Ugla Stefanía

Fjallar af einlægni um viðtökur íslensks samfélags á transfólki

Hin 23 ára gamla Ugla Stefanía Jónsdóttir, fræðslustýra Samtakanna 78 og formaður Trans-Íslands segir umræðuna á Íslandi um transmálefni allt of einsleita. Sjaldan einblíni hún á vandamál eins og sjálfsvígstíðni transfólks, ofbeldisglæpi, fordóma og stöðu þeirra innan samfélagsins heldur sé áhersla lögð á hvað fólk hét áður, hvernig þau stunda kynlíf og hvernig kynfæri þau eru með. „Ég fæ daglega spurninguna: Ertu búin að fara í aðgerð?, sem er eiginlega bara falleg leið til að spyrja: Ertu með typpi eða píku? Spurningin er alveg út í hött enda engan veginn við hæfi að spyrja manneskju sem maður hittir í fyrsta skipti út í kynfæri hennar. Skipta kynfæri í alvöru svo miklu máli að við sjáum ástæðu til að hlutgera manneskju í einungis þau? Þá eru mjög oft notuð vitlaus og móðgandi orð eins og kynskiptingur, skipta um kyn eða kynskiptiaðgerð.“

„Kynleiðréttingarferli er ekki eins og að skipta um föt eða námsbraut sem þú getur gert oft og ítrekað. Ferlið snýst um leiðréttingu, ekki skipti, þú ert að fá tækifæri til að vera loks þú sjálfur, ekki skipta yfir í að vera einhver annar,“ útskýrir hún.

„Orðræða hefur snjóboltaáhrif og fólk áttar sig ekki á hversu hættuleg hún getur verið,“ heldur Ugla áfram. „Mjög fordómafull og röng umræða elur af sér meiri fordóma, fordómar ala af sér ofbeldisglæpi og ofbeldisglæpir ala af sér morð. Þetta vindur allt upp á sig. Þess vegna eru orð eitt það mikilvægasta í réttindabaráttu transfólks. Maður getur fengið lagaleg réttindi en þau félagslegu eru áunnin í gegnum það hvernig talað er um hlutina. Upp á síðkastið hefur mjög greinilega komið í ljós að við getum ekki lengur talað um litla, fallega og fordómalausa Ísland. Við sem samfélag þurfum virkilega að hugsa okkar gang um hvernig við ætlum að taka á móti mismunandi menningu, skoðunum, trúarbrögðum og fólki með mismunandi kynvitund og kynhneigðir.“

Ugla var þrettán ára þegar hún sá transmanneskju fyrst í sjónvarpi. „Það var í Oprah Winfrey þætti af öllum stöðum og ég sat sem límd við skjáinn. Ég hafði aldrei átt orðin yfir kynvitund mína en þarna sagði hún allt sem ég hafði ekki getað útskýrt fyrir sjálfri mér. Þá fór ég fyrst að pæla í þessu og leyfa því að gerjast að kannski væri ég trans.“

Fimmtán ára byrjaði hún að spila World of Warcraft og þá mest á ákveðnum „role-playing server“. „Þar býr maður sér til persónu sem maður vill leika og ég var alltaf kona. Það kom mjög náttúrulega enda búin að leika karlmann allt mitt líf og orðin þreytt. Síðan fór maður að kynnast fólkinu á bakvið karakterana og spjalla við þau í alvöru yfir netið og þá kynnti ég mig ómeðvitað alltaf sem stelpu. Það var mun eðlilegra. Tveimur árum síðar kemur að því að hópurinn vill hittast í London svo ég panta mér flug þangað. Á þessum tíma var ég ekki farin að lifa í samfélaginu heima sem Ugla og það var í raun bara þessi hópur sem vissi að ég væri kona, en ekki að ég væri trans.

