Hugrún Jónsdóttir

Með fullt hús af gestum eldar Hugrún fyrir okkur ítalskt gnocchi og talar um pólitíkina í kringum næringarráðleggingar

Geislandi af orku býður Hugrún okkur inn í íbúð systur sinnar Gígju, á Bárugötunni í Reykjavík. Hugrún segist stundum fá að sofa á sófanum um helgar í heimsóknum sínum til Íslands en hún hefur verið á miklu flakki síðustu misseri. Íbúðin er falleg og afar björt miðað við að vera í kjallara en ætli hækkandi sólin hafi ekki eitthvað um það að segja. „Ég vona að við getum borðað úti. Ég lofaði vinum mínum svakalegu garðpartýi svo það er eins gott að standa við það. Ég notaði nefnilega tækifærið og bauð vinum sem ég hef ekki hitt lengi. Þannig slæ ég tvær flugur í einu höggi.“

Hugrún stundar nám í Kaupmannahöfn en hyggst vera á Íslandi í sumar. Námið heitir: „Global Nutrition and Health“ og útskrifast hún um jólin. Námið segir hún vera þverfaglegt og koma inn á svið félags- og náttúruvísinda í tengslum við næringu og heilsu fólks. „Námið er yfirgripsmikið, en ég hef mestan áhuga á að pæla í matvælaframleiðslu í heiminum og horfa á pólitíkina í kringum næringarráðleggingar.“

„Lýðheilsustofnanir ráðleggja að þriðjungur okkar mataræðis samanstandi af grænmeti og ávöxtum. Samt fá bændur og ræktendur lang minnstan hluta af heildarupphæð styrkveitinga til landbúnaðar og matvælaframleiðslu í Evrópu.“

„Þessir styrkir fara í að urða hluta framleiðslunnar til þess að halda uppi verðinu í stað þess að efla sjálfbærar ræktunaraðferðir og þar með auka framboð og fjölbreytni á markaði. Yfirvöld eru þannig að ýta yndir ójöfnuð og takmarka aðgengi að hollri fæðu sem hefur fyrirbyggjandi áhrif á ýmsa sjúkdóma. Skólinn kennir manni að skoða matvæli út frá stefnumótun stjórnvalda og hegðun stórfyrirtækja. Þetta er allt saman mjög áhugavert.“

Hvað ætlarðu að elda fyrir okkur?

Fyrst ætla ég að bjóða ykkur heimagert íste og elda síðan gnocchi eftir uppskrift sem ég lærði af ítalskri vinkonu minni. Hún fékk hana frá ömmu sinni en ég hef prófað mig aðeins áfram í þessu. Þetta er rosalega einfalt um leið og maður sér hvernig þetta er gert. Ég ætla að fá gestina til að hjálpa mér við að gera deigið en það er eins konar pasta gert úr kartöflum. Með því ætla ég svo að hafa heimagert basilpestó.

Hvernig útbýrðu deigið í gnocchi?

Ég var búin að undirbúa deigið en uppistaðan eru kartöflur sem ég sauð, skrældi og stappaði. Mikilvægt er að láta kartöflurnar kólna alveg niður og leyfa þeim að standa í kæli. Út í kartöflurnar bæti ég tveimur eggjarauðum og spelthveiti. Allir geta hjálpast að við að fletja út deigið í strimla og skera í litla „pasta“ bita. Til að ná góðri áferð má velta bitinum upp úr hveiti sem fara síðan í pottinn og eru látnir sjóða í rúmar 5 mínútur.

Hvernig er ísteið gert?

Ég nota te frá Pukka sem heitir Detox og er með anís og fennel bragði. Ég leyfi pokanum að malla í rúman hálftíma. Út í teið bæti ég hunangi ef þarf, nóg af klökum og smá af lakkrísdufti sem fæst í Epal. Þetta er hrá lakkrísrót sem gefur alveg sjúkt bragð. Ég er reyndar að gera þetta í fyrsta skipti en sjáum til hvernig þetta mun bragðast.

En pestóið?

Pestó er mjög „beisik“ uppskrift þar sem hlutföllin eru smekksatriði. Ég nota basiliku frá Sólheimum sem fæst í frú Laugu en hún kemur með blómunum, sem gerir hana mun bragðsterkari en aðrar. Auk basilikunnar nota ég möndlur sem ég rista í ofninum. Ég nota þær fremur en furuhnetur. Þá bæti ég við ólívuolíu, salti og pipar, nóg af hvítlauk og fetaosti. Ég reyni að styðja hreina íslenska framleiðslu og keypti fetaostinn „Grikki“ frá Erpsstöðum sem fæst líka í frú Laugu, hann er algjört æði. Hefði ég haft tíma til að fara upp í sveit þá hefði ég sótt geitaost í pestóið frá geit sem ég er með í fóstri hjá Jóhönnu í Háfelli. Þessu er öllu blandað í matreiðsluvél en ekki of lengi því ég vil hafa grófa áferð. Þá er pestóið tilbúið!

Hefur áhugi fyrir matargerð alltaf verið fyrir hendi?

Áhuginn kviknaði eftir að ég flutti til Berlínar en fyrir það var hafragrautur í öll mál. Ég hef að vísu alltaf haft góða tilfinningu fyrir mat. Ég er fljót að finna hvað virkar þar sem ég er alveg óhrædd við að prófa mig áfram. Það er mikil upplifun að vera í eldhúsinu, ég fer í minn eigin heim og skapa eitthvað. Ég reyni að fylgja ekki uppskriftum því þá finnst mér ég ekki lengur vera að skapa heldur bara að fylgja einhverjum leiðbeiningum í bókum.

Hvaðan færðu innblástur?

Innblástur sæki ég í litlar sælkerabúðir. Það að reika um í þeim og fletta í gegnum matreiðslubækur gefur mér mikið. Mér þykir fátt skemmtilegra.

Ertu dugleg að nýta mat?

Já, ég er mjög dugleg að nýta mat. Ég hendi aldrei neinu. Ég skora stundum á mig að fara ekki í búðina fyrr en ég hef nýtt alla afganga en þannig koma bestu réttirnir fram en kannski líka þeir verstu. Í fyrra fórum við nokkur saman á Pólar Festival á Stöðvarfirði sem er listahátíð með áherslu á hagnýtar listir og „skill share“. Þá fylltum við heilan bíl af grænmeti og ávöxtum, frá bóndum og heildverslunum, sem hefðu annars farið í súginn og keyrðum með það austur á hátíðina. Þar var síðan fiskað í sjónum, sótt bygg á Vallernesi og farið á fjöll til að týna grös og ætjurtir. Hátíðargestir gátu útbúið sína eigin „dressingu“ og grillað fisk og grænmeti á risastóru sameiginlegu grilli og borðað af rabarbaralaufum. Þetta heppnaðist æðislega vel.

Sólin hefur ákveðið að láta sjá sig í garðinum á Bárugötunni svo vinirnir hjálpast að við að færa borð og áhöld út í garð. Hugrún ber fram gnocchi bitana, pestó og lífræna tómata. Allir hjálpa sér sjálfir og setjast á stéttina til að sleikja sólina. Gestir eru sammála um að pestóið sé eitt það besta sem þau hafi smakkað og að aðalrétturinn komi skemmtilega á óvart. „Ég vissi að sólin kæmi og ég vissi að það yrði garðpartý,“ segir Hugrún.