Fyrst við erum hérna

Þúsund kílómetrar, átta bæir og þrjár heitar laugar á þremur dögum

Þessi grein er unnin í samstarfi við 66° Norður

Við héldum til Vestfjarða einn fimmtudag júnímánaðar. Eftir að hafa heimsótt syðri hluta fjarðanna sumarið áður vildum við taka langa helgi í þetta skiptið og grennslast fyrir um hvaða staði væri vert að heimsækja. Eftir nokkur símtöl til heimafólks og kaffihúsafundi sem færðust yfir á barinn vorum við komnar með ferðaáætlun. Ákveðnar í að gera það sem maður sjaldnast gerir í eigin landi; að kynnast og tala við það fólk sem yrði á vegi okkar. Spenntar fyrir að sjá og upplifa sem mest fórum við af stað. Þúsund kílómetrar, átta bæir, þrjár heitar laugar á þremur dögum. Fyrst við erum á þessu skeri þá er um að gera að njóta þess.

Fiskisúpa og víkingaskip

Fyrsta viðkoma var hjá Þórhalli á Þingeyri sem var svo elskulegur að opna heimilið sitt fyrir okkur seint um kvöldið. Hjá honum er stöðugur gestagangur en hann er alltaf tilbúinn að taka á móti fólki. Klukkan var að ganga eitt um nótt þegar við mættum og hafði hann útbúið bestu fiskisúpu sem við höfum smakkað. Morgunverðarborðið var þéttsetið daginn eftir, þar sem fundað var um víkingaskip sem verið var að flytja til Reykjavíkur. Við sátum ásamt pari frá Frakklandi. Þórhall dreymir um að opna veitingastað sem býður upp á fljótlegar og matarmiklar súpur „to-go“. Við verðum fyrstu kúnnarnir.

Hanna og Gunnar í Hlíð

Húsasmíðameistarinn Gunnar og kona hans Hanna búa í Hlíð á Þingeyri. Þau spila bæði á harmonikku. Hann byggði upp bæinn hér áður fyrr en hún er handlagin og prjónar, spilar á nikkuna og semur lög og texta. Þau hirtu gamlan húsbíl sem þau kalla litlu Hlíð. Þar seldi Hanna handverkin sín en nú er hann að niðurlotum kominn og þau segjast þurfa að gera hann upp. Hanna er að verða 80 ára og Gunnar 85 ára á næsta ári. „Við eigum bæði stórafmæli á næsta ári. Þá ætlum við að halda almennilegt partý. Við ætlum að leigja félagsmiðstöðina, ekkert minna. Það er að segja ef við verðum ofar moldu.“


"Við eigum bæði stórafmæli á næsta ári. Þá ætlum við að halda almennilegt partý. Við ætlum að leigja félagsmiðstöðina, ekkert minna. Það er að segja ef við verðum ofar moldu.”

Hörgshlíðarlaug í Mjóafirði

Hörgshlíðarlaug í Mjóafirði

Hörgshlíðarlaug

Í Hörgshlíð í Mjóafirði er Hörgshlíðarlaug, manngerð sundlaug við sjóinn. Ef heppnin er með þér koma selir upp að lauginni og baða sig með þér. Náttúrufegurðin nýtur sín allt um kring og útsýnið yfir fjörðinn er engu líkt. Við mælum með smá sjósundi til þess að hrista til í kroppnum. Laugin er í einkaeigu svo mælt er með því að banka upp á hjá eigendunum áður en farið er ofan í.

Vélsmiðjan á Þingeyri

Simbahöllin

Hús á 2500 krónur

Agnes 18 ára, vinnur á kaffihúsinu Simbahöllin. Hún er frá Þingeyri en flutti til Reykjavíkur til þess að fara í skóla. Að hennar sögn er þar hægt að fá bestu belgísku vöfflur í heimi. Við getum staðfest það.

„Belgísk og dönsk hjón keyptu húsið fyrir 10 árum á 2500 krónur frá bænum með því skilyrði að gera það upp. Hjónin hafa innréttað efri hæðina líka og búa þar. Áður fyrr var matvöruverslun hérna. Það er stöðugt meira líf hérna í bænum, það eru til dæmis Dýrafjarðadagar núna um helgina” segir Agnes okkur.

Bjargbrúnin er „óörugg“

Við héldum næst á vestasta odda landsins, Látrabjarg. Eftirvæntingin var mikil enda ófáar sögurnar sem fara af mikilleika bjargsins. Það tók tíma og dágóðan útúrdúr að komast að svæðinu en þar tóku við okkur túristarnir, og nóg af þeim. Við bjargsbrúnina var búið að merkja þunna hvíta línu í grasið þar sem ekki mátti stíga fram yfir. Skilaboð til lögreglu: þessi lína er ekki virt. Með hjartað í buxunum og svita í lófanum yfir túristunum sem hengu með fæturna danglandi yfir brúninni í leit að lundum létum við nokkrar myndir af bjarginu duga. Látrabjarg stóð uppi sem ofmat ferðarinnar.