Ég segi því Ágústu bestu vinkonu minni frá þessu og úr verður geðveikt leynimakk að redda mér kvenmannsfötum fyrir ferðina. Við fórum í verslunarferðir á Glerártorg þar sem ég þóttist vera kærasti hennar og að við værum að versla föt á hana, sem var fáránlegt enda langt því frá í sömu stærð. Í íbúðinni minni var ég svo með leynifataskáp sem enginn mátti sjá og skoða. Þá bjuggum við til dulmál yfir allskonar hluti og þegar Ágústa sagði til dæmis: „Appelsínur“ þýddi það að ég þyrfti að laga brjóstapúðana. Allt var planað í þaula enda var þetta svo mikið fjall. Enginn mátti frétta þetta. Í dag þykir mér mjög vænt um að við höfum gert þetta en á þeim tíma var þetta náttúrlega mjög erfitt. Í London fékk ég að prófa mig áfram í því að fá að vera ég, þótt ég væri samt sem áður aldrei almennilega ég, sem er mjög skrítið og öfugsnúið.“

Ugla kom opinberlega út úr skápnum 28. desember 2009. Hún var átján að verða nítján. „Þá var ég reyndar búin að koma út innan ákveðins vinahóps og þegar við vorum saman töluðum við alltaf um mig í kvenkyni en í kringum annað fólk þurftum við að passa okkur. Undir lokin var ég farin að tala bara kynlaust sem er náttúrlega mjög erfitt á íslensku því á íslensku erum við alltaf að staðfesta kyn okkar og annarra.“

„Pabbi er svolítill brandarakarl og tók þessu nokkuð létt, spurði mig bara hvort ég gerði mér grein fyrir því að ég væri að lækka mig um launaflokk.“

Hún segir foreldra oft ganga í gegnum ákveðið sorgarferli þegar barnið þeirra kemur út úr skápnum sem trans því barnið er í rauninni að segja að allt sem þau hafi haldið sé misskilningur. Þau upplifa því oft ákveðinn missi en átta sig oftast á því að í raun eru þau að græða hamingjusamara og ánægðara barn. „Pabbi er svolítill brandarakarl og tók þessu nokkuð létt, spurði mig bara hvort ég gerði mér grein fyrir því að ég væri að lækka mig um launaflokk. Mamma tók ákveðið millistig eftir að ég kom út, kallaði mig ekki gamla nafninu og ekki heldur því nýja heldur bara eitthvað sætt og fyndið. Ég ákvað að það væri ekkert sem ég ætti að skipta mér af og gaf henni bara tíma. Ég ögraði samt mömmu og viðurkenni fúslega að ég hafi reglulega verið svolítið leiðinleg við hana. Ég man til dæmis þegar við áttum að kjósa og ég var ekki komin með lagalega nafnabreytingu. Mamma segir við mig: „Þú getur bara farið í gömlu fötin og kosið þannig, það er auðveldara fyrir alla.“ Það var náttúrlega ekki auðveldara fyrir mig. Ég varð frekar móðguð og fór inn í herbergi og gerði mig eins kvenlega og ég mögulega gat; í kjól, sokkabuxum, máluð og með sléttað hár. Þá var ég tilbúin til að kjósa.

Þetta gæti náttúrlega ekki verið eðlilegra í dag og ég er mjög heppin með fjölskyldu. Foreldrar mínir hafa verið mjög opin með það hver ég er og að þau séu foreldrar mínir sem mér þykir mjög vænt um. Þetta sterka félagsnet sem ég bý að hefur líka gert mér kleift að vera opinská um stöðu mína og kynvitund.“

Kynleiðréttingarferlið hófst formlega 2010 og var þá öðruvísi en það er í dag. Ugla telur sig hafa notið góðs af því að á þeim tíma var bara einn geðlæknir á landinu sem sá um allt, hvenær þú máttir byrja í ferli, fá nafnabreytingu, fara á hormóna og hvort þú mættir fara í aðgerð. „Ég greinilega uppfyllti hans „kröfur“ nægilega vel og var mjög ákveðin og staðföst í því sem ég ætlaði að gera, sem kom mér hratt í gegn. Árið 2012 tóku hins vegar í gildi ný lög í landinu um réttarstöðu einstaklinga með „kynáttunarvanda“ sem er örugglega eitt af fáránlegustu orðum sem ég veit um. Kynáttunarvandi gefur til kynna að transfólk eigi í einhverjum vanda en svo er ekki. Þetta snýst miklu meira um fullvissu um eigið kyn og vandinn liggur því hjá samfélaginu sem ekki er tilbúið til að viðurkenna upplifun transfólks.

