Ingibjörg Jara

Leikmyndahönnuðurinn Ingibjörg Jara segir okkur frá lífinu og leikhúsmenningunni í Berlín

Ingibjörg Jara lifir og þrífst í leikhúsheiminum í Þýskalandi. Hún kláraði nám í janúar í leikmyndateikningu í UDK háskólanum í Berlín og vinnur nú við gerð leikmyndar í leiksýningu eftir Brecht í leikhúsinu Berliner Ensemble sem verður frumsýnt í lok þessa mánaðar.

Hvaðan ertu?

Ég ólst upp í Þingholtunum og Vesturbæ Reykjavíkur. Allir í minni fjölskyldu eru meira og minna arkitektar eða myndlistarmenn. Mamma er líka leikmyndateiknari og pabbi ásamt tveimur eldri systkinum mínum eru arkitektar. Ég var alltaf að skottast í kringum mömmu niðri í leikhúsi og hef sjálf verið að föndra mikið í höndunum. Ég tók tímabil í grunnskóla þar sem ég saumaði mikið, hannaði föt og kom of seint á öll böll því ég var alltaf á síðustu stundu að sauma kjólinn.

Af hverju fórstu í þessa átt?

Þegar ég var á þriðja ári í MH fór ég til Danmerkur í listalýðháskóla sem heitir Kunsthøjskolen i Holbæk. Þar gat maður prófað allt mögulegt og fikrað sig áfram í alls konar listgreinum. Margir notuðu tímann til þess að gera möppu áður en þeir sóttu um í listaháskóla. Þetta var æðislegur tími og ég fékk tækifæri til að prófa mig áfram í hinu og þessu. 

Eftir MH fór ég í fornámið í Myndlistaskóla Reykjavíkur og þar fékk ég fyrst þessa leikhúshugmynd. Síðan flutti ég til Danmerkur til að læra dramatúrgíu, en ég fann að það var ekki alveg rétta nálgunin fyrir mig og hætti eftir eina önn. Við vorum stöðugt að fjalla um annarra manna leiksýningar og kryfja þær til mergjar, en mig langaði bara að skapa sjálf. Ég ákvað að fara til Berlínar og byrjaði í búningahönnun, skipti yfir í heimspeki og endaði með að klára nám í leikmyndahönnun. Það er mikilvægt að þora að breyta til eða hætta við.

Hvernig var að koma til Berlínar?

Það var ótrúlega gaman, þetta er svo allt öðruvísi en heima og í Danmörku. Berlín hefur breyst mikið, það er alltaf fullt að gerast og borgin er suðupottur í leikhúsheiminum. Það er lítið um fagurfræði og miklu meira um að eyðileggja og rífa allt niður, henda öllu í háaloft og sjokkera áhorfendur.

Stemningin í leikhúsunum hér og í skólanum sem ég er mjög hrifin af, fjallar um það samfélag sem við lifum í núna. Að það séu ekki bara tekin upp klassísk verk og þau sett fallega og stílhreint upp á svið, heldur að þau komi einhverri grunntilfinningu til skila sem hefur með samfélag okkar að gera. Að það sé pólitískt, krítískt og hafi áhrif á fólk.

„Mér finnst mikilvægt að leikmyndin tali til áhorfenda. Hún er ekki bara skrautmynd, bakgrunnur eða umhverfi heldur á hún að lifa og hreyfa sig með sýningunni og koma um leið ákveðnum tilfinningum til skila.“

Hverju er helst verið að ögra í leikhúsheiminum í Berlín?

Hér er enn þá verið að gera upp fortíðina og þannig hefur það verið síðustu ár. Það var mikið fjallað um þýska sögu í skólanum hjá mér, seinni heimsstyrjöldina og allan þann hrylling sem fylgdi henni auk skiptingu Þýskalands í austur og vestur.

Síðasta ár var afmælisár tónskáldsins Richard Wagner, þar sem hann hefði átt 200 ára afmæli. Þá voru settar upp Wagner óperur út um allt, en hann er umdeildur fyrir að hafa verið mikill gyðingahatari eins og margir á þeim tíma. Hitler hélt mikið upp á tónverkin hans og rit þar sem hans skrifaði um andúð sína á gyðingum.

