Næturtúrismi

Hvað gerir maður þegar ein milljón manna flykkist til landsins og hvergi er staður fyrir frið og ró?

Aukin sókn ferðamanna hingað til lands síðastliðin ár hefur gefið af sér margt gott. Fullt af allskonar sem áður var í niðurníðslu er nú á blússandi siglingu. Það má meira að segja fá gott kaffi á hverju götuhorni.

En ef spárnar reynast réttar og ferðamenn verða ein milljón árið 2015 verður kannski aldrei laus klefi fyrir litlu Gunnu og litla Jón í Laugardalslauginni. Kaffið ætti á hættu að seljast upp og skrúðganga yrði til og frá Hallgrímskirkju alla daga vikunnar. Níutíu prósent ferðamanna heimsækja Gullfoss og Geysi sem verða svo úttroðin svæði að náttúrudýrðin myndi varla sjást, bara fólk að súpa kók og senda snapchat. 

Rúllustigum yrði komið fyrir á Esjunni og skíðalyftum upp allan Hvannadalshnjúk. Verst af öllu er þó að hinn mikilvægi þáttur í sjálfsmynd Íslendinga: „Palli er einn í heiminum syndrómið“, gæti með öllu horfið! Hvert fer maður eiginlega þegar maður getur hvorki gólað í friði í Ódáðahrauni né heldur baðað sig einn í heitu lauginni á Seltjarnanesi?

Í myndinni The Dark Knight sem kom út árið 2008 mælti Harvey Dent hin fleygu orð „Nóttin er dimmust rétt fyrir sólarupprás.“ Borgarstjóri Gotham borgar var klár maður en hann hefur greinilega aldrei upplifað nótt sem aldrei verður dimm. Kæru vinir, „Palli er einn í heiminum syndrómið“ er ef til vill ekki í algjörri útrýmingarhættu. Þá örfáu daga og mánuði á ári sem sólin rétt tillir sér á sjóndeildarhringinn má vel nýta á annan hátt en að hrjóta uppi í rúmi. Á næturna er enginn við Gullfoss og Geysi og náttúrulaugarnar svo gott sem tómar.

Og það má líka vel leyfa sér smá pásu frá læðunum í miðborginni. Dalalæðan er þeim nefnilega ekkert síðri þó hún sé feimin og skríði einungis niður af hálendinu þegar fæstir eru á ferli. Hana má rekast á gefi maður sér tíma til að ferðast um fjöll og firnindi á næturna. Hún er mögulega eina læðan sem veitir kyrrð og sálarró. Velji maður að nýta sér nóttina í að ganga á fjöll má fullkomna kokteilinn með því að hvíla lúin bein í heitri uppsprettu, með fjallavatn í flösku og hlusta á morgunsöng fuglanna.

Kaffið mun samt örugglega ekki seljast upp og það er ekki endirinn á heiminum að þurfa að taka körfu í stað skáps í Laugardalslauginni. Erlendir gestir á Íslandi eru auk þess bara frekar frábærir. En gleymum því ekki að það er líka gott að njóta kyrrðarinnar í friði, fá að vera einn í heiminum um stundarsakir. Og til þess eru íslensku sumarnæturnar tilvaldar.