Nú starfar sérstakt sex manna sérfræðiteymi á Landspítalanum sem ákveður hvort transfólk megi fara í kynleiðréttingarferli eða ekki. Þarna eru þó engir trans einstaklingar eða kynjafræðingar með sérþekkingu á transmálefnum sem er mjög athugavert. Teymið hefur alvald yfir lífi transeinstaklinga sem ætla í kynleiðréttingarferli en samt eru engar vinnureglur eða kröfur útlistaðar sem það þarf að fylgja. Þetta eru eiginlega bara geðþóttaákvarðanir. Nefndin segist vera að starfa í þágu transfólks en er í rauninni ekki að því. Fyrir marga transeinstaklinga er kynleiðréttingaraðgerð lífsnauðsynleg. Ég hefði til að mynda séð ósköp lítinn tilgang með lífinu hefði ég ekki getað farið í kynleiðréttingarferlið og því hefði verið agalegt að fá nei frá einhverri nefnd,“ segir Ugla og bætir við að hana langi að afnema sjúkdómsvæðinguna á transfólki og breyta störfum þessarar nefndar.

„Teymið hefur alvald yfir lífi transeinstaklinga sem ætla í kynleiðréttingarferli en samt eru engar vinnureglur eða kröfur útlistaðar sem það þarf að fylgja. Þetta eru eiginlega bara geðþóttaákvarðanir.“

Í Argentínu, Svíþjóð og nú nýlega í Danmörku hefur það verið gert. Þar koma einstaklingar til nefndarinnar, segjast vilja undirgangast ferlið og þá aðstoðar nefndin þau við það. „Sjúkdómsvæðingin var á sínum tíma notuð í baráttunni fyrir því að fá ferlið niðurgreitt og inn í heilbrigðiskerfið. Það er mjög mikilvægt að aðgerðirnar séu borgaðar enda er sjálfsvígstíðnin hjá fólki sem ekki hefur aðgang að þessu heilbrigðiskerfi gríðarlega há. Nú væri best ef sjúkdómsvæðingin hyrfi en ferlið héldist inni í kerfinu. Því má bæta við að alls ekki allt transfólk vill undirgangast kynleiðréttingarferlið, til að mynda fólk sem skilgreinir sig utan tvíhyggjunnar, hvorki sem karl né konu. Við erum einmitt að vinna í því að gera Trans-Ísland opnara fyrir þá einstaklinga en til að byrja með einbeittu samtökin sér einungis að fólki sem var á leiðinni í ferli,“ segir hún.

„Ég fékk loksins að vera manneskja, vera ég og var strax hamingjusamari,“ segir Ugla enn fremur um þær jákvæðu breytingar sem áttu sér stað í lífi hennar eftir að hún kom út sem trans. „Fólkið í kringum mig talaði um að ég hafi loksins fengið að blómstra. Ég tók strax mikinn þátt í félagslífi og er búin að vera mikið í félags- og mannréttindastörfum síðan þá. Um tíma datt ég alveg inn í staðalímyndina sem við tengjum við stelpur; málaði mig, horfði á „chick-flicks“ og afneitaði „strákalegu“ áhugamálum mínum. Nú er ég bara ég, spila tölvuleiki að vild og mála mig sjaldan, geri það kannski aðallega ef ég fer í drag. Það er ekki ég að mála mig og í raun ótrúlega merkilegt og kjánalegt hvað það getur verið sterk yfirlýsing að mála sig. Ég held að enginn geti passað í þau ofurþröngu box sem við flokkum konur og karla í.“