Látrabjarg

Sinn eigin nágranni

Ísafjarðarbær, höfuðborg Vestfjarða, var næsta stopp í leit að kaffi og góðu liði. Okkur var bent á gamla bakaríið sem stóð fyrir sínu, svart kaffi og kleinur. Í röltinu þar um kring er gamli bærinn þar sem má finna raðir af sjarmerandi húsum. Í einu af þeim rákumst við á Darra, 13 ára, sem stóð í miðjum flutningum að flytja úr einu húsinu yfir í það næsta við hliðina á. Spenntur fyrir myndavélunum tilkynnti hann okkur að hann væri að flytja úr því rauða yfir í það bláa.

„Ég var að flytja úr rauða húsinu í það bláa við hliðina á.“

Lautarferðir

Í ferðalagið er mikilvægt að vera með nesti til þess að grípa í þegar langt er í næstu vegasjoppu. Það er bæði ódýrari og heilsusamlegri kostur. Ef þú hefur augun opin á keyrslu um firðina er hellingur af útibekkjum á fallegum stöðum til þess að stoppa og gæða sér á heimagerðu nesti.

Heydalur í Mjóafirði

Heydalur og sund í gróðurhúsi

Eftir að hafa þrætt firðina í Ísafjarðardjúpi komum við að hinum ævintýralega Mjóafirði. Í botninum á firðinum liggur Heydalur en þar er rekin ferðaþjónusta. Fjárhúsi var breytt í gróðurhús með suðrænum gróðri og þar er yndælis sundlaug. Fyrir utan gróðurhúsið eru heitir pottar sem hægt er að liggja í og njóta útsýnisins yfir dalinn. Hótelið býður upp á mat og kaffi en þangað er vert að sækja þó það væri ekki nema til þess að hitta talandi páfagaukinn í anddyrinu.

Dularfull Djúpavík

Djúpavík er lítill bær norðarlega á Vestfjörðum. Þung þoka lá yfir öllu þegar við keyrðum að mannlausum götum bæjarins. Ein okkar hafði orð á því hversu dularfullur bær þetta væri við miklar undirtektir. Fossinn Eiðrofi seitlar yfir klettabrúnina sem liggur að bænum. Við komum á hótelið og fengum þær fréttir að köku- og brauðtertu hlaðborð væri í vændum og við gætum sest niður og fengið okkur frítt kaffi meðan við biðum. Bærinn fór frá því að vera dularfullur yfir í paradís. Hótelstarfsmennirnir sem voru meðal annars Danir og Þjóðverjar sögðust koma hingað á hverju sumri til þess að vinna og sinna listinni. Djúpavík hefur með árunum orðið vinsælt listamannasetur og segja sumir að bærinn sé hinn nýi Seyðisfjörður. Síldarverksmiðjunni þar hefur verið breytt í listagallerí og stúdíó sem vert er að skoða.

Djúpavík

20 ár í sumarfríi

Malcolm, 62 ára frá Bretlandi var á níunda degi í göngu sinni hringinn í kring um Ísland þegar við mættum honum rétt fyrir utan Djúpavík. Hann býr í Reykjavík og á fjölskyldu hér.

„Þetta er mikil hreinsun.“

„Ég kom upphaflega hingað til Íslands í sumarfrí útaf náttúrinni. Sumarfríið lengdist óvart um 20 ár. Ég vildi minna mig á það af hverju ég kom hingað svo ég ákvað að rifja það upp með því að ganga um landið. Þetta er mikil hreinsun.“

Krossneslaug

Við fjöruborðið í Norðurfirði er steinsteypt útilaug, Krossneslaug. Við keyrðum að lauginni í dramatískri þoku, það mátti varla sjá handanna skil. Sjórinn ólgaði við laugina og okkur leist ekkert á blikuna. Við íhuguðum að láta útsýnið frá bílnum duga en eftir að hafa keyrt alla þessa leið létum við vaða. Við höfðum lesið okkur til um magnaða útsýnið yfir á Húnaflóa sem var hvergi sjáanlegt. Það var ekki fyrr en við vorum komnar ofan í sem við upplifðum krafta íslensku veðurguðanna. Það var magnað að liggja í heitu vatninu og rýna inn í þokuna til hafsins í tómri lauginni, ævintýri líkast. Það er ekkert sem heitir of vont veður fyrir sund á Íslandi.

Krossneslaug

Leiðin sem við fórum