fara í fjölskylduboð og hitta aftur venjulegt fólk sem skilur ekki kaldhæðni.
Gísli: Já, ég er þvílíkt að reyna að læra kaldhæðnina. Hvernig veistu þegar einhver segir eitthvað á Twitter, hvort hann sé kaldhæðinn eða ekki?
Berglind: Það fer eftir því hvort þú þekkir viðkomandi eða ekki. En stundum er maður kannski að læka eitthvað sem manni finnst fyndið, sem á svo ekkert að vera fyndið. Þetta er náttúrlega algjör frumskógur. Bæði fyrir Breiðhyltinga og annað fólk. Ég get haldið námskeið sem myndi heita kaldhæðni 101!