„Hitler var fjölskylduvinur í Wagner fjölskyldunni og Bayreuth leikhúsið sem Wagner lét byggja var ein mesta nasistakirkjan.“

Bayreuth leikhúsið er líka enn svolítið skrítið batterý. Það er rekið af Wagner fjölskyldunni en samt haldi uppi með ríkisféi. Fyrst að þetta er ríkiseign ættu auðvitað að vera aðrir listrænir stjórnendur heldur en bara Wagner fjölskyldan. Að því leyti hefur fortíðinni ekki verið gerð nægileg skil.

Hefur þessi dýrkun á Wagner verið gagnrýnd í leikhúsunum?

Já, annað hvort er ekkert tekist á við þessa fortíð og verkin sett upp í hálfgerðum ævintýrastíl eða það er keyrt alla leið og gagnrýnt. Wagner var ótrúlegt tónskáld og við settum einmitt upp Niflungahringinn eftir hann í fyrra. En eftir því sem ég kafaði lengra í verk Wagners og áttaði mig á því hver hann var og hvað hann stóð fyrir þá finnst mér þessi mikla dýrkun undarleg og hvað honum er haldið hátt á lofti.

Hvað finnst þér þá um verk sem er verið að setja upp heima sem eru klassísk en endurspegla tíma þar sem t.d. var mikið um rasisma og kvenfyrirlitningu?

Það er kannski svipað og með Wagner þar sem hann var mikill gyðingahatari, rétt eins og margir hans samtímamenn. Öll þessi þjóðernisrómantík sem leggur áherslu á fegurð og þjóðarstolt getur að sumu leyti skapað fordóma og andúð á öðrum þjóðernum. En þá er spurningin, á maður ekki að setja neitt upp frá þessum tímabili?

Mér finnst hins vegar mikilvægt að ef klassísk verk eru sett upp sem geyma brenglaða mynd af samfélaginu, verði að taka afstöðu til verkanna. Það þýðir ekkert að setja verkin upp eins og ekkert sé. Hins vegar á ekki að banna neitt, því þá er búið að snúa öllu á hvolf.

Hvaða málefni finnst þér persónulega mikilvægt að takast á við í leikhúsi?

Það er oft ákveðin jafnréttisbarátta í því sem ég geri. Ástæðan er örugglega sú að kvenhlutverkin eru ekki upp á marga fiska í klassískum verkum sem eru eftir karla, og þá spyr maður: „Hvað á þetta að þýða?“

Umræðan um femínisma er mjög mikil heima á Íslandi miðað við hér í Þýskalandi. Mörgum finnst ekki nauðsynlegt að ræða jafnréttismál því jafnrétti sé náð og ekkert sem þarf að berjast fyrir lengur. Það viðhorf kom mér á óvart því mér finnst enn langt í land. Enn eru gamaldags viðhorf í þjóðarsálinni.

Hvernig fannst þér verk Ragnars Kjartanssonar Der Klang der Offenbarung des Gottlichen sem var sýnt bæði í Berlín og á Listahátíð Reykjavíkur?

Mér fannst mjög áhugaverður vínkill í þýsku samhengi að fegurðin hafi verið meginþemað í verkinu. Ég var á Íslandi þegar sýningin var frumsýnd í Berlín og sá í viðtali í sjónvarpinuað Þjóðverjar hefðu gagnrýnt verkið fyrir að vera alltof fallegt.

Fegurð og þá aðallega náttúrufegurð og falleg músík, eru hálfgerð bannorð í Þýskalandi og það hefur með fortíðina að gera. Það tengist því sem ég sagði áðan um Wagner, þjóðernisrómantíkina, þjóðrembuna og föðurlandsást. Þetta er allt öðruvísi á Íslandi. Íslendingar eru stoltir af landi sínu og þjóð og geta skilgreint sig sem Íslendinga. Stór hluti af okkar kveðskap og myndlist tengist náttúrufegurðinni og Íslendingar dásama fegurðina, því okkar fortíð er allt önnur. Við erum ánægð með okkar sérstöðu sem lítil eyja úti í Atlantshafi. Það áhugaverða er svo hvað Þjóðverjar leita samt mikið í náttúrufegurðina á Íslandi, þar blundar semsagt í þeim fegurðarþráin.

„Fegurð og þá aðallega náttúrufegurð og falleg músík, eru hálfgerð bannorð í Þýskalandi og það hefur með fortíðina að gera.“

Það er algjört tabú núna í Þýskalandi að vera stoltur af þjóðerni sínu. Þegar ég flutti hingað fyrst var heimsmeistarakeppnin í fótbolta haldin í Þýskalandi og það var í fyrsta sinn í langan tíma sem þýskir fánar blöktu úti um alla borg. Síðan þá hefur fólk smám saman vogað sér að flagga því margir burðast enn með fortíðina, líka okkar kynslóð. Margir jafnaldrar mínir fæddust eða ólust upp í austrinu í nokkur ár áður en múrinn féll. Þegar Þjóðverjar eru í útlöndum eða að ferðast þá vilja þeir ekkert endilega segja að þeir séu Þjóðverjar, því þeir eru oft litnir hornauga.

Heldurðu að Ragnar hafi verið meðvitaður um þetta þar sem hann valdi að sýna verkið aðeins í Þýskaland og á Íslandi?

Já, það hlýtur eiginlega að vera. Ég sá sýninguna í Þýskalandi með öðrum Íslendingum og Austurríkismönnum. Mínu þýska hjarta fannst pínulítið erfitt að horfa á verkið, út af allri fegurðinni. Og á sama tíma fannst mér einmitt það flott ögrun. Ég er orðin einhver blanda, það er smá Þjóðverji í mér líka.

Norðurlöndin eru alltaf tengd við þessa fortíð þar sem þau voru fyrirmyndaríki í augum nasista. Þannig að sjá Íslendinga setja upp svona verk í Þýskalandi vekur upp óþægilegar tilfinningar. Það er skrítin hreyfing hægri öfgamanna og þjórernissinna farin að ná bólfestu um alla Evrópu og einnig á Norðurlöndunum. 

Þú hannaðir sviðsmynd sem var sýnd í Schaubühne leikhúsinu í Berlín í fyrra. Hvernig var að vinna í þessu stóra og virta leikhúsi?

Sem Íslendingur kann maður náttúrlega ekki alveg á þetta stóra batterí, þar sem maður er vanur að allir séu í öllu og maður getur talað við hvern sem er um hvað sem er. Það virkar ekki hér því hér er miklu fleira fólk og margar undirdeildir með alls konar sérfræðingum. Fyrst vissi ég ekki alveg hvernig ég átti að snúa mér, en svo lærðist það smám saman.

Það getur verið svolítið ópersónulegt að vinna í stóru leikhúsi þar sem margir eru í húsinu í stuttan tíma í senn. Vinnuferlið í húsinu er oft um tveir mánuðir, þannig að mér fannst stundum eins og fólkinu fyndist varla taka því að kynnast. En mér líður alltaf best þegar ég er búin að læra á húsið og kynnast fólkinu. Að því leyti kann ég betur við minni verkefni.

Hvað myndir þú vilja sjá meira af heima í íslensku leikhúsi?

Það er rosalega mikið af flottu fólki í leikhúsinu heima, spennandi hlutir að gerast og ég hlakka til að taka þátt í þeirri starfsemi sjálf. Ég held að það gæti verið gaman að sjá meiri ögrun, hærri raddir, stærri áhættur og samfélagsgagnrýni.

Sérðu fyrir þér að þú munir vera að vinna bara í leikhúsi eða er eitthvað annað sem heillar líka?

Nei, mig langar að gera allt mögulegt. Ég held að ég sé ekki 100% leikhús alla leið.

Það er svo margt annað sem er skemmtilegt að gera. Ég get verið mikill sveimhugi og finnst gaman að breyta til og takast á við ný verkefni. Ég sé fyrir mér að ég muni vinna frjálsar eða meira í myndlist enda verð ég stöðugt að fara nýjar leiðir.

Ég er nú á leiðinni til Hamborgar og mun aðstoða við leikmyndargerðina á sýningu sem verður frumsýnd í október. Þá verður gott að vera nær sjónum. Eftir það er ýmislegt í kortunum en það er ekki búið að negla neitt niður, þannig að ég veit ekki hvort ég verð í Þýskalandi um áramótin, heima, í Danmörku eða jafnvel í New York. En til að byrja með langar mig að fara að flytja mig